Fara í efni

Mandólín tónleikar

Hljómsveitin Mandólín var stofnuð snemma árs 2014 með það markmið að spila skemmtilega og hjartavermandi tónlist úr öllum áttum. Argentínskir tregatangóar, íslensk gullaldardægurlög, ólgandi klezmertónlist, seiðandi kvikmyndamúsík, færeyskir hringdansar og meira og fleira hafa ratað inn á efnisskrár sveitarinnar sem æfir vikulega í pínulitlum garðskála í Kópavogi.
Engir tónlistarstílar né straumar eru Mandólín óviðkomandi. Sveitarmeðlimir hika ekki við að tileinka sér alls kyns framandi tónlistarhefðir, sem þeir þekkja hvorki haus né sporð á, og aðlaga að sínu músíkalska nefi.
Mandólín hefur komið fram á ótal tónleikum víða um land, ein síns liðs og í samspili við aðra.
Sveitina skipa Ástvaldur Traustason og Sigríður Ásta Árnadóttir á harmonikkur, Guðrún Árnadóttir og Elísabet Indra Ragnarsdóttir á fiðlur, Óskar Sturluson á gítar og bouzouki, Martin Kollmar á klarinett og Bjarni Bragi Kjartansson á bassa. Að auki eiga allir hljómsveitarmeðlimir það til að bresta í söng og láta til sína taka á margvísleg hljóðfæri af ýmsu tagi.
Ókeypis tónleikar í boði Hveragerðisbæjar.
Getum við bætt efni síðunnar?