Fara í efni

Seyruhreinsun

Helstu upplýsingar um hreinsun rotþróa í Grímsnes- og Grafningshreppi
Hreinsun rotþróa er gerð skv. kröfum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Umhverfisstofnunar. Í Grímsnes- og Grafningshreppi eru rotþrær hreinsaðar á fimm ára fresti. Sveitarfélagið er í samlagi við fimm önnur sveitarfélög á Suðurlandi og reka sérstakan seyrubíl sem sér um að hreinsa rotþrærnar og móttökustöð á Flúðum. Seyrunni er safnað á Flúðum þar sem hún fer í sérstakan kalkara þar sem henni er blandað við kalk og stundum grasfræ. Að lokum er kölkuð seyra notuð í uppgræðslu í afgirtan afrétt í samstarfi við Landgræðslu Ríkisins.

Hægt er að sjá hvenær rotþróin hjá þér var síðast heimsótt með því að fara inn á http://www.map.is/sudurland/ skrifa heimilisfang eignar í gluggann uppi í vinstra horninu þar sem stendur "Finna/Search". Síðan þarf að haka við fráveita, sem er undir Veitur (ýta á plúsinn fyrir aftan Veitur) í valglugga hægra megin og þá kemur upp punktur þar sem rotþróin er staðsett. Ef ýtt er á punktinn koma upp upplýsingar um númer rotþróar og hvenær hún var síðast hreinsuð.

Frekar upplýsingar varðandi rotþróarhreinsun er hægt að fá á heimasíðu verkefnisins seyra.is eða með því að hafa samband við þjónustufulltrúa verkefnisins með tölupósti á netfangið seyra@seyra.is eða í síma 480-5550

Aukahreinsun kostar kr. 45.000,- sem hægt er að losa samhliða annarri losun.

Aukahreinsun sér ferð kr. 110.000,-

Hér að neðan má sjá helstu upplýsingar um rotþrær, hreinsunarferlið og algengar spurningar. Einnig er hægt að sjá fróðlegt myndband um seyruverkefnið.

 

Hver hreinsar rotþróna?

Sveitarstjórnum er skylt að sjá til að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm skv. reglugerð 799/1999 um meðhöndlun seyru. Sveitarstjórnum er heimilt skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að setja samþykktir og gjaldskrár um meðferð úrgangs og skólps. Gjaldið sem innheimt er með fasteignagjöldum er einungis notað til að standa undir kostnaði við hreinsun rotþróa og förgun á seyru. Árlegt rotþróargjald má sjá á birtum álagningarseðli sveitarfélagsins.

Í Grímsnes- og Grafningshreppi eru rotþrær hreinsaðar á fimm ára fresti. Sveitarfélagið er í samlagi við fimm önnur sveitarfélög á Suðurlandi og reka sérstakan seyrubíl sem sér um að hreinsa rotþrærnar og móttökustöð á Flúðum. Seyrunni er safnað á Flúðum þar sem hún fer í sérstakan kalkara þar sem henni er blandað við kalk og stundum grasfræ. Að lokum er kölkuð seyra notuð í uppgræðslu í afgirtan afrétt í samstarfi við Landgræðslu Ríkisins.

Þarf ég að gera eitthvað?

Eigendur fasteigna með rotþró í sveitarfélaginu eiga ekki að þurfa að gera neitt. Hreinsa á rotþróna á fimm ára fresti. Ef skipt er um rotþró eða hún færð má láta vita á seyra@seyra.is svo hægt sé að staðsetja hana rétt og skrá í gagnagrunn.

Hvað er gert við seyruna?

Mikilvægt er að nýta seyruna sem hagkvæmast m.t.t. kostnaðar og umhverfis. Þar til árið 2016 var seyrunni ekið á Álfsnes til Sorpu. Eftir að Sorpa gat ekki tekið lengur á móti seyrunni var ákveðið að nýta hana til uppgræðslu afréttar í Hrunamannahreppi. Samkomulag er á milli sveitarfélaganna Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Bláskógabyggðar, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Flóahrepps og Ásahrepps varðandi uppbyggingu og rekstur móttökustöðvar á Flúðum. Í stöðinni er seyrunni blandað við kalk þannig að úr verði áburður sem hægt er að nýta á hrjóstrugum svæðum með góðum árangri. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landgræðsluna. Þessi tilhögun sparar innkaup á erlendum áburði og dýra förgun á seyru.

 

Frétt á RÚV

Frétt á Sunnlenska

Almennt um rotþrær

Þar sem ekki er hægt að tengjast sameiginlegri hreinsistöð á vegum sveitarfélagsins er notast við rotþrær eða annars konar hreinsivirki. Skólp er mengunarvaldur og því mikilvægt að vanda til verks. Gerð er krafa um tveggja þrepa hreinsun frá íbúðarhúsum og orlofshúsum. Tveggja þrepa hreinsun felst í rotþró og siturbeði sem fanga úrgangsefni úr skólpinu og valda niðurbroti á mengunarefnum áður en þau berast út í umhverfið.

Um rotþrær gildir staðallinn ÍST EN 12566, auk útgefinna leiðbeininga Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun hefur gefið út nýjar leiðbeiningar fyrir minni fráveitur. Fyrri leiðbeiningar voru frá 2004 og þótti tímabært að uppfæra þær og bæta við upplýsingum um fleiri fráveitu- og salernislausnir. Leiðbeiningarnar eru ætlaðar einstaklingum, byggingaraðilum, hönnuðum og rekstraraðilum og eru unnar af EFLU. Hér má nálgast leiðbeiningarnar.

Mjög mikilvægt er fyrir fasteignaeigendur sem hyggja á að endurnýja rotþró ásamt nýjum byggingaraðilum að kynna sér þessar leiðbeiningar. Þar má finna stærðarútreikninga á rotþróm og siturbeðum ásamt upplýsingum um tilbúnar hreinsistöðvar. Ef fasteign er innan vatnasviðs Þingvallavatns gilda sérstakar reglur sem gefnar eru út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og hvetjum við fasteignaeigendur á því svæði að kynna sér þær reglur sérstaklega og má finna þær hér.
 

Auk þess er að finna kröfur um rotþrær í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með áorðnum breytingum og reglugerð nr. 798/1999 Reglugerð um fráveitur og skólp.

Rotþró er tankur eða röð tanka sem hægir á flæði skólps og stuðlar þannig að viðskilnaði fastra efna frá frárennslisvatni. Föst efni í frárennsli sökkva því til botns á meðan léttari efni líkt og fita fljóta efst og mynda oft skán sem getur harðnað (flotlag). Rotnun á sér stað í föstum efnum og úr losna gastegundir en hluti fastra efna ná ekki að rotna og myndast því seyra á botni rotþróa (botnlag). Á milli flotlags og botnlags er skólpvatn sem berst milli hólfa í rotþrónni og að lokum út í siturlögn. Í húsum með fasta búsetu má reikna með að botnfall seyru sé um 150-200 lítrar á ári á hverja manneskju.

Rotþrær eru flestar með þrjú misstór hólf til að hámarka afköst og vernda siturlögn frá föstum efnum.

 

Þriggja þrepa rotþró

Siturlagnir

Skólpvatn úr rotþró skal leiða í siturlögn skv. leiðbeiningum Umhverfisstofnunar. Siturlögn er fráveiturör úr rotþró sem gatað er á rörbotni og allt upp að miðju rörs. Athugið að nota skal rör ætluð í siturlögn en ekki hefðbundin drenrör.  Siturlögnin er loftræst á enda og skal halli á henni vera um 2 ‰ á hvern lengdarmetra til að fá sem jafnast rennsli í lögninni. Gera skal ráðstafanir þannig að ekki frjósi í siturlögn á meðan notkun stendur.

Leggja skal siturlagnir í að lágmarki 30 cm þykkt malarbeð með kornastærð 16-25 mm. Undir malarbeðinu skal vera lekt jarðvegslag. Krafa er um að minnst 100 cm séu frá siturlögn niður á hæstu grunnvatnsstöðu. Stranglega bannað er að leggja siturlögn beint ofan á hraunlag eða annan gljúpan jarðveg með beina tengingu við grunnvatn. Ef setja þarf niður rotþró í hraunlendu jarðlendi skal leita ráða við að auka hreinsun. Ráðlagt er að leggja niður a.m.k. 1 m þykkan þjappaðan malarpúða og ofan á það kemur 60 cm þykkt malarlag. Leita skal ráðgjafar pípulagningarmeistara við lagningu rotþróa.

Stærð og staðsetning

Stærð og staðsetning rotþróar skal ákveðin af pípulagningarmeistara hússins eða lagnahönnuði. Upplýsingar um stærðir og frágang má finna í riti Umhverfisstofnunar;  Minni fráveitur - leiðbeiningar.

Ferlið við hreinsun

Það er algengur misskilningur að rotþrær þurfi aldrei að hreinsa. Ef rotþró er ekki hreinsuð reglulega safnast fyrir í henni föst efni, botnfall og flotlag (seyra), sem ekki rotna. Þessi seyra truflar virkni þróarinnar og gerir hana að lokum gagnslausa. Gera þarf ráð fyrir að í rotþróna safnist 100–200 lítrar af seyru á hvern einstakling á ári. Þannig skerðist það rúmmál rotþróar sem nýtist til að brjóta niður örverur.

Ef rotþró er ekki hreinsuð getur skólp farið að flæða út í jarðveginn sem getur valdið heilsutjóni á mönnum og dýrum.

Seyrubíllinn virkar þannig að dælt er upp úr rotþrónni inn í búnað á seyrubílnum sem aðskilur fast efni frá skólpvatninu. Skólpvatninu er í kjölfarið skilað aftur í rotþróna. Algengur misskilningur er um að rotþróin sé tæmd algjörlega við seyrulosun. Vatninu er alltaf skilað til baka til að tryggja rétta virkni.

Eftir að rotþró hefur verið hreinsuð er það merkt á kortasjá sveitarfélagsins (www.map.is/sudurland) undir „Veitur/Fráveita/Rotþrær“. Hægt er að sjá hreinsunarsögu rotþróa í sveitarfélaginu með því að ýta á punktinn sem kemur þegar búið er að haka í „Rotþrær“. Ekki er lengur skilinn eftir límmiði eftir að rotþró hefur verið hreinsuð.

Rotþró hreinsuð

Rotþró fyllt aftur.

Frágangur og aðgengi

  • Rotþrær verða að vera aðgengilegar fyrir hreinsunaraðila, ef það er mikill gróður þá er gott að merkja staðsetninguna með stöng eða flaggi. Þannig getur hreinsunaraðili gengið til verks þó að enginn sé heima við.
  • Gæta þarf þess að hreinsunaraðili komi ekki að læstu hliði.
  • Gæta þarf þess að fjarlægð frá aðgengi bíls að rotþró sé ekki lengri en 60 metrar.
  • Vinsamlega athugið að hvorki er hægt að segja nákvæmlega til um hvenær hreinsunaraðili hreinsar rotþró né óska eftir ákveðnum hreinsunartíma.

Stífluð rotþró

Ef rotþró er stífluð eða rennsli í hana er hægt eru hér nokkur atriði sem gætu orsakað það:

  • Ef langt er síðan hús var notað getur myndast hörð skán efst í rotþró. Hægt er að brjóta hana með priki og losa um hana.
  • Siturbeð gæti verið stíflað og það rennur ekki frá þrónni. Hugsanlega gæti verið jarðvatn í siturbeði og hún því ekki virk.
  • Rotþróin hafi missigið og hallar að stút inn í þrónna
  • Rotþróin er of lítil m.v. notkun á húsnæði.

Best er að fá fagaðila til að meta ástand á rotþró og ákveða næstu skref.

Ef fagaðili staðfestir að ekkert sé að rotþró og að eingöngu þurfi að hreinsa hana sendið þá póst með staðfestingu fagaðila á seyra@seyra.is og óskið eftir aukalosun. Vinsamlega tilgreinið heimilisfang eignar og erindi.

Gjaldskrá fyrir aukahreinsanir má sjá hér.

Það var ekki hreinsað hjá mér og punktur við mína rotþró er rauður

Nokkrir hlutir geta orsakað það að ekki reynist unnt að hreinsa rotþró:

  • Rotþró finnst ekki. Best er að merkja stút með priki eða flaggi og hreinsa frá gróður þannig að auðvelt sé fyrir tæmingaraðila að finna hana.
  • Stútur er of lítill. Lágmarksstærð á stút til að hægt sé að tæma rotþró er ø110 mm.
  • Enginn stútur. Bæta þarf við stút á rotþróna
  • Hlið er læst. Tryggja þarf að seyrubíll hafi aðgang að læstum hliðum.
  • Of langt er í rotþró. Athuga þarf að fjarlægð frá aðgengi seyrubíls að rotþró sé ekki lengri en 60 m.
  • Aðgengi að rotþró takmarkað. Mögulega er ekki hægt að komast að rotþró.

Yfirleitt er ástæða þess að rotþró er ekki tæmd skrifuð í athugasemd í skráningarkerfi á kortavefnum.

Vinsamlegast hafið samband við seyra@seyra.is til að athuga með ástæðu þess að ekki var hægt að tæma rotþró.

Það kemur fram að búið sé að tæma rotþróna hjá mér en hún er enn full

Það er algengur misskilningur að rotþrær þurfi aldrei að hreinsa. Ef rotþró er ekki hreinsuð reglulega safnast fyrir í henni föst efni, botnfall og flotlag (seyra), sem ekki rotna. Þessi seyra truflar virkni þróarinnar og gerir hana að lokum gagnslausa. Gera þarf ráð fyrir að í rotþróna safnist 100–200 lítrar af seyru á hvern einstakling á ári. Þannig skerðist það rúmmál rotþróar sem nýtist til að brjóta niður örverur.

Ef rotþró er ekki hreinsuð getur skólp farið að flæða út í jarðveginn sem getur valdið heilsutjóni á mönnum og dýrum.

Seyrubíllinn virkar þannig að dælt er upp úr rotþrónni inn í búnað á seyrubílnum sem aðskilur fast efni frá skólpvatninu. Skólpvatninu er í kjölfarið skilað aftur í rotþróna. Algengur misskilningur er um að rotþróin sé tæmd algjörlega við seyrulosun. Vatninu er alltaf skilað til baka til að tryggja rétta virkni.

Reglugerðir

Samþykkt um fráveitur í Grímsnes- og Grafningshreppi má finna á heimasíðu sveitarfélagsins. Fasteignaeigendur eru hvattir til að kynna sér þær. Einnig má benda á eftirfarandi rit og reglugerðir:

Frekari upplýsingar

Upplýsingar um fráveitu og hreinsun rotþróa má sjá á heimasíðu sveitarfélagsins www.gogg.is og á www.seyra.is

Þjónustufulltrúa Seyruverkefnis má nálgast í póstfang seyra@seyra.is.

Síðast uppfært 18. september 2024
Getum við bætt efni síðunnar?