Fara í efni

Hitaveita

Hitaveita Grímsness- og Grafningshrepps er sjálfstætt fyrirtæki, sem Grímsnes- og Grafningshreppur á og starfrækir. Tilgangur hitaveitunnar er að afla, selja og veita heitu vatni um orkuveitusvæði sitt og reka aðra þá starfsemi sem því tengist. Orkuveitusvæði hitaveitunnar er svæðið á Borg og næsta nágrenni.

Hér að neðan má sjá helstu upplýsingar um hitaveitusvæðið, tengingar og notendaskipti.

Senda inn álestur

Hér er hægt að senda inn álestur til hitaveitunnar. Árið 2023 verður byrjað að lesa af mælum einu sinni á ári en ekki ársfjórðungslega líkt og áður. Ef grunur er um van- eða ofáætlun er gott að senda inn stöðuálestur.

Tilkynna notendaskipti

Við notendaskipti þarf að skrá nýjan notanda til að reikningar séu skráðir á réttan aðila. Hægt er að tilkynna notendaskipti í síma 480-5500, með tölvupósti á gogg@gogg.is eða með þessu eyðublaði.

Almenna reglan er sú að sá notandi sem er skráður fyrir mæli er ábyrgur fyrir að tilkynna notendaskipti. Húseigendur bera ábyrgð á því að réttur aðili sé skráður yfir orkunotkun. Verði húseigandi eða trúnaðarmaður hans þess var að orkukaupendaskipti hafa orðið án þess að þau hafi verið tilkynnt, ber honum að gera viðvart um það. Vanræki húseigandi þessa tilkynningaskyldu sína ber hann ábyrgð á ógreiddum orkureikningum á þeim notkunarstað.

Við notendaskipti þarftu að vera með upplýsingar um kennitölu þess sem er að flytja út og kennitölu þess sem er að flytja inn, þ.e.a.s. kennitölur þeirra sem skráðir voru fyrir mælum og þeirra sem skrá á fyrir mælunum.

Þá þarf að skrá netfang og símanúmer þess sem tekur við mælum til að hægt sé að senda inn tilkynningu um notendaskipti.

Ekki þarf að tilkynna breytingar á eigendum vegna vatns- og fráveitugjalda, því reikningar eru gefnir út á eigendur eins og þeir eru skráðir í Fasteignaskrá.

Hvar er rekin hitaveita?

Grímsnes– og Grafningshreppur rekur hitaveitu á afmörkuðu svæði í sveitarfélaginu. Hitaveiturnar eru tvær, ein hitaveita er rekin með vatni úr borholu í Kringlu og hitt notast við vatn frá Vaðnesi. Helstu svæði sem tengd eru vatnsveitu sveitarfélagsins eru eftirfarandi:

  • Hraunborgir
  • Hestland
  • Kiðjaberg
  • Borg í Grímsnesi
  • Minni-Borgir
  • Bjarkarborgir
  • Þórisstaðir
  • Minna-Mosfell
  • Þóroddstaðir
  • Öldubyggð
  • Svínavatn

Einnig reka eftirfarandi aðilar hitaveitur í sveitarfélaginu:

  • Veitur reka hitaveitu frá Öndverðarnesi að Miðengi til austurs og upp Þingvallaveg að Steingrímsstöð og Úlfljótsvatni. Upplýsingar um þjónustu Veitna í Grímsnes– og Grafningshreppi má sjá á heimasíðu veitna, www.veitur.is.
  • Orkubú Vaðness rekur hitaveitu í Vaðnesi og Snæfoksstöðum. Hitaveita Grímsnes- og Grafningshrepps hefur tekið þá hitaveitu yfir.
  • Hitaveita Hæðarenda er með hitaveitu á Hæðarenda, hluta af Klausturhólum og Kerhrauni.
  • Sólheimar reka hitaveitu í sínu þéttbýli.

Umsókn

Til að tengjast Hitaveitu Grímsnes– og Grafningshrepps þarf að sækja um tengingu á þar til gerðu eyðublaði sem nálgast má hér til hægri (neðst á síðu ef notað er snjalltæki).

Þegar umsókn er móttekin er sendur greiðsluseðill í heimabanka. Þegar greiðsla er móttekin mun verktaki á vegum sveitarfélagsins vera í sambandi við byggingaraðila varðandi heimtaug. Ef einhverjar athugasemdir eru við umsókn mun aðili frá vatnsveitunni vera í sambandi við umsækjanda.

Lagnir

Húseigandi sér um að leggja lögn frá inntaksrými/inntaksskáp að lóðarmörkum við götu. Lögnin skal vera ø20 mm einangruð PEX lögn í einangrunarflokki 1.

Hitaveitan sér um tengingu lagnar við stofnlögn og tengir eftirfarandi í inntaksrými eða inntaksskáp:

  • Inntaksloka
  • Síu
  • Hemil/mæli
  • Mælistút

Þessi búnaður er eign veitunnar. Allar lagnir og búnaður innanhúss eftir mælistút á mæligrind er í eigu og alfarið á ábyrgð húseiganda.

Inntaksrými í íbúðarhúsum

Tengigrind skal að jafnaði koma fyrir við inntaksloka. Ef tengigrind er annars staðar skal lögn þangað vera óhulin, án greinistykkja og vel aðgengileg starfsfólki hitaveitunnar. Sérstakt leyfi þarf frá hitaveitu ef af sérstökum ástæðum er ekki hægt að koma tengigrind fyrir við inntaksloka. Ef tengigrind er ekki við inntaksloka getur hitaveitan krafið eigandann um kostnað af lögninni frá inntaksloka að tengigrind og að sú lögn verði framvegis á ábyrgð hans. Niðurfall skal ávallt vera í nánd við tengigrind og við inntaksloka.

Hæð mælitækis í tengigrind skal vera mest 1,2 metrar og minnst 0,5 metrar frá fullfrágengnu gólfi. Hæð ofan við mælitæki að lofti skal vera minnst 0,7 metrar, engin fyrirstaða má vera í milli. Óheimilt er að byggja sérstakleg utan um og loka af tengigrind, hitaveitan þarf að minnsta kosti 1,5 metra fyrir framan tengigrind og 0,5 metra til hvorrar hliðar við mælitæki, svo þjónusta megi tengi­grindina og mælitæki. Þegar tengigrind er staðsett í tengiskáp utanhúss skal gera ráð fyrir staðsetningu mælabúnaðar þannig að hann sé vel aðgengilegur og auðveldur aflestrar.

Tengigrind skal ætíð vera aðgengileg starfmönnum hitaveitunnar, þannig að hægt sé að lesa af mælum á auðveldan hátt og þjónusta búnað hitaveitunnar í tengigrind.

Staðsetning tengigrinda skal sýnd á byggingarnefndarteikningum. Inntaksrými fyrir heitt vatn skal vera í samræmi við byggingarreglugerð.

Þegar búnaður í tengigrind er innsiglaður s.s. mælar, hemlar, rennslisstillar og hitaþreifarar skal eigandi tryggja að innsigli verði ekki fyrir hnjaski. Eiganda ber umsvifalaust að tilkynna til hitaveitunnar ef vart verður rofs á innsigli. Aðeins hitaveitan og fulltrúar hennar mega rjúfa innsigli á tengingum. Innsigli mæliverks má ekki rjúfa nema á faggiltri prófunarstofu.

Í tengigrind er sía sem þjónar þeim tilgangi að minnka líkur á að óhreinindi komist í hitakerfi eiganda og valdi truflunum á rekstri þess. Sían er eign hitaveitunnar sem annast endurnýjun hennar.

Hitaveitan getur ákveðið að takmarka hámarksflæði í tengigrind með þar til gerðum rennslisstillum (hemill). Hitaveitan velur stilligildin þannig að tryggt sé að þau skerði ekki eðlilegan aðgang að heitu vatni til hitakerfis eiganda. Rennslisstillar skulu innsiglaðir af hitaveitunni og sýnilega merktir með raunstilligildum.

Inntaksskápur í húsum þar sem ekki er dagleg viðvera

Þar sem ekki er dagleg viðvera, svo sem í frístundahúsum, hesthúsum og þess háttar skal húseigandi setja upp viðurkenndan, vatnsheldan og einangraðan skáp utanhúss fyrir inntaksbúnað.

Tengiskápurinn er í eigu húseiganda en verður að rúma vel allan búnað veitunnar. Hurðin verður að vera vel opnanleg (að minnsta kosti 120° ) svo auðvelt sé að komast að inntaksbúnaði og þjónusta með góðu móti.

Lágmarkskröfur fyrir tengiskáp:

  • Stærðir: Hæð 70 cm, breidd 60 cm og dýpt 25 cm
  • Vatns– og regnheldur
  • Einangrun samsvarandi 2,5 cm steinull
  • Neðri hluti tengiskáps skal ekki vera hærra yfir gólfi en 20 cm.

Ofangreind stærð rúmar búnað veitunnar, bæði fyrir inntak hita og vatnsveitu. Ef húseigandi setur stýribúnað sinn í tengiskápinn þarf hann að vera stærri sem því nemur.

Starfsmenn Hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps verða að hafa greiðan aðgang að tengiskáp til eftirlits og viðhalds og hafa lykil ef læst hlið er á heimreiðinni. Athygli er vakin á því að ekki verður hleypt á húsið ef skurður eða hola er við tengiskápinn.

Ef tengiskápur er ekki jarðfastur þarf að ganga þannig frá pípum frá jörðu og upp í skápinn, að ekki sé hætta á frostskemmdum.

Húseigandi annast lagnir frá tengiskáp inn í hús og sér um tengingu og frágang bakrennslis hitakerfis á fullnægjandi hátt á frostfríu dýpi.

Í frístundahúsum er gert ráð fyrir að vatn sé afhent um hemil sem takmarkar rennsli í stað rennslismælis. Breyting á stilligildi hemils fer fram samkvæmt ákvæðum í gjaldskrá hitaveitunnar.

Vegna hættu á frostskemmdum skal eigandi ganga þannig frá hitakerfi að tryggt sé að rennsli stöðvist ekki í heimæð. Allar lagnir frá utanhúss tengiskáp og inn að hitakerfi sem og bakrásarlögn eru hluti hitakerfis.

Eigandi gengur frá tengingu bakrásarlagnar í frostfrítt viðurkennt frárennsliskerfi sbr. Rb-blað nr. (53) 012. Þegar utanhúss tengiskápur er varinn af hálfu hitaveitunnar með hjárennsli, skal tryggja tengingu þess beint í grávatnslögn eða frárennsliskerfi. Óheimilt er að nýta þetta hjárennsli í snjóbræðslu, heita potta o.þ.h.

Hitastig og þrýstingur

Aðstæður í veitukerfi hitaveitunnar eru mjög mismunandi bæði varðandi þrýsting og hitastig. Þéttleiki og hæðarlega byggðar er mismunandi og þar af leiðandi er þrýstingur og hiti misjafn frá einum stað til annars.

Í dreifbýli og á orlofshúsasvæðum er stefnt á 50°C sem lágmarkshita við tengigrind.

Í þéttbýli þar sem mælar eru notaðir er miðað við að framrásarþrýstingur við inntak sé að lágmarki 2 bar og að hámarki 8 bar í eðlilegu rennsli. Þar sem notkun er stýrt með hemlum eiga þrýstimörkin ekki við. Rekstarskilyrðin miðast við eðlilegar aðstæður.

Áhleyping

Til að áhleyping hitaveitu geti farið fram þarf eftirtalið að vera uppfyllt:

Heimæðagjald frágengið.

Hita- og neysluvatnskerfi fullfrágengið.

Frárennslisbúnaður í jörðu fullgerður.

Tengiskápur uppfylli kröfur veitunnar.

Aðgengi að tengiskáp tryggt. Tengiskápurinn skal vera vel aðgengilegur og ekki er heimilt að byggja yfir hann eða hindra aðgengi. Ávallt er krafa um tengiskáp og er hemill ekki tengdur inni í húsi.

Reglugerðir

Reglugerð fyrir Hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps nr. 252/2001 má finna á heimasíðu sveitarfélagsins. Umsóknaraðilar eru hvattir til að kynna sér þær. Einnig eru umsóknaraðilar hvattir til að kynna sér Reglugerð um tæknilega tengiskilmála hitaveita nr. 488/2021.

Viðhald og vinna

Hitaveitan mun tilkynna fyrirfram ef unnt er, um rekstrarstöðvanir vegna viðhalds, viðgerða og/eða tenginga. Rekstri verður komið aftur á eins fljótt og kostur er. Jafnframt geta þær aðstæður komið upp tímabundið, að ekki sé unnt að fylgja rekstrarskilyrðunum til hins ýtrasta. Það er á ábyrgð eiganda að komið sé upp búnaði til að grípa inn í ef viðkomandi hitakerfi þolir illa rekstrarstöðvun.

Ef notandi vill fá tilkynningu í smáskilaboðum um truflun á rekstri er hægt að skrá sig hér.

Ef um neyðartilvik er að ræða eða ef þarf að hafa samband við starfsmann veitunnar utan almenns vinnutíma skal hafa samband við vaktsíma í símanúmerið 867-0408.

Vaktsíminn er: 867-0408

Vinsamlegast hafið eingöngu samband við vaktsíma vegna bilunar í hita- eða vatnsveitukerfi Grímsnes- og Grafningshrepps. Almennar fyrirspurnir varðandi nýjar tengingar, reikninga, snjómokstur o.þ.h. skulu sendar skriflega á skrifstofu Grímsnes- og Grafningshrepps. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu á opnunartíma í gegnum síma 480-5500.

Tilkynningar um vinnu við hitaveitukerfið birtast bæði á vefsíðu og Facebook síðu sveitarfélagsins. Einnig munu þar koma tilkynningar um bilanir og áætlaðan tíma til lagfæringa.

Bilun getur verið í húskerfinu, ofnlokum eða öðrum stjórnbúnaði og þarf þá að kalla til pípara. Bilanir innanhúss eru nær alltaf á verksviði pípulagningameistara eða annarra fagmanna á sviði pípulagna.

Ef ljóst er að þrýstingur hefur fallið við inntak skal hafa samband við vaktsíma eða skrifstofu.
Mögulegt er að hreinsa þurfi síu í inntaki eftir viðgerðir og bilanir.

Til að koma í veg fyrir vatnstjón er gott að lesa yfir bækling frá mannvirkjastofnun: Verjumst vatnstjóni.
Mikilvægt er að tryggja gott aðgengi að hitaveitugrind og inntaki. Þetta getur skipt sköpum við að koma í veg fyrir vatnstjón.

Vegna brunahættu hvetjum við þig til að gæta varúðar og skrúfa ekki frá krönum við bilanir á hita- og vatnsveitu. Ef þeir gleymast opnir getur það valdið slysi og/eða tjóni þegar vatninu er hleypt aftur á. Vinsamlegast varaðu börnin þín við þessari hættu.

Frekari upplýsingar

Upplýsingar um gjaldskrá, viðhald og tengiskilmála má finna hér til hægri.

Frekari upplýsingar um skilmála og tengingar veitir Ragnar Guðmundsson, ragnar@gogg.is.

Síðast uppfært 21. nóvember 2023