Siðareglur kjörinna fulltrúa í Grímsnes- og Grafningshreppi
Markmið siðareglna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd Grímsnes- og Grafningshrepps. Reglurnar ná til kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa og annarra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum sveitarfélagsins.
Kjörnir fulltrúar skulu í störfum sínum fylgja lögum, reglum og samþykktum Grímsnes- og Grafningshrepps, sem og sannfæringu sinni. Þeim ber að starfa fyrst og fremst í þágu íbúanna og ber því að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er sínum eigin, annarra einstaklinga eða einstakra hópa. Þeim ber að hafa í heiðri ýtrustu kröfur um ráðvendni, heiðarleika og réttlæti í störfum sínum í þágu sveitarfélagsins.
Kjörnir fulltrúar skulu ávallt hafa í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku, og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn Grímsnes- og Grafningshrepps.