Fara í efni

Frístundastarf

Vettvangur starfseminnar er frítími og forvarnir og er megináherslan lögð á barna- og unglingastarf. Leiðarljós frístundastarfsins er að börnum og unglingum í sveitarfélaginu standi til boða frístundastarf sem hefur uppeldis – og menntunargildi sem tekur mið af aldri þeirra og þroska. Áhersla er lögð á að bjóða upp á fjölbreytta og heilsueflandi frístundaþjónustu sem hvetur til virkrar þátttöku, sköpunar og betra samfélags.

Frístund

Meginhlutverk frístundaheimilisins er innihaldsríkt frístunda- og tómstundastarf í barnvænu og skapandi umhverfi þar sem starfshættir einkennast af frjálsum leik og vali. Á frístundaheimilinu er velferð og hagur barna höfð að leiðarljósi í öllu starfi. Þar er lögð áhersla á að efla sjálfsmynd, umhyggju, félagsfærni og virkni og þátttöku barna.

Frístundaheimilið Drekagil er fyrir börn í 1.-4. bekk og miðast starfstími þess við skólaárið eins og það er hverju sinni. Daglegur opnunartími er frá því kennslu yngstu barnanna lýkur á daginn til kl. 16.15.
Gjaldskráin er eftirfarandi:
Hver klukkustund kostar 352.- kr.
Systkinaafsláttur er 25% fyrir annað barn, 50% fyrir þriðja barn og 100% afsláttur fyrir fjórða barn.
Systkinaafsláttur frístundar er samtengdur systkinaafslætti dagvistunargjalda leikskóladeildarinnar.
20% afsláttur er í boði fyrir einstæða foreldra.
20% afsláttur er í boði ef annað foreldri er í fullu námi en 40% ef báðir foreldrar eru í fullu námi.
Lágmarksfjöldi barna verður að vera 3 börn á hverjum tíma til að frístundaheimili verði rekið. 

Gjald fyrir hverjar byrjaðar 15 mínútur umfram umsaminn vistunartíma í frístund er kr. 700,- (Tekur gildi 1. október 2023)

 

Frístundaklúbbur 10 - 12 ára

Frístundaklúbbur er starfræktur einu sinni í viku fyrir börn á aldrinum 10 til 12 ára. Á hverjum vetri er sett saman dagskrá þar sem börnin koma með tillögur og einnig er gert ráð fyrir frjálsum leik.

Félagsmiðstöð

Félagsmiðstöðvar eru mikilvægur þáttur í lífi barna og unglinga og gegna því veigamikla hlutverki að sinna tómstunda- og félagsmálum utan hefðbundins skólatíma. Markhópur félagsmiðstöðvarinnar er unglingar í 8. - 10. bekk. Einnig er í boði opið starf og klúbbastarf fyrir miðstig grunnskólans.

Unnið út frá hugmyndafræði sem byggir á barna- og ungmennalýðræði og tryggir áhrif barna og ungmenna í starfi. Í starfi félagsmiðstöðvarinnar er unnið mikilvægt forvarnarstarf og börnum og unglingum skapaður jákvæður valkostur í frítímanum með fagfólki, öruggu umhverfi og innihaldsríku starfi.  Félagsmiðstöðin er staður þar sem börn og unglingar geta komið í frístundum, hitt jafnaldra, spjallað saman og tekið þátt í fjölbreyttu og áhugaverðu frístundastarfi. Það er lykilatriði að um opið starf er að ræða, sem þýðir að unglingarnir ráða sjálfir hvort þeir komi og hvenær þeir fara (nema annað sé tekið fram).  Meginmarkmið með „opnu starfi“ er að skapa börnum og unglingum vettvang til að hittast á hlutlausum og öruggum stað þar sem hægt er að koma á eigin forsendum og vera virk á þann hátt sem hentar þeim hverju sinni undir handleiðslu fullorðinna.

Félagsmiðstöðin Zetor er sameiginleg félagsmiðstöð fyrir unglinga í 8. – 10. bekk sem búa í  sveitarfélögunum Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð. Félagsmiðstöðin er með opið hús einu sinni í viku frá kl. 19:30-22:00 auk þess sem farið er á skipulagðar skemmtanir annarra félagsmiðstöðva og viðburði skipulagða af Samfés (Samtök félagsmiðstöðva á Íslandi) nokkrum sinnum yfir veturinn.

Síðast uppfært 16. janúar 2024
Getum við bætt efni síðunnar?