Fara í efni

Forvarnarstefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti og ofbeldi

Markmið þessarar forvarnarstefnu og viðbragðsáætlunar gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti og ofbeldi er að tryggja starfsfólki Grímsnes- og Grafningshrepps heilbrigt og öruggt starfsumhverfi með samskiptasáttmála starfsfólks að leiðarljósi.

Áætlunin nær yfir samskipti starfsmanna sveitarfélagsins og annarra sem það á í samskiptum við í tengslum við starfs sitt. Undir þetta falla einnig athafnir og skipulagðir samfundir eða samkomur sem eiga sér stað utan vinnustaðarins, ef þær hafa áhrif á samskipti á vinnustað. Stefna þessi og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundnu áreiti og ofbeldi nær til allra starfsmanna, stjórnenda, sveitarstjórnar og fulltrúa í nefndum og ráðum sveitarfélagsins.
Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti og annað ofbeldi, í hvaða mæli eða mynd sem það birtist, verður ekki liðið á vinnustöðum innan sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps og telst brot á starfsskyldum. Það er á ábyrgð bæði stjórnenda og starfsfólks að fyrirbyggja og bregðast við slíkri hegðun. Starfsmenn skulu ávallt sýna hver öðrum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum á vinnustað og utan hans.

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti og annað ofbeldi á vinnustað er sameiginlegt vandamál og ber starfsfólk ábyrgð á að gripið sé til aðgerða ef áreitni á sér stað. Stjórnendur stofnana Grímsnes- og Grafningshrepps skulu koma upplýsingum um áreitni til sveitarstjóra og sveitarstjórnar sem taka formlega á viðkomandi máli. Stjórnendur stofnana Grímsnes- og Grafningshrepps bera ekki aðeins ábyrgð á störfum starfsfólks heldur einnig því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Starfsfólk ber ábyrgð á eigin velferð en stjórnendur skapa viðeigandi aðstæður eins og mögulegt er svo að markmið um vellíðan í starfi náist

Síðast uppfært 13. mars 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?