Aukafundur byggðasamlagsins Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings bs.
Skóla- og velferðarþjónusta Árneþings bs. var stofnuð árið 2013 af sjö sveitarfélögum; Hveragerðisbæ, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi, Flóahreppi, Sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.
Hlutverk byggðasamlagsins er að veita þverfaglega og samræmda velferðarþjónustu til einstaklinga og fjölskyldna: Sérfræðiþjónustu við leik- og grunnskóla, félagslega ráðgjöf og fjárhagsaðstoð, þjónustu við fatlað fólk og aldraða, barnavernd og aðra faglega þjónustu til stofnana og félagasamtaka á svæðunum. Tilgangur byggðasamlagsins er að samhæfa sem best þjónustu á framangreindum sviðum og nýta mannauð sem best í þágu íbúa í þéttbýli og dreifbýli svæðisins.
Í dag 1. mars mun útganga Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss taka gildi og munu héðan af sveitarfélögin fimm sem eftir verða, þ.e. Uppsveitir og Flói reka byggðasamlagið áfram.
Í dag var jafnframt haldinn aukafundur byggðasamlagsins þar sem samþykktur var nýr félagssamningur fyrir byggðasamlagið.
Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings bs. verður með aðsetur í Laugarási í Bláskógabyggð.