Borgað þegar hent er - hraðall
Grímsnes- og Grafningshreppur hefur undirritað viljayfirlýsingu ásamt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að taka þátt í tilraunaverkefninu "Borgað þegar hent er - hraðall". Tvö sveitarfélög voru valin til þess að taka þátt í verkefninu, en ásamt Grímsnes- og Grafningshreppi mun Ísafjarðarbær taka þátt. Verkefnið er tilkomið vegna breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 103/2021 sem taka gildi þann 1. janúar 2023. Lögin gera það að verkum að flest sveitarfélög munu þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi að svokölluðu ,,Borgað þegar hent er" kerfi. Í því felst að sveitarfélögum ber að tryggja að greitt sé í samræmi við magn og tegund úrgangs sem til fellur hjá viðkomandi úrgangshafa. Verkefnið hefur það að markmiði að aðstoða sveitarfélög við að innleiða þessar nýju lagakröfur um breytingar á innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs, en nánar má lesa um verkefnið hér.
Íbúar og fasteignaeigendur mega því eiga von á því að einhverjar breytingar verði gerðar á innheimtu gjalda vegna sorpmála frá og með áramótum, þar sem gjöldunum verður mögulega skipt meira upp til þess að endurspegla betur í hvað þau fara. Nánari útfærsla verður kynnt á næstu vikum samhliða fjárhagsáætlun næsta árs.
Í lögunum eru einnig gerðar auknar kröfur um sérstaka söfnun úrgangs og bætta meðhöndlun hans til þess að stuðla að hringrásarhagkerfi. Sveitarfélagið stendur vel þegar kemur að þeim hluta laganna, þar sem nú þegar er verið að uppfylla skilyrði um sérstaka söfnun með fjögurra tunnu kerfi við heimili og sérsöfnun hestu úrgangsflokka á grenndarstöðvum og gámasvæði.