Fara í efni

Bréf til fasteignaeigenda í Grímsnes- og Grafningshreppi

Í lok desember, byrjun janúar fengu allir fasteignaeigendur í sveitarfélaginu bréfpóst með ýmsum upplýsingum sem tengist þeirra fasteign.
Hér má sjá almennar upplýsingarnar sem allir fengu.

Úrgangsmál
Þann 1. janúar 2020 hefst gjaldtaka á Gámastöðinni Seyðishólum fyrir gjaldskyldan úrgang. Undir gjaldskyldan úrgang flokkast timbur, málað timbur og grófur úrgangur. Gjaldið pr. rúmmeter er kr. 5.500,-. Hér meðfylgjandi er klippikort fyrir 4,5 rúmmetrum sem við hvetjum ykkur til að setja á góðan stað og taka með ykkur þegar þið ætlið að henda úrgangi á Gámastöðinni Seyðishólum. Þegar klippikortið klárast þá er innheimt samkvæmt gjaldskrá. Vinsamlega athugið að heimilissorp skal flokkað í fjóra flokka í sveitarfélaginu þ.e. í lífrænan úrgang, plast, pappír og annan úrgang. Lífræni úrgangurinn má ekki vera í plastpokum heldur skal hann vera í pokum úr pappír eða maíspokum sem jarðgerast með lífræna úrganginum.  Við heimsókn á gámastöðina skal úrgangurinn vera flokkaður, ef ekki er flokkað og erfitt að sjá hverju er verið að henda t.d. ef rusl er í svörtum ruslapokum, þá verður innheimt / tekið af klippikortinu fyrir öllum úrganginum. 

Fráveitumál
Rotþrær í Grímsnes- og Grafningshreppi eru hreinsaðar á 3ja ára fresti. Hreinsanir eru gerðar skv. kröfum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Umhverfisstofnunar.
Vinsamlega athugið:
-Rotþrær verða að vera aðgengilegar fyrir hreinsunaraðila, ef það er mikill gróður þá er gott að merkja staðsetninguna með stöng eða flaggi. Þannig getur hreinsunaraðili gengið til verks þó að enginn sé heima við.
-Gæta þarf þess að hreinsunaraðili komi ekki að læstu hliði.
-Gæta þarf þess að fjarlægð frá bíl að rotþró sé ekki lengri en 60 metrar.
-Vinsamlega athugið að hvorki er hægt að segja til um hvenær hreinsunaraðili tæmir né óska eftir ákveðnum hreinsunartíma.
Árið 2020 verða hreinsaðar allar rotþrær við Kiðjabergsafleggjarann, Hraun meðtalið. Að auki verða hreinsaðar allar rotþrær þar fyrir austan að Brúará, Sólheimavegur meðtalinn. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins: www.gogg.is.

Álagning árið 2020
Álagning fasteignaskatts er gerð samkvæmt II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum. Sveitarstjórn hefur ákveðið að skattprósenta fasteignaskatts A skuli lækka úr 0,475% í 0,465% af fasteignamati eigna. Eignir í fasteignaskattsflokki A eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og frístundahúsnæði ásamt lóðarréttindum.
*NÝTT 5% staðgreiðsluafsláttur verður veittur af fasteignaskatti til fasteignaeigenda sem staðgreiða álagninguna fyrir 6. mars 2020.

Útskýringar á álagningarseðli
Á álagningarseðli má finna ýmis gjöld sem geta samanstaðið af eftirfarandi liðum:
-Fasteignaskatti
-Lóðarleigu
-Seyrulosunargjaldi
-Vatnsgjaldi
-Sorphirðugjaldi
-Sorpeyðingargjaldi

Það er misjafnt hvaða gjöld fasteignaeigendur greiða sem tengjast fasteigninni þeirra og fer það alfarið eftir þjónustunni sem þeir kaupa af sveitarfélaginu hvaða liðir eru á álagningarseðli.
- Fasteignaskattur er skattur sem lagður er á fasteignir í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og tekur álagningarhlutfall fasteignaskatts mið af nýtingu húsnæðisins. Sé fasteign nýtt til ferðaþjónustu ber að skattleggja eign með fasteignum sem falla undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Þetta er skattur ekki þjónustugjald.
Skatturinn er meðal annars notaður til að greiða til Brunavarna Árnessýslu og Almannavarna, skatturinn fer einnig í sameiginleg verkefni sveitarfélaga s.s. söfn, Umhverfis- og tæknisvið þar sem skipulags- og byggingarfulltrúar starfa og í samlag um seyru sem sveitarfélagið er í með Uppsveitunum, Flóahrepp og Ásahrepp þar sem seyran úr sveitarfélögunum er unnin sem áburður og nýtt við uppgræðslu í samvinnu við Landgræðslu Ríkisins. Skatturinn fer einnig í það að halda úti skrifstofu sveitarfélagsins, sundlaug og íþróttamiðstöð.
-Vatnsgjald er þjónustugjald sem innheimt er af sveitarfélaginu fyrir kaldavatnsnotkun frá vatnsveitu sveitarfélagsins. Gjaldið á að standa undir rekstri veitnanna.
-Sorphirðugjald er þjónustugjald sem þeir sem eru með sorpílát greiða. Samanber grátunna/græntunna/blátunna/brúntunna.
-Sorpeyðingargjald er þjónustugjald sem allir fasteignaeigendur greiða og skal standa undir rekstri á gámum, gámastöð og almennri sorpeyðingu í sveitarfélaginu.
-Seyrulosunargjald er þjónustugjald sem er rukkað árlega en rotþrær í sveitarfélaginu eru hreinsaðar á þriggja ára fresti. Þetta gjald stendur undir hreinsun á rotþróm og holræsum á þriggja ára fresti.
-Heitt vatn er svo innheimt sér og fær sá sem kaupir heitt vatn af sveitarfélaginu reikning ársfjórðungslega.

Hvatarblaðið
Hvatarblaðið er blað sveitarfélagsins sem kemur út einu sinni í mánuði. Frítt er að auglýsa í blaðinu og þarf efni í blaðið að berast fyrir 28. hvers mánaðar á eftirfarandi netföng: linda@gogg.is eða gogg@gogg.is. Öll heimili í sveitarfélaginu fá sent Hvatarblaðið og er einnig hægt að nálgast blaðið á heimasíðu sveitarfélagsins.

Síðast uppfært 13. janúar 2020
Getum við bætt efni síðunnar?