Enginn páskamokstur
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps vill vekja athygli á eftirfarandi bókun sem gerð var á sveitarstjórnarfundi 2. desember 2020:
c) Fundargerð 21. fundar samgöngunefndar, 25. nóvember 2020.
Mál nr. 1, 2 og 3 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 21. fundargerð samgöngunefndar, dagsett 25. nóvember 2020. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Mál nr. 1: Styrkir til veghalds í frístundahúsabyggðum.
Farið var yfir fyrirkomulag vegstyrkja til frístundahúsabyggða og rætt um nýja útfærslu á þeim. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að fyrirkomulaginu verði breytt samkvæmt fylgiskjali nr. 1. Helstu breytingarnar sem nýja fyrirkomulagið felur í sér eru þær að í stað fyrirfram styrkveitinga vegna viðhalds á vegum verða styrkirnir veittir til veghalds í víðari skilning en áður hefur verið gert, ásamt því að styrkir verða veittir vegna framkvæmda sem þegar hafa átt sér stað. Lagt er til að sveitarfélagið hætti að sinna snjómokstri í frístundahúsabyggðum um páska líkt og gert hefur verið, og snjómokstur verði þess í stað styrkhæfur sem hluti af veghaldi. Þá verði gerð flóttaleiða einnig styrkhæf og falli undir sömu styrkveitingar, og sérstakar styrkveitingar vegna gerðar flóttaleiða því felldar út. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að reglurnar taki gildi frá og með áramótum, og að gert verði ráð fyrir 3.500.000 kr. í fjárhagsáætlun ársins 2021 í styrki til veghalds.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi styrkfyrirkomulag og styrkfjárhæð.
Hér má sjá nánar um styrki til veghalds í frístundabyggðum ásamt rafrænu umsóknareyðublaði.
https://www.gogg.is/is/stjornsysla/styrkir/vegstyrkir-fyrir-sumahusafelog
Sveitarfélagið mun því ekki sjá um páskamokstur héðan í frá en stjórnir frístundahúsafélaga geta óskað eftir snjómokstri hjá verktökum og sótt svo um styrk sbr. textann hér fyrir ofan.
Styrkurinn hefur verið hækkaður frá því sem var og mun umsókn um styrk fyrir snjómokstri því ekki hafa áhrif á úthlutun frístundahúsafélaga sem sækja einnig um styrk fyrir uppbyggingu vega.
Á heimasíðu sveitarfélagsins www.gogg.is neðarlega á upphafssíðunni, má finna lista yfir nokkra verktaka sem sinna snjómokstri undir flokknum jarðvinnuverktakar.