Frá fundi Almannavarna Árnessýslu
Almannavarnanefnd Árnessýslu kom saman til fundar í dag. Fyrir liggja upplýsingar um að flestar ár á Suðurlandi séu ísi lagðar og að líkur eru á að lægð gangi yfir landið á föstudag með nokkrum hlýindum og úrkomu. Farið var yfir stöðuna og veðurspá eins og hún liggur fyrir í dag með þeim fyrirvara að nokkur óvissa er um framgang hennar. Aðgerðastjórn verður kölluð saman til upplýsingafundar í eftirmiðdaginn á fimmtudag þar sem nýjustu veðurspár verða yfirfarnar.
Enda þó umfjöllun undanfarna daga snúi helst að mögulegum flóðum vill nefndin beina því til íbúa að þeir hugi að hættu af grýlukertum á húsþokum, mögulegum leka þar sem snjór á þökum og svölum bráðnar og ekki síst að hreinsa frá niðurföllum þannig að leysingavatn eigi greiða leið niður. Þá eru eigendur útigangshrossa á þekktum flóðasvæðum beðnir að huga að því hvort efni séu til að koma þeim á hærra land fari svo að ár ryðji sig.
Meðfylgjandi mynd sýnir stöðuna í Ölfusá í dag. Rennsli er beggja vegna Laugardælaeyju og ekki að sjá óvenjulega vatnssöfnun ofan hennar.