Fara í efni

Framkvæmdir við nýtt íbúðahverfi og miðsvæði hafnar

Nú um áramótin hófust framkvæmdir við gatnagerð á nýju miðsvæði og íbúðahverfi á Borg í Grímsnesi. Í fyrsta áfanga miðsvæðis verður lóð fyrir eldsneytis- og hraðhleðslustöð ásamt möguleika á verslunar- og veitingarekstri. Einnig verður hótellóð fyrir allt að 70 herbergja hótel og fjórar lóðir fyrir blandaða atvinnustarfsemi með möguleika á íbúðum á efri hæð.

Aðalgatan mun bera nafnið Miðtún og verða einnig kláraðar tvær íbúðarhúsagötur, Borgartún og Lækjartún. Í Borgartúni verður gert ráð fyrir fjölbýlishúsum en í Lækjartúni verður blanda af einbýlum, parhúsum og raðhúsum. Heildarfjöldi íbúða verður að hámarki 40. Gert er ráð fyrir innviðum fyrir þriðju götuna, Skógartún í verkinu ásamt innviðum fyrir áframhaldandi framkvæmdir norðan við þetta svæði. Einnig verður gangsett ný og fullkomin skólphreinsistöð fyrir hverfið og verður Grímsnes- og Grafningshreppur enn leiðandi í hreinsun skólps á landsvísu með þeirri viðbót. Gert er ráð fyrir blágrænum ofanvatnslausnum að hluta í hverfinu.

Mikill áhugi hefur verið meðal fyrirtækja fyrir miðsvæðinu og verður ferli við úthlutun lóða kynnt innan tíðar. Töluverð tækifæri eru í uppbyggingu þjónustu á svæðinu, fyrir íbúa, sumarhúsaeigendur og ferðamenn. Markmið framkvæmdanna er að auka þjónustu í nærsamfélaginu, vera leiðandi í orkuskiptum með öflugri hraðhleðslu fyrir bæði fólksbíla og atvinnutæki ásamt því að hafa ávallt í boði hagkvæmar byggingarlóðir.

Aðalverktakar eru JJ pípulagnir ehf. og Jarðtækni ehf og eru áætluð verklok 1. september 2024.

Verkið samræmist heimsmarkmiðum nr. 6, 7, 8, 9, 11 og 12.

Síðast uppfært 4. janúar 2024
Getum við bætt efni síðunnar?