Heimilissorpsgámar í frístundahúsahverfum - bréf til stjórna frístundahúsafélaga
Sú breyting að fjarlægja alla heimilissorpsgáma úr frístundahúsahverfum í Grímsnes- og Grafningshreppi telst að mati sveitarstjórnar vera í samræmi við samþykkt sveitarfélagsins um meðhöndlun úrgangs.
Í samþykkt sveitarfélagsins um meðhöndlun úrgangs nr. 1366 frá 20. desember 2019 segir að markmið samþykktarinnar sé m.a. að lágmarka það úrgangsmagn sem fer til förgunar með því að auka endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs. Jafnframt segir í 5. gr. samþykktarinnar: Sérhverjum húsráðanda í sveitarfélaginu, hvort sem um er að ræða húsráðanda íbúðar-, frístunda- eða atvinnuhúsnæðis, er skylt að endurnota eða flokka og endurnýta úrgang eins og kostur er, hvort sem slíkum úrgangi er safnað við húsnæði skv. 6.-8. gr. eða skilað til söfnunarstöðvar skv. 10. gr. Það er mat sveitarstjórnar að grenndarstöðvar þar sem hægt er að flokka úrgang í sjö úrgangsflokka þjóni fasteignaeigendum betur ásamt því að uppfylla betur markmið samþykktarinnar heldur en heimilissorpsgámar þar sem allur úrgangurinn fer í einn gám. Í dag eru fimm grenndarstöðvar í sveitarfélaginu og er stefnt að því að hafa þær átta innan nokkurra mánaða. Þetta er sú þjónusta sem sveitarfélagið mun bjóða upp á og samræmist samþykktum sveitarfélagsins. Sveitarstjórn vinnur í nánu sambandi við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands um uppsetningu á grenndarstöðvunum en í 6. gr í reglugerð um meðhöndlun úrgangs nr. 737 síðan 2003 segir; Sveitarstjórn skal í samráði við heilbrigðisnefnd setja upp sorpílát í nánd við sumarhúsahverfi. Séu fleiri en 20 sumarhús í hverfinu skal staðsetning sorpíláts vera sem næst hverfinu og/eða þannig að hentugt sé að losa í það í leið frá hverfinu. Sorpílátin skulu vera til staðar á því tímabili sem almennt er dvalist í húsunum í hverfinu. Gæta skal að því að aðgangur sé greiður að sorpílátum, m.t.t. tegundar úrgangs.
Sveitarstjórn telur þessar grenndarstöðvar því vera jákvæða þróun í takt við kröfur bæði ríkis og samfélags um aukna flokkunarmöguleika. Með þessum aðgerðum vonast sveitarstjórn til þess að flokkun í frístundahúsum muni aukast sem gerir sveitarfélaginu kleift að senda stærri hluta úrgangsins til endurvinnslu. Þannig leggjum við okkar af mörkum til verndar náttúru og umhverfis, svo ekki sé talað um árangurinn þegar litið er til loftlagsmála á alþjóðavísu. Jafnframt vonast sveitarstjórn til að aukin flokkun skili sér í lægri kostnaði við sorphirðu og sorpeyðingu fyrir alla fasteignaeigendur í sveitarfélaginu sem samræmist markmiðum samþykktar sveitarfélagsins um meðhöndlun úrgangs, þ.e. að lágmarka kostnað samfélagsins við meðhöndlun úrgangs.
Ef frístundahúsafélög vilja halda heimilissorpsgámunum innan sinna svæða þá er þeim frjálst að hafa samband við þjónustuaðila og semja sérstaklega um það. Allir fasteignaeigendur greiða sorpeyðingargjald sem er þjónustugjald og skal standa undir rekstri á grenndarstöðvum, gámasvæði og almennri sorpeyðingu í sveitarfélaginu. Öllum fasteignaeigendum stendur því til boða að nýta sér grenndarstöðvarnar og gámasvæðið og því telst sú þjónusta að vera með sér heimilissorpsgám í frístundahúsahverfi vera auka þjónusta og ber því að greiða aukalega fyrir þá þjónustu. Ef frístundahúsafélögin ákveða að fara þessa leið þá er það í raun ósk um aukna þjónustu og þá sér frístundahúsafélagið sjálft um að greiða leigu á gámi, losun og sorpeyðingu sem samræmist markmiðum samþykktar um meðhöndlun úrgangs um að kostnaður vegna úrgangs greiðist af þeim sem úrganginum veldur. Þjónustuaðili í sveitarfélaginu er Terra og tengiliður við þá er Eiríkur Kristinsson; eirikur@terra.is.
Að lokum skal tekið fram að sveitarstjórn hefur ákveðið að fresta því að fjarlægja heimilissorpsgáma úr frístundahúsahverfum til 1. desember n.k. til að gefa stjórnum frístundahúsafélaga í sveitarfélaginu meiri tíma til undirbúnings breytinganna.