Jólapistill Oddvita Grímsnes- og Grafningshrepps
Kæru sveitungar og aðrir,
Síðasta ár hefur heldur betur verið óvenjulegt miðað við önnur ár sem ég hef upplifað. Satt best að segja finnst mér mjög skrýtið að setjast niður til að skrifa jólapistil þegar maður hefur meira og minna hugsað sömu hugsunina meiri hluta ársins, þ.e. hvenær fellur allt í eðlilegt horf á ný. Það má meira segja taka svo sterkt til orða að maður sé næstum farinn að hlakka meira til að fá aftur eðlilegt líf en til jólanna.
Við höfum ábyggilega velflest upplifað talsverða óvissu og óöryggi undanfarin misseri sem er mjög skiljanlegt á þessum skrýtnu tímum. Í augnablikinu sjáum við ekki alveg fyrir endann á þeim tíma, af því að þrátt fyrir að búið sé að þróa bóluefni við þessari blessuðu kórónuveiru, þá vitum við ekki nákvæmlega hvenær bóluefnið lendir á litlu eyjunni okkar. Því er það þannig að nú sem aldrei fyrr þurfum við að huga vel að okkur sjálfum, fólkinu í kringum okkur, njóta samvista við okkar nánasta fólk og vera jákvæð. Margir finna fyrir einverunni og sakna þess að komast ekki á mannamót, sumir upplifa þetta sem krefjandi tíma þar sem hömlurnar í samfélaginu hafa talsverð áhrif á hið daglega líf, bæði í vinnu og einkalífi og enn öðrum finnst gott að verið sé að hægja á þjóðfélaginu. Við upplifum öll mismunandi tilfinningar og okkur ber að virða þær allar og ef við teljum þörf á því þá eigum við líka að ræða þær.
Það sem af er ári hefur öll starfsemi sveitarfélagsins verið heldur óvenjuleg og raskast talsvert mikið vegna veirunnar. Við sem samfélag erum einstaklega heppin með það starfsfólk sem vinnur fyrir okkur því allir hafa tekið þessum röskunum og hömlum með þolinmæði og þrautseigju. Við erum öll að leitast við að lifa í nýju umhverfi, sem kallar á nýjar lausnir. Þessu til stuðnings er gaman að segja frá því að hinu árlega jólahlaðborði sveitarfélagsins var skipt út fyrir jólafjarborð sem tókst með eindæmum vel, þar sem starfsmenn fengu sendan jólamat og hittust fyrir framan tölvuskjái. Þar fengu þau síðan kennslu í vinnustaða hrekkjum og tóku svo þátt í spurningakeppni.
Alveg sama hvað, þá líður senn að jólum sem verða væntanlega óvenjuleg líkt og margt annað síðasta ár.
Ég vona heitt og innilega að við náum öll að njóta aðventunnar og nýta okkur þetta breytta snið okkur í hag, skapa nýjar jólahefðir og njóta enn frekar notalegra samvista með okkar nánustu. Við erum Íslendingar og miðað við Íslendingasögurnar þá höfum við nú upplifað tímanna tvenna og ég trúi því að við komumst í gegnum þetta eins og annað. Ég held að ekkert verði eins og það var en við munum finna leiðir til að samræma breytta tíma við þá gömlu.
Mér finnst viðlagið í senn koma jólin með
Sigríði Beinteinsdóttur eiga ágætlega við hér og nú:
Ég hlakka til, ég hlakka svo til,
ég hlakka svo mikið til þess.
Ég hlakka til, ég hlakka svo til,
ég hlakka svo mikið til þess að
senn koma jólin, hingað í húsið mitt.
Að lokum vil ég þakka öllu samstarfsfólki mínu hjá sveitarfélaginu fyrir gott samstarf á árinu og óska öllum sveitungum mínum og velunnurum Grímsnes- og Grafningshrepps gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Ása Valdís Árnadóttir, oddviti