Yfir 30 listamenn opna vinnustofur og gallerý víða í sveitarfélaginu, sjá auglýsingu hér að ofan. Samsýningar eru í Fossheiðargarðinum hjá Sumarhúsinu og garðinum, Listagalleríinu og sundlauginni á Selfossi, í Skrúfunni á Eyrarbakka og Brimrót Co up á Stokkseyri. Listafólk Árborgar að opna vinnustofur sínar og gallerí fyrir gestum og gangandi, leyfa fólki að líta við og skoða afrakstur sköpunar sinnar.Sjá dagskrá hér: Menningarmánuðurinn október 2022
Október er menningarmánuður í Árborg, stútfullur af spennandi viðburðum sem endurspegla grósku og sköpunarkraft í ört stækkandi sveitarfélagi. Laugardaginn 22. október verður boðið upp á MENNINGARGÖNGU Árborgar í allra fyrsta sinn. Þá ætlar listafólk í Árborg að opna vinnustofur sínar og gallerí fyrir gestum og gangandi, leyfa fólki að líta við og skoða afrakstur sköpunar sinnar. Einnig verða ýmis menningarhús opin þar sem upplifa má fjölbreytt listform svo sem málaralist, leirlist, tónlist, ritlist, prjónalist, fatahönnun, vefnað, ljósmyndun og útskurð. Að baki menningargöngunnar standa nokkrar sniðugar og klárar konur í Árborg, þær Sigrún Þuríður Runólfsdóttir sem rekur Skrúfuna á Eyrabakka, Heiðrún D. Eyvindardóttir forstöðukona bókasafnsins í Árborg, Alda Rose Cartwright hjá Brimrót Co up á Stokkseyri og Auður Ingibjörg Ottesen hjá Sumarhúsinu og garðinum. Með framtakinu vilja þær sameina krafta þeirra frábæru listamanna sem búa í Árborg og leyfa sem flestum að upplifa þá margþættu sköpun sem þar fer fram. Þær stofnuðu Facebooksíðuna „Menningarvitar í Árborg“ sem vettvang fyrir listamenn og áhugafólk um listir og menningu til að miðla og njóta gróskumikils menningarlífs í sveitarfélaginu. Þær hvetja alla áhugasama að fylgja síðunni.