Nýtt íbúðahverfi á Borg
Að undangenginni verðfyrirspurn hefur verið samið við Verkís um gerð nýs deiliskipulags sem tekur til 15 hektara svæðis vestan við Skólabraut. Öllum lóðum á Borg hefur verið úthlutað og er stefnt á að nýjar lóðir verði úthlutunarhæfar haustið 2023 ef allt gengur eftir.
Upphafsfundur verkefnisins var þann 13. september síðastliðinn og voru þar áherslur sveitarfélagsins ræddar.
Helstu áherslupunktar voru eftirfarandi:
- Fjölbreytt byggingarmunstur
- Áhersla á fjölbýli og minni íbúðir næst þjónustukjarna.
- Skipulagið skal vera hentugt til áfangaskiptingar. Landsvæðið er stórt og mun sveitarfélagið fara í það í hlutum.
- Hafa Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna að ákveðnu leiðarljósi og nýta blágrænar ofanvatnslausnir þar sem á við.
- Gera ráð fyrir tengingu á hringtorgi í framtíðinni vestan við svæðið.
- Athuga þarf tengingar við sumarhúsahverfi og fyrirhugað L3 landsvæði norðan við Borg.
- Tenging við útivistarsvæði.
- Hafa svæði fyrir leikvöll á nýju svæði.
- Tengsl við miðbæjarreitinn og við skóla og sundlaugarsvæðið.
- Lágreista byggð, líka minni íbúðir s.s. 2ja hæða fjölbýli með 4-8 íbúðum.
- Gera ráð fyrir íbúðum sem gætu hentað þeim sem eru að minnka við sig.
- Fjölbreyttar íbúðir í hverjum áfanga uppbyggingar.
Gert er ráð fyrir að gerð verði skipulagslýsing sem auglýst verði í október/nóvember 2022. Í kjölfarið verði hafin vinna við uppdrætti og greinargerð í samræmi við skipulagslýsingu og athugasemdir. Búið er að mæla inn svæðið með þrívíddarskönnun til að skipulag falli sem best að svæðinu og að lega frárennslis verði sem hagkvæmust. Skv. áætlun verður skipulagið auglýst í upphafi árs 2023 og gatnagerð lokið 2023.