Fara í efni

Rannsóknarboranir í Kaldárhöfða

Í síðustu viku hóf Ræktunarsamband Flóa og Skeiða tilraunaboranir vegna kalds vatns í landi Kaldárhöfða í Grímsnes- og Grafningshrepp. Tilgangur borananna er að staðsetja líklegan grunnvatnsstraum sem fæðir mjög öflugar vatnslindir í farvegi Sogsins. Ef tilraunaboranir ganga vel verður staðsett vinnsluhola á svæðinu. Verkið er samstarf Grímsnes- og Grafningshrepps, Árborgar og Flóahrepps og er svæðinu ætlað að anna neysluvatnsþörf sveitarfélaganna um ókomna framtíð. Kaldárhöfði er ríkiseign og eru boranir gerðar í samráði við ríkiseignir og ábúanda.

Í landi Kaldárhöfða eru miklar vatnslindir og hefur svæðið verið rannsakað töluvert undanfarna áratugi og lengi verið litið á svæðið sem mögulegt vatnstökusvæði fyrir Suðurland. Mikil samfélagsleg verðmæti eru í köldu vatni á svæðinu og í safnsvæði grunnnvatns við austanvert Þingvallavatn. Svæðið er óbyggt og lítið raskað og lítil umferð farartækja og fólks er á svæðinu. Búið er að leggja grunn að vinnslu á svæðinu með vatnsverndarsvæði í aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps sem samþykkt var árið 2022. Mikilvægt er að vernda þessa mikilvægu auðlind fyrir komandi kynslóðir og skiptir afmörkun vatnsverndarsvæða í aðalskipulagi sveitarfélaga lykilhlutverki í því samhengi. Lindin sem leitað er að gefur um 4.000 l/s af vatni en til samanburðar er heildarvatnsnotkun á veitusvæði Veitna á höfuðborgarsvæðinu um 700 l/s. Því er eftir miklu að slægjast og nóg vatn fyrir sveitarfélög á Suðurlandi á öruggu vatnstökusvæði til framtíðar. Mikilvægt er að sveitarfélög vinni saman að öruggri vatnsmiðlun til framtíðar til að tryggja byggðaþróun á svæðinu og nýta fjármagn á sem hagkvæmastan máta.

Í þessum áfanga verða boraðar 1-6 tilraunaholur til að staðsetja lindarfarveginn. Holurnar verða um 50 m djúpar og fóðraðar í 6 m. ÍSOR verður ráðgjafi sveitarfélaganna í verkinu og mun annast rannsóknir á vatninu, s.s. mælingar á rennslisstraumum, könnun á gerð jarðlaga og sprungumynstri, heildarefnagreiningum ásamt ferilefnamælingum. Einnig mun ÍSOR sjá um að ákveða staðsetningu á vinnsluholu ásamt dæluprófunum. Á mynd má sjá fyrirhugaða staðsetningu tilraunaholna.

Búið er að kostnaðarmeta stofnlögn frá Kaldárhöfða ásamt því að leggja mat á kostnað við virkjun á holum. Í kostnaðaráætlun er reiknað með að lögð verði ø450 mm lögn niður Grímsnes- og Grafningshrepp og að núverandi vatnsmiðlun Árborgar. Sú lögn getur annað allt að 300 l/s í rennsli. Ef vel gengur að staðsetja vatnslindina er stefnt á borun vinnsluholu í upphafi árs 2024.

Meðfylgjandi er greinargerð ÍSOR vegna umsóknar um rannsóknarleyfi í landi Kaldárhöfða.

Greinargerð

Síðast uppfært 10. október 2023
Getum við bætt efni síðunnar?