Samstarfssamningur við Hestamannafélagið Jökul undirritaður
Forsvarsmenn sveitarfélaganna fjögurra í Uppsveitum Árnessýslu, Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps komu saman ásamt forsvarsmönnum Hestamannafélagsins Jökuls í reiðhöllinni á Flúðum í dag og undirrituðu samstarfssamning.
Tilgangur samningsins er m.a. að efla samstarf sveitarfélaganna og Hmf. Jökuls, tryggja öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf fyrir börn og unglinga og efla starf félagsins. Áhersla er á fagmennsku og þekkingu í starfi félagsins og forvarnir með fræðslu til iðkenda og starfsmanna um skaðsemi vímuefna, einelti, kynbundið áreiti, kynferðislegt áreiti eða ofbeldi. Í samningnum, sem gildir út árið 2026, er kveðið á um árlegan fjárhagslegan stuðning sveitarfélaganna við félagið.
Á myndinni, sem var tekin í reiðhöllinni á Flúðum, eru forsvarsmenn sveitarfélaganna og forsvarsmenn Hmf. Jökuls.