Fara í efni

Samþætt þjónusta án hindrana

Þróunarverkefnið um landshlutateymi Suðurlands er nú formlega lokið með útgáfu lokaskýrslu um þróunarferlið og ávinning verkefnisins. Þátttakendur í verkefninu voru Greiningar- og ráðgjafarstöð (nú Ráðgjafar- og greiningarstöð), Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Fjölskyldusvið Árborgar, Félags- og skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu og Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings. Tilgangur og markmið með stofnun landshlutateymis var að stuðla að heildstæðri þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra og styðja þannig við sérhæfða þekkingaruppbyggingu á svæðinu.

Tveir verkefnastjórar voru ráðnir til að stýra verkefninu, annar staðsettur á GRR og hinn á Suðurlandi. Hlutverk verkefnastjóra var að hafa yfirumsjón með og styðja við framgang verkefnisins. Skipað var þverfaglegt teymi með tveimur fulltrúum frá hverju sveitarfélagi þ.e. einn frá skólaþjónustu og annar frá félagsþjónustu hvers sveitarfélags. Frá GRR voru tilnefndir þrír fulltrúar, einn frá hverju fagsviði stöðvarinnar. Frá HSu var tilnefndur einn fulltrúi. Fulltrúateymið fundaði á 6-8 vikna fresti og hafði það hlutverk að rýna í kerfið, greina hindranir og innleiða lykilverkefni í takt við markmið landshlutateymisins. Fulltrúar frá hverju þjónustusvæði og stofnunum mynduðu síðan með sér fagteymi. Hlutverk fagteyma var að miðla áherslum þróunarverkefnisins inn á sinn starfsvettvang. Leiðsögn var veitt í einstaklingsmálum til fulltrúa í stuðningsteymum frá leik- og grunnskólum, skóla- og félagsþjónustu og stofnunum sem tengdust málefnum barnsins og fjölskyldunnar.

Fulltrúa- og fagteymisfundir fóru nánast að öllu leyti fram gegnum fjarfundaforritið TEAMS með örfáum undantekningum í upphafi verkefnisins. Fagleg umgjörð Landshlutateymis Suðurlands tók mið af líkani um heiltæka nálgun þar sem áhersla var lögð á að skapa samræðugrunn á milli ólíkra þjónustueininga, í þessu tilviki félags-, skóla-, frístunda- og heilbrigðisþjónustu í fimm aðgerðaskrefum. Fulltrúar settu niður þrjú lykilverkefni í framkvæmdaáætlun verkefnisins þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að móta skýra verkferla til að styðja við samþætta og samfellda þjónustu allra þjónustukerfa.

Lykilverkefnin: 
1. Innleiða verklag sem styður við samþætta þjónustu án hindrana.
2. Innleiða þverfaglega stuðningsáætlun sem umgjörð og verklag fyrir stuðningsteymi.
3. Innleiða markvissa notkun SIS – C mats við gerð stuðningsáætlana.

Leiðin með lykilverkefni 1 var að dýpka þverfaglega samræðu innan hvers svæðis og stofnunar með því að formgera betur sameiginlegan samræðuvettvang. Varðandi lykilverkefni 2 lögðu fagteymin áherslu á mikilvægi þess að endurskilgreina hlutverk og ábyrgð aðila sem mynda stuðningsteymi. Í allri samræðunni kom það skýrt fram að ein helsta hindrun fyrir heildstæðri og samþættri þjónustu mátti rekja til óljósra hlutverka fulltrúa í stuðningsteymum. Unnið var með ákveðin prófmál til að æfa verklag við gerð stuðningsáætlana og til að skilgreina hlutverk fulltrúa. Fagteymin lögðu ríka áherslu á að tryggja aðgengi allra í stuðningsteymi að niðurstöðum mats á stuðningsþörf barna (SIS – C) þannig að þær nýtist til að móta heildrænan stuðning. Til að vinna með lykilverkefni 3 þá voru fræðslufundir settir á dagskrá á öllum svæðum um hlutverk og ábyrgð tengiliða SIS – C matsins.

Hægt er að draga þá ályktun að landshlutateymi sem samráðsvettvangur hafi mætt þörf fyrir eftirfylgd og stuðning við innleiðingu nýrra starfshátta. Þörfin fyrir áframhaldandi eftirfylgd og stuðning gagnvart lykilverkefnunum er hægt að tengja beint við innleiðingu nýrra starfshátta í tengslum við ný lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Frá hausti 2021 þróaðist verkefni landshlutateymis í þá átt að ræða og móta verklag innan þeirrar stigskiptingar, sem birtist í lögunum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, þannig að þjónustan verði til framtíðar byggð upp frá hinu almenna til hins sértæka. Liður í þeirri vinnu var mótun beiðnablaðs um samþættingu þjónustu til að tryggja upplýst samþykki foreldra fyrir samstarfi þjónustukerfanna.

Afrakstur samstarfsins um landshlutateymi er fyrst og fremst samráðsvettvangurinn sem hefur sannað gildi sitt í að styðja við þekkingaruppbyggingu á svæðinu. Því til staðfestingar þá er búið að stofna farsældarteymi á hverju þjónustusvæði þar sem fulltrúar frá skóla- og félagsþjónustu hafa það hlutverk að taka fyrir beiðnir um samþættingu þjónustu og styðja við innleiðingu farsældarlaganna.

Til að stuðla að samþættri þjónustu í þágu farsældar barna þá þurfa þjónustukerfin að vinna saman að lausnum og fjarlægja hindranir. Tryggja þarf gott aðgengi að faglegri leiðsögn sem styður við víðsýni og byggir upp traust. Þannig er hægt að móta þjónustu sem er í takt við stuðningsþörf á hverjum tíma. Til að koma í veg fyrir rof í þjónustu þarf verklag við skipan tengiliða og málstjóra að vera skilvirkt og jafnframt nauðsynlegt að skerpa á hlutverkum fulltrúa í stuðningsteymi við gerð stuðningsáætlunar.

Lokaskýrslu landshlutateymis Suðurlands má finna hér.

Kristín Björk Jóhannsdóttir og Sigríður O. Guðjónsdóttir, verkefnastjórar

Síðast uppfært 31. janúar 2022
Getum við bætt efni síðunnar?