Seyrustaðir formlega opnaðir á Flúðum
„Þessum næringarefnum er synd að sóa“
Ný móttökustöð fyrir seyru sem staðsett er á Flúðum, Hrunamannahreppi, var formlega opnuð á fimmtudaginn af Umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra, Guðlaugi Þóri Þórðarsyni. Með móttökustöðinni hefst nýr áfangi í verkefni sem hófst árið 2011 en það felst í tæmingu rótþróa í Uppsveitum Árnessýslu, Ásahreppi og í Flóa og afsetningu seyrunnar til landgræðslu á Hrunamannaafrétti.
Að sögn Ásu Valdísar Árnadóttur, formanns stjórnar hefur verkefnið frá upphafi verið unnið í afar góðri samvinnu við Landgræðsluna og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands sem fylgst hafa náið með áhrifum þess á gróðurþekju afréttarins en sveitarfélögin á svæðinu hafa verið langt á undan öðrum þegar kemur að nýtingu seyru til landbóta.
Eftir að sveitarfélögin sem standa að verkefninu höfðu í nokkur ár safnað seyru, afvatnað, kalkað og yfirborðsdreift henni í landgræðslugirðingu á Hrunamannaafrétti var samþykkt að byggja yfir starfsemina. Hófst bygging hússins árið 2019. Fyrirtækið Landsstólpi sá um byggingu á móttökustöðinni sem er 870m2 að stærð og hefur húsið gjörbreytt rekstri verkefnisins. Vegna heimsfaraldurs Covid var ekki mögulegt að bjóða til vígslu hússins fyrr en nú.
Það eru sveitarfélögin Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur sem standa að rekstri seyruverkefnisins. Eru losaðar rotþrær á starfsvæðinu 9.000 talsins og fer þeim stöðugt fjölgandi. Jafnframt losa sveitarfélögin Rangárþing Ytra, Rangárþing Eystra og Sveitarfélagið Ölfus seyru á Seyrustöðum.
Samkvæmt mælingum Landgræðslunnar er umtalsverður árangur sjáanlegur á gróðuþekju í afréttinum eftir að dreifing seyru hófst enda kom það fram bæði í máli Magnúsar H. Jóhannssonar, sviðsstjóra hjá Landgræðslunni og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að verkefnið væri bæði framsækið, metnaðarfullt og til eftirbreytni fyrir önnur sveitarfélög og báðir komu inná það í sínum ræðum að þeim mikilvægu næringarefnum sem fyndust í seyru væri mikil synd að sóa.
Meðfylgjandi mynd er af Guðlaugi Þóri Þórðarsyni Umhverfis- orku og loftslagsráðherra og Ásu Valdís Árnadóttur oddvita Grímsnes- og Grafningshrepps og formanni seyrustjórnar við opnun Seyrustaða.
Mynd: Aldís Hafsteinsdóttir