Skógrækt á lögbýlum
Á síðustu árum hefur komið í ljós að skógar vaxa betur hér á landi en bjartsýnasta fólk gerði ráð fyrir. Skógræktin býður landeigendum til samstarfs um að rækta skóg á sínu landi í verkefni sem kallast skógrækt á lögbýlum.
Skógrækt skapar margvísleg tækifæri fyrir landeigendur. Skógar mynda fljótt skjól og bæta lífsskilyrði manna og dýra. Ef vel tekst til við ræktun skóganna á fyrstu árum geta þeir farið að skila viðarnytjum úr fyrstu grisjunum innan 25 ára. Þeir veita einnig ýmis önnur gæði s.s. ber og sveppi eða skjól fyrir ræktun lands og búfé. Land þar sem skógur vex er verðmætara en skóglaust land og hafa jarðir þar sem nytjaskógar eru ræktaðir fengið hækkað lánshæfismat. Síðast en ekki síst vernda skógarnir jarðveg, binda kolefni úr andrúmsloftinu og draga þar með úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga.
Ræktunaráætlanir eru gerðar áður en skógrækt hefst og er leitast við að laga skógana þannig að landslagi að sem minnst neikvæð áhrif verði af þeim t.d. vegna útsýnis, snjósöfnunar eða annarra þátta. Sveitarstjórn þarf að samþykkja skógræktaráætlanir áður en landeigendur hefja framkvæmdir.
Skógræktarráðgjafar Skógræktarinnar starfa í öllum landshlutum, þjóna þar bændum og öðrum landeigendum og aðstoða við umsóknir.
Umsóknarferli áður en landeigendur geta hafið skógrækt tekur töluverðan tíma.
- Fyrst er sótt um þátttöku og er lágmarksstærð fyrirhugaðs skógræktarlands 10 ha.
- Þá er væntanlegt skógræktarsvæði skoðað og metið af skógræktarráðgjafa.
- Þegar land hefur verið samþykkt af ráðgjafa er sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarfélags.
- Þegar það liggur fyrir er hægt að gera skógræktarsamning um landið.
- Í kjölfarið hefst vinna við nánari kortlagningu og áætlanagerð fyrir skógræktarsvæðið.
- Áður en skógarbóndi hefur framkvæmdir skal hann sækja grunnnámskeið í skógrækt.
Skógræktin hvetur landeigendur til að skoða þá möguleika og framlög sem bjóðast til skógræktar. Nánari upplýsingar eru á vef Skógræktarinnar www.skogur.is/skograektalogbylum