Snjómokstur
Undanfarna daga hefur verið mikill snjór og snjófok í sveitarfélaginu. Verktakar á vegum sveitarfélagsins eru að vinna í því að klára að ryðja héraðs- og tengivegi ásamt heimreiðum.
Markmið Grímsnes- og Grafningshrepps varðandi snjómokstur og hálkuvarnir eru að tryggja öryggi og færð fyrir skólaakstur þannig að börn komist í skólann á réttum tíma, að lágmarka óþægindi íbúa og fyrirtækja af völdum snjós og ís og að auðvelda íbúum að sækja vinnu og skóla.
Flestar vélar byrja á milli 5 og 6 á nóttunni og hefjast handa við forgangsleiðir og ryðja leið fyrir skólaakstur. Í slæmri tíð er möguleiki á að snjó fylli hratt í rudda vegi og heimreiðar. Mikilvægt er að þeim sem annast snjómokstur sé sýnd tillitssemi við störf sín. Þeir leggja á sig mikla vinnu, oft við erfiðar aðstæður, við að halda akstursleiðum í sveitarfélaginu greiðfærum. Vegalengdir í sveitarfélaginu eru miklar og aðstæðurnar fjölbreyttar eftir því og er þolinmæði íbúa mjög mikilvæg.
Einnig er mikilvægt að nægt pláss sé fyrir snjóruðningsvélar þannig að verktakar geti rutt.
Hér má sjá upplýsingar og viðmiðunarreglur sveitarfélagsins varðandi snjómokstur.