Þjónustan hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.
Í gær tók til starfa breytt byggðasamlag undir nafninu Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings bs. sem rekið er af Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi, Flóahreppi og Grímsnes- og Grafningshreppi.
Byggðasamlaginu verður stjórnað af tveimur deildarstjórum og verður aðsetur þess í Laugarási í Bláskógabyggð.
Annars vegar verður deildarstjóri velferðarþjónustu og mun Anný Ingimarsdóttir sinna því starfi. Við þessa breytingu mun lítið breytast í þeirri velferðarþjónustu sem er í boði í dag.
Hins vegar verður deildarstjóri yfir skólaþjónustunni. Staðan í dag er sú að ekki er til staðar einstaklingur til að sinna þessu starfi og er stjórn byggðasamlagsins í ráðningarferli á deildarstjóra með Hagvangi. Jafnframt er staðan sú að það vantar fleira starfsfólk til að starfa innan skólaþjónustunnar hjá byggðasamlaginu þrátt fyrir auglýsingar eftir starfsfólki. Verið er að vinna hörðum höndum að passa upp á að þjónustunotendur finni ekki fyrir mikilli þjónustuskerðingu en það er því miður þannig að mögulega munu einhverjir finna fyrir þessum breytingum.
Verkefnastjórn breytinganna hefur haft það að leiðarljósi við uppbyggingu á nýrri þjónustu að bæta skilvirkni og stytta boðleiðir með það fyrir augum að halda áfram að bjóða upp á góða þjónustu og er það því í forgangi að finna hæft fólk til að sinna störfum innan skólaþjónustunnar.
Vegna þess að ekki er til staðar deildarstjóri skólaþjónustu mun Anný Ingimarsdóttir einnig koma að skólaþjónustunni á einhvern hátt og eftir bestu getu þar til ráðinn hefur verið deildarstjóri.
Starf deildarstjóra hefur verið auglýst og sóttu 6 einstaklingar um starfið.
Hér með tilkynnist hverjir sóttu um starfið:
Nafn og starfsheiti
Gunnlaug Hartmannsdóttir, skólastjóri
Jónína Ósk Ingólfsdóttir, aðstoðarskólastjóri
Kolbrún Haraldsdóttir Deildarstjóri stoðþjónustu
Nasteho Mohamed, atvinnuleitandi
Valdís Magnúdóttir, sérkennslustjóri
Þórunn Jóna Hauksdóttir, forstöðumaður og kennsluráðgjafi