Fara í efni

Um barnavernd

Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings veitir ýmis konar stuðningsþjónustu þeim fjölskyldum og einstaklingum í Grímsnes- og Grafningshreppi sem þurfa á stuðningi við uppeldi og aðbúnað barna að halda.
Félagsráðgjafar vinna að málefnum barna og ungmenna samkvæmt barnaverndarlögum og í umboði fagnefndar skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.
Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði með því að styrkja fjölskyldur og beita stuðningsúrræðum til verndar einstaka börnum þegar það á við. Höfuðáhersla er lögð á samvinnu við foreldra hvað varðar stuðningsúrræði, sem eru valin eftir því sem þurfa þykir hverju sinni.
Börn eiga rétt á vernd og umönnun. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og annast þau eins og best hentar hag og þörfum þeirra, búa þeim viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra. Öllum ber okkur að sýna börnum virðingu og umhyggju.
Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Öllum foreldrum og þeim sem hafa samskipti við börn stendur til boða almenn ráðgjöf hjá félagsráðgjafa.

Hér er hægt að tilkynna vegna barna sem eiga lögheimili í eftirtöldum sveitarfélögum: Bláskógabyggð, Flóahreppi, Grímsnes- og Grafningshreppi, Hrunamannahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Tilkynning til barnaverndar

Sendu inn tilkynningu ef þú hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni, ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við ofbeldi eða vanrækslu er skylt að tilkynna það til barnaverndarnefndar. Samkvæmt íslenskum barnaverndarlögum (nr. 80/2002: Barnaverndarlög | Lög | Alþingi (althingi.is)) teljast einstaklingar yngri en 18 ára vera börn. Lögin ná einnig yfir ófædd börn t.d. ef þeim stafar hætta af vímuefnaneyslu móður eða af ofbeldi sem móðir verður fyrir.

Sá sem tilkynnir til barnaverndarnefndar í ofangreindum sveitarfélögum verður að segja til nafns en ef óskað er nafnleyndar veit aðeins það starfsfólk sem kannar málið nafn tilkynnanda. Tilkynnandi þarf að gera grein fyrir nafni, netfangi og símanúmeri til þess að hægt sé að hafa samband til að fá nánari upplýsingar.

Ef málið þolir ekki bið er tilkynnanda vinsamlegast bent á að hafa samband við 112.

Síðast uppfært 28. febrúar 2024
Getum við bætt efni síðunnar?