Fara í efni

Upplýsingar fyrir stjórnmálasamtök 2022

Tilkynning um framboð - framboðsfrestur

Framboð til kosninga til sveitarstjórna skal tilkynnt til yfirkjörstjórnar viðkomandi sveitarfélags á þeim stað og tíma sem auglýstur er og eigi síðar en kl. 12 á hádegi 36 dögum fyrir kjördag. Skal þá skila framboðslista ásamt nauðsynlegum fylgigögnum. Á framboðslista skal tilgreina skýrlega nafn frambjóðanda, lögheimili, kennitölu og stöðu eða starfsheiti hans til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir eru í kjöri.

Fjöldi á framboðslista

Á framboðslista skulu vera að minnsta kosti jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á sem aðalmenn í viðkomandi sveitarstjórn og aldrei fleiri en tvöföld sú tala. Ef yfirkjörstjórn berst listi með fleiri nöfnum en tilskilið er tekur hún af listanum öftustu nöfnin sem eru fram yfir hámarkstöluna.

Skilyrði til að vera á framboðslista:

Frambjóðandi þarf að vera kjörgengur.
Kjörgengur í sveitarstjórn er hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélaginu og hefur óflekkað mannorð.
Samþykki frambjóðanda. Nafn manns má ekki setja á framboðslista án skriflegs samþykkis hans.
Enginn má bjóða sig fram á fleiri framboðslistum en einum við sömu sveitarstjórnarkosningar.

Hverjum framboðslista skal fylgja:

1. Tilkynning um framboð.
Sá sem tilkynnir framboð skal undirrita tilkynninguna eigin hendi á pappír eða með fullgildri rafrænni undirritun á rafrænt skjal sem sent er sem viðhengi í tölvupósti til viðkomandi yfirkjörstjórnar. Senda skal rafræna skjalið en ekki mynd af því.

2. Staðfesting á skráðu heiti og upplýsingar um listabókstaf.
a) Stjórnmálasamtök sem eru skráð í stjórnmálasamtakaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir og birt er á vef Stjórnarráðs Íslands skulu skila staðfestingu á skráningu. Óski stjórnmálasamtök eftir því að vera skráð á stjórnmálasamtakaskrá skal beina umsókn þar um til ríkisskattstjóra.
Allar upplýsingar um umsókn er að finna inn á vefsíðu ríkisskattstjóra

b)
Í tilkynningu um framboð skal koma fram heiti framboðslistans og upplýsingar um listabókstaf. Séu stjórnmálasamtökin á skrá ráðuneytisins, sbr. auglýsingu nr. 225/2022, er framboðslistinn merktur með hliðsjón af skránni. Sé framboðslistinn ekki á fyrrgreindri skrá ráðuneytisins merkir yfirkjörstjórn sveitarfélags listana í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist henni eða eftir samkomulagi við umboðsmenn listanna.

3. Yfirlýsing allra þeirra sem eru á listanum um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann, undirrituð eigin hendi á pappír eða á rafrænu skjali með fullgildri rafrænni undirskrift. Ef yfirlýsingin er send með rafrænum hætti skal hún send sem viðhengi í tölvupósti. Senda skal rafræna skjalið en ekki mynd af því. Æskilegt er að sem flestar rafrænar undirritanir séu á sama skjalinu.

4. Tilkynning frá þeim stjórnmálasamtökum sem boðið hafa fram listann um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans hans ásamt tengiliðaupplýsingum þeirra.

5. Yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Tilgreina skal nafn meðmælanda, lögheimili hans og kennitölu. Ekki er gerð krafa um meðmælendur í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri. Hámarkstala meðmælenda skal vera tvöföld tilskilin lágmarkstala. Lágmarksfjöldi meðmælenda skal vera sem hér segir:

  • Í sveitarfélagi með 101–500 íbúa 10 meðmælendur,
  • í sveitarfélagi með 501–2.000 íbúa 20 meðmælendur,
  • í sveitarfélagi með 2.001–10.000 íbúa 40 meðmælendur,
  • í sveitarfélagi með 10.001–50.000 íbúa 80 meðmælendur,
  • í sveitarfélagi með 50.001 og fleiri íbúa 160 meðmælendur

Meðmælendur með framboði

Hver meðmælandi skal vera með kosningarrétt í hlutaðeigandi sveitarfélagi og má aðeins mæla með einum framboðslista við hverjar kosningar. Hafi sami kjósandi mælt með fleiri en einu framboði verður hann ekki talinn meðmælandi neins þeirra.
Kjósandi getur ekki afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína við framboðslista (meðmæli) eftir að framboð hefur verið afhent yfirkjörstjórn.
Yfirkjörstjórnir geta gert að skilyrði fyrir móttöku framboðslista að nöfn meðmælenda hafi verið skráð í meðmælendakerfi sem Þjóðskrá Íslands sér um.

Síðast uppfært 21. mars 2022
Getum við bætt efni síðunnar?