Sæti við borðið: aukin virkni og þátttaka í notendaráðum
Sæti við borðið: stuðningur og fræðsla fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir á landsbyggðinni til aukinnar virkni og þátttöku í notendaráðum.
Á næstu vikum munu Átak, félag fólks með þroskahömlun, Landssamtökin Þroskahjálp og Fjölmennt skipuleggja fundarherferðina Sæti við borðið, stuðningur og fræðsla fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir á landsbyggðinni til aukinnar virkni og þátttöku í notendaráðum. Búið er að búa til mjög góðan fræðslupakka um notendaráð og munum við fara til að kynna fræðslu fyrir fólk með þroskahömlun og einnig fyrir starfsfólk sveitarfélaga á helstu þjónustusvæðum á landinu og munum við óska eftir samstarfi við alla sem að málinu koma eins og t.d. símenntunarstöðvar, framhaldsskólana, fulltrúa frá sveitarfélögum o.fl.
Í öllum sveitarfélögum/þjónustusvæðum eiga að vera starfandi notendaráð þar sem fötluðu fólki er gert að hafa áhrif um málefni sem skipta máli í lífi þess.
Tilgangurinn er að auka áhrif fatlaðs fólks á skipulag og framkvæmd þjónustu og hagsmunamál í sveitarfélaginu.
Með því að gefa fötluðu fólki tækifæri til að vera í notendaráði og skila tillögum um breytingar eru meiri möguleikar á því að sveitarfélagið mæti betur þjónustuþörfum hvers og eins og fái einnig mikilvægar upplýsingar til að gera betur og hefur jákvæð áhrif á allt samfélagið og kveikir aðra hugsun um fatlað fólk og þá sem þurfa á aðstoð að halda í lífinu.
Mikilvægt er að huga að stuðningi og ráðgjöf til að mæta sértækum þörfum fatlaðra fulltrúa sem sitja í notendaráðunum, efni þarf að vera á auðskildu máli, vel útskýrt til þess að allir geti tekið upplýsta ákvörðun. Allir þurfa að ganga í takt og vinna að því saman og mikilvægt er að starfsmenn sveitarfélaga séu vel að sér í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Við vitum að þetta er stór áskorun fyrir sveitarfélög og mörg hver eru ekki enn þá með starfandi notendaráð og mögulega vita ekki hvernig á að koma því í framkvæmd.
Við vonum að allir sem láta sig málið varða mæti á fundinn!
Með kærri kveðju,
Átak, félag fólks með þroskahömlun, Landssamtökin Þroskahjálp og Fjölmennt