Búrfell
Búrfell í Grímsnesi er móbergsstapi, aflangt frá norðri til suðurs. Afbragðs útsýni er af fjallinu yfir nágrennið sem er nokkuð sérstakt því sunnan við Búrfellið er ein stærsta sumarhúsabyggð á landinu, við Álftavatn, í Þrastaskógi og á stóru svæði í Grímsnesi alveg niður af Hvítá. Uppi á fjallinu er form gígur. Þar er dálítið vatn og segir sagan að tenging sé á milli þess og Kersins í Grímsnesi. Í vatninu býr nykur sem fer á milli vatna og reynir að tæla menn til að setjast á bak sér og draga þá niður í undirdjúpin.
Upphafsstaður göngunnar er austan við túnin á bænum Búrfelli sem stendur sunnan undir fjallinu. Gengið er upp suðurhlíð fjallsins og haldið að brún þar sem litla vatnið blasir við. Oft er gengið í kringum vatnið áður en haldið er sömu leið niður. Gangan er ekki mjög erfið þar sem að hækkunin er jöfn og brekkurnar á leiðinni ekki mjög brattar, gera má ráð fyrir að gangan taki um 2-3 klukkustundir. Búið er að stika leið upp á topp og í kringum vatnið þar.
Þegar komið er að fjallinu ætti að leggja bílum á línuvegi sem er rétt austan við bæina á Búrfelli en ekki á bæjarhlaðinu.