Sinfóníuhljómsveit Íslands er það mikið kappsmál að allir landsmenn fái notið tónleika hennar. Stefnumót hennar við áheyrendur víða um landið eru ævinlega skemmtileg og gefandi. Vorið 2024 heimsótti hljómsveitin Stykkishólm og Borgarnes í velheppnaðri tónleikaferð, en nú er ferðinni heitið á Suðurland, á Höfn í Hornafirði, Vík í Mýrdal og Selfoss.
Um tónsprotann heldur Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og með í för er Jóhann Kristinsson barítónsöngvari, sem er einn af okkar fremstu söngvurum af yngri kynslóðinni. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir söng sinn — til að mynda Íslensku tónlistarverðlaunin 2024 sem söngvari ársins. Jóhann er búsettur í Þýskalandi, kemur reglulega fram í mörgum af helstu tónleikahúsum Evrópu og hefur sungið með mörgum af fremstu sinfóníuhljómsveitum álfunnar. Það er því sérstaklega ánægjulegt að heimsækja Höfn, Vík og Selfoss með glæsilega tónleikadagskrá sem hentar allri fjölskyldunni.
Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur einnig tónleika á Höfn í Hornafirði 30. apríl kl. 19:00 og á Vík í Mýrdal 1. maí kl. 19:00
-
Efnisskrá
Giuseppe Verdi: Luisa Miller, forleikur
Giuseppe Verdi: Di Provenza úr La Traviata
Atli Heimir Sveinsson: Kvæðið um fuglana
Sigvaldi Kaldalóns: Ave María
Richard Wagner: Aría Wolframs úr Tannhäuser
Gioachino Rossini: Largo al factotum úr Rakaranum í Sevilla
Ludwig van Beethoven: Sinfónía nr. 5 í c-moll, Örlagasinfónían -
Hljómsveitarstjóri
Eva Ollikainen
-
Einsöngvari
Jóhann Kristinsson
-
Kórar á Selfossi
Jórukórinn
Karlakór Hveragerðis
Kirkjukór Selfosskirkju
Sunnlenskar raddir
Söngsveit Hveragerðis og Sönghópur Tónlistarskóla Árnesinga
Kirkjukór Hveragerðis- og Kotstrandarsóknar