Lýðheilsu- og æskulýðsnefnd
1. Áherslur ungmenna fyrir íbúaþing um samfélagsstefnu.
Á síðasta fundi með öllum fulltrúum var ákveðið að óska eftir fundi með ungmennaráði til að heyra þeirra sjónarmið og áherslur í samræmi við samþykkt fyrir ungmennaráð Grímsnes- og Grafningshrepps. Markmiðið var annars vegar að heyra frá þeim sem fulltrúum ungmenna og hins vegar að hvetja þau og fleiri ungmenni til að mæta á íbúaþing og koma sjónarmiðum ungmenna á framfæri.
Þau upplifa að það sé hlustað á þau og að þau hafi greiðan aðgang að sveitarstjóra og sveitarstjórn með hugmyndir og ábendingar, þar sem stjórnsýsluhúsið er staðsett í sömu byggingu og grunnskólinn. Við spurðum hvort ungmennunum þætti stuðningur við félagslífið góður og þau töldu svo vera. Upp hófust umræður um samgöngur – hvort að ungmenni í sveitinni geti komist leiðar sinnar og hugmyndir um frístundastrætó voru ræddar.
Umræðan beindist einnig að íþróttamálum, skipulögðum íþróttaæfingum, opnum íþróttatímum og aðgengi ungmenna/byrjenda að fagaðila eða þjálfara í líkamsræktarsal.
Almennt virtust ungmennin sátt við stöðuna, þó alltaf megi gott bæta. Okkur finnst mikilvægt að muna að í samfélagsstefnu sé stiklað á þeim þáttum sem ganga vel í dag og hvað væri hægt að bæta. Það er að segja að stöðunni sé lýst eins og hún er og að hverju er stefnt.