Sveitarstjórn
1. Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 23. september 2015.
Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 23. september 2015 liggur frammi á fundinum.
2. Fundargerðir.
a) Fundargerð 47. fundar fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 15. september 2015.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
b) Fundargerð 23. fundar atvinnumálanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 31. ágúst 2015.
Mál nr. 2 og 3 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 23. fundargerð atvinnumálanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 31. ágúst 2015.
Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 2: Viðburðardagatal 2016 – Grímsnes- og Grafningshrepps.
Atvinnumálanefnd óskar eftir vilyrði sveitarstjórnar fyrir útgáfu viðburðardagatals líkt og gert var fyrir árið 2015. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að viðburðardagatal fyrir árið 2016 verði gert.
Mál nr. 3: Bæklingur.
Atvinnumálanefnd óskar eftir vilyrði sveitarstjórnar fyrir útgáfu kynningarbæklings um sveitafélagið. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að atvinnumálanefnd láti prenta kynningarbækling fyrir sveitarfélagið miðað við fyrirliggjandi gögn.
c) 97. fundur Skipulagsnefndar Uppsveita, 28. september 2015.
Mál nr. 23, 24, 25, 26, 27, 28, 29, 30, 31 og 32 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 97. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dags. 28. september 2015. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 23: 1509059 - Þrastalundur 168297: Þrastalundur lóð 4: Stofnun lóðar.
Fyrir liggur umsókn dags. 21. september 2015 um stofnun 37.008 m2 lóðar úr landi Þrastalundar lnr. 168297. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við stofnun spildunnar og ekki eru gerðar athugasemdir við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.
Mál nr. 24: 1509055 - Langamýri 6: Mýrarkot: Deiliskipulagsbreyting.
Fyrir liggur umsókn eigenda lóðarinnar Langamýri 6 úr landi Mýrarkots þar sem óskað er eftir breytingu á skilmálum svæðisins þannig að heimilt verði að reisa allt að 35 til 40 m2 geymslu / aukahús í stað 25 m2. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að auglýst verð breyting á deiliskipulagi svæðisins sem felur í sér að heimilt verði að reisa allt að 40 m2 aukahús á lóðum innan svæðisins, enda er það í samræmi við ákvæði aðalskipulags sveitarfélagsins.
Mál nr. 25: 1509049 - Minni-Borg land 199953: Stofnun lóðar og breyting á skráningu lóða.
Fyrir liggur umsókn dags. 9. september 2015 sem varðar landsskipti spildunnar Minni-Borg 199953. Um er að ræða stofnun 9,48 ha spildu sem kallast Bjarkarlækur auk þess sem verið að er lagfæra afmörkun og stærð upprunalands og lóða sem áður hafa verið stofnaðar úr spildunni.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við stofnun nýrrar lóðar og lagfæringu á skráningu upprunalands og annarra lóða sem tilgreindar eru í gögnum með fyrirvara um samþykki aðliggjandi lóðarhafa. Ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.
Mál nr. 26: 1509066 - Úlfljótsvatn 170940: Staðfesting á afmörkun lóðar og breyting á skráningu stærðar.
Fyrir liggur lóðablað sem sýnir hnitsetta afmörkun lóðarinnar Úlfljótsvatn 170940. Lóðin er í dag skráð án stærðar en er samkvæmt lóðablaði 17,5 ha að stærð. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við breytta afmörkun og skráningu lóðarinnar með fyrirvara um samþykki aðliggjandi landeigenda.
Mál nr. 27: 1509067 - Úlfljótsvatn Álfasel 170941: Staðfesting á afmörkun lóðar og breyting á skráningu stærðar.
Fyrir liggur lóðablað sem sýnir hnitsetta afmörkun lóðarinnar Úlfljótsvatn Álfasel 170941. Samkvæmt núverandi skráningu er lóðin án stærðar en verður 2.360 m2 skv. lóðablaði. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við breytta afmörkun og skráningu lóðarinnar með fyrirvara um samþykki aðliggjandi landeigenda og tryggt verði aðgengi að lóðinni.
Mál nr. 28: 1509068 - Úlfljótsvatn 170946: Staðfesting á afmörkun lóðar og breyting á skráningu stærðar.
Fyrir liggur lóðablað sem sýnir hnitsetta afmörkun lóðarinnar Úlfljótsvatn 170946. Samkvæmt skráningu er lóðin 10.000 m2 en lóðablað gerir ráð fyrir að hún verði 8.899 m2 að stærð. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við breytta afmörkun og skráningu lóðarinnar með fyrirvara um samþykki aðliggjandi landeigenda og tryggt verði aðgengi að lóðinni.
Mál nr. 29: 1509069 - Úlfljótsvatn 170830: Úlfljótsvatn skátaskáli og Úlfljótsvatn bær: Stofnun lóða.
Fyrir liggja tvær umsóknir um stofnun lóða úr landi Úlfljótsvatns 170830. Annars vegar er um að ræða 2.908 m2 lóð utan um skátaskála suðvestan við Grafningsveg og hins vegar 6,7 ha lóð umhverfis bæjartorfu Úlfljótsvatns. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við stofnun ofangreindra lóða og ekki eru gerðar athugasemdir við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga en bendir á aðgengi að lóð nr. 170830 verði tryggt.
Mál nr. 30: 1509070 - Úlfljótsvatn 170944: Vesturtröð 2, 5, 6 og Austurtröð 1: Stofnun lóða.
Fyrir liggja umsóknir um stofnun fjögurra lóða úr landi Úlfljótsvatns 170944. Um er að ræða lóðir utan um núverandi frístundahús innan orlofssvæðis Starfsmannafélags Reykjavíkur og heita lóðirnar Vesturtröð 2, 5 og 6 og Austurtröð 2. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við stofnun ofangreindra lóða og gerir ekki athugasemdir við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga. Að mati sveitarstjórnar er nauðsynlegt að unnið verði nýtt deiliskipulag fyrir svæðið.
Mál nr. 31: 1502033 - Illagil 21: Kvörtun: jarðvegsmön.
Fyrir liggur að eigendum að Illagili 21 hefur verið gert að fjarlægja mönina að viðurlögðum dagssektum fyrir 10. október 2015. Eigendur Illagils 21 leggja nú fram yfirlýsingu Hilmars Einarssonar fyrrverandi byggingarfulltrúa um að hann hafi heimilað mönina haustið 2005.
Að mati sveitarstjórnar hefur yfirlýsing fyrrverandi byggingarfulltrúa ekki vægi í þessu máli og samþykkir að fylgja málinu eftir í samræmi við fyrri afgreiðslur.
Mál nr. 32: 1509004F - Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 15-14.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 16. september 2015.
d) Fundargerð 27. fundar stjórnar Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs., 28. september 2015.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
e) Fundargerð 11. fundar Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings, 22. september 2015.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
3. Bréf frá Ferli ehf. þar sem kynnt er kerfið Íbúasýn, sérhannað íbúakerfi fyrir bæjar- og sveitarfélög.
Fyrir liggur bréf frá Ferli ehf., dagsett 29. september 2015 þar sem kynnt eru kerfin Íbúasýn og Þjóðarsýn. Íbúasýn er sérhannað íbúakerfi fyrir bæjar- og sveitarfélög og Þjóðarsýn er grunnurinn að gögnum Íbúasýnar og því fylgjast þessi kerfi að. Í tengslum við Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna er boðið upp á afslátt að aðgangi kerfanna. Sveitarstjórn hafnar erindinu.
4. Bréf frá Guðmundi Á. Péturssyni, framkvæmdastjóra Sólheima vegna reikninga fyrir liðveislu og ferðaþjónustu fatlaðra.
Fyrir liggur bréf frá framkvæmdarstjóra Sólheima, Guðmundi Á. Péturssyni, dagsett 21. september 2015 þar sem gerð er athugasemd við að reikningar vegna ferðaþjónustu og liðveislu fatlaðra eru ekki greiddir.
Í byrjun þessa árs var framlengdur samningur milli Sólheima ses og Grímsnes- og Grafningshrepps með nokkrum breytingum. Annar hluti samningsins snýr að ferðaþjónustu fatlaðra og hljóðaði fyrri samningur upp á að sveitarfélagið greiði fyrir 60.000 km á ári. Í nýjum samningi er kveðið á um að greitt verði fyrir allt að 60.000 km og að skilað skuli skýrslu um hverja ferð, hvert er ekið og hver nýtur þjónustunnar. Í umræddum reikningi var það ekki uppfyllt og því var reikningurinn ekki greiddur. Hinn hluti samningsins snýr að liðveislu fyrir fatlaða og stendur þar skýrum stöfum að greiddar verði allt að 2,5 milljónum króna á ári, vísitölutengt, fyrir liðveislu keypta í aðkeyptri verktöku til skilgreindra verkefna. Að auki ber Sólheimum ses að gera grein fyrir fyrirhugaðri liðveislu fyrir 31. janúar ár hvert til sveitarstjóra Grímsnes- og Grafningshrepps og að reikningar vegna þessara verkefna verði sendir til sveitarstjóra, staðfestir af framkvæmdastjóra Sólheima. Þessi gögn hafa ekki borist sveitarstjóra og því var umræddur reikningur ekki greiddur. Það skal samt tekið fram að sveitarstjóra var sent skjal í tölvupósti þann 1. júní s.l. með árs dagskrá fyrir Sólheima almennt svo sem menningarveislu, leikjanámskeið fyrir börnin sem greitt er af sveitarfélaginu í gegnum Gný ofl.
Að auki er gerð athugasemd við það að reikningarnir hafi borist sveitarfélaginu fyrir um það bil þremur mánuðum síðan en staðreyndin er sú að reikningarnir bárust sveitafélaginu síðustu daga ágúst mánaðar þó reikningarnir séu dagsettir 30. júní 2015.
Sveitarstjórn samþykkir að greiða þann hluta akstursins sem sannanlega er vegna þjónustu við fatlaða og felur sveitarstjóra að ganga frá því sem fyrst. Varðandi liðveislu hafnar sveitarstjórn greiðslu fyrirliggjandi reiknings þar sem hann er ekki í samræmi við það samkomulag sem er í gildi. Guðmundur Ármann Pétursson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
5. Beiðni um styrk frá Kvenfélögum í uppsveitum Árnessýslu vegna gerðar myndar í tilefni 100 ára kosningaafmælis kvenna.
Fyrir liggur beiðni um styrk að fjárhæð kr. 200.000 frá Kvenfélögum í uppsveitum Árnessýslu til gerðar myndarinnar „Svipmyndir fyrir framtíðna um fortíðina úr nútímanum“. Myndin verður gerð af tilefni 100 ára kosningaafmælis kvenna og er kostnaðaráætlun hennar að fjárhæð kr. 2,5 millj. Kvenfélögin sem standa að gerð myndarinnar eru Kvenfélag Grímsneshrepps, Kvenfélag Gnúpverjahrepps, Kvenfélag Skeiðahrepps, Kvenfélag Laugdæla, Kvenfélag Biskupstungna og Kvenfélag Hrunamanna. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að veita umbeðinn styrk.
6. Beiðni um styrk frá Aflinu vegna reksturs samtakanna.
Fyrir liggur beiðni um styrk frá Aflinu, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi, til reksturs samtakanna. Sveitarstjórn hafnar erindinu.
7. Beiðni um styrk frá Styrktarsjóði Sólheima.
Fyrir liggur beiðni Styrktarsjóðs Sólheima um styrk vegna áframhaldandi uppbyggingar á aðstöðu- og atvinnumálum að Sólheimum. Sveitarstjórn hafnar erindinu. Guðmundur Ármann Pétursson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
8. Ályktun frá stjórn Heimilis og skóla um endurnýjun gervigrasvalla vegna eiturefna í dekkjakurli.
Fyrir liggur bréf frá stjórn Heimis og skóla, dagsett 25. september 2015 þar sem farið er fram á við sveitarfélög landsins að gervigrasvellir sem þaktir eru gúmmíkurli úr dekkjum verði endurnýjaðir í ljósi upplýsinga um að dekkjakurl á fótboltavöllum innihaldi krabbameinsvaldandi efni. Sveitarstjórn felur Tæknisviði Uppsveitanna að leggja fram áætlun um endurnýjun á gervigrasi og/eða útskipti á gúmmíkurli svo gera megi ráð fyrir þessum kostnaðarlið í fjárhagsáætlun næsta árs.
9. Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna leyfis til reksturs veitingastaðar í flokki II í Matvöruversluninni Völu,Sólheimum, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 1. október 2015 um umsögn vegna endurnýjunar á rekstrarleyfi til reksturs veitingastaðar í flokki II í Matvöruversluninni Völu, Sólheimum, Grímsnes- og Grafningshreppi. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að leyfið verði veitt en óskar jafnframt eftir afriti af rekstarleyfi þegar það er gefið út. Guðmundur Ármann Pétursson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
10. Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna leyfis til reksturs gististaðar í flokki II í Sesseljuhúsi á Sólheimum, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 1. október 2015 um umsögn vegna endurnýjunar á rekstrarleyfi til reksturs gististaðar í flokki II í Sesseljuhúsi, Sólheimum, Grímsnes- og Grafningshreppi. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að leyfið verði veitt en óskar jafnframt eftir afriti af rekstarleyfi þegar það er gefið út. Guðmundur Ármann Pétursson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
11. Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna leyfis til reksturs veitingastaðar í flokki II í Brekkukoti, Sólheimum, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 1. október 2015 um umsögn vegna endurnýjunar á rekstrarleyfi til reksturs veitingastaðar í flokki II í Brekkukoti, Sólheimum, Grímsnes- og Grafningshreppi. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að leyfið verði veitt en óskar jafnframt eftir afriti af rekstarleyfi þegar það er gefið út. Guðmundur Ármann Pétursson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
12. Bréf frá Þjóðskrá Íslands þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins á endurmati fasteignamats í B-Götu 13, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur bréf frá Þjóðskrá Íslands, dagsett 17. september 2015 þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins á endurmati fasteignamats í B-Götu 13, Grímsnes- og Grafningshreppi. Bréfið lagt fram.
13. Bréf frá Þjóðskrá Íslands þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins á endurmati fasteignamats í Öndverðarnesi 2 lóð 170095, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur bréf frá Þjóðskrá Íslands, dagsett 17. september 2015 þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins á endurmati fasteignamats í Öndverðarnesi 2 lóð 170095, Grímsnes- og Grafningshreppi. Bréfið lagt fram.
14. Bréf frá Forsætisráðuneytinu þar sem óskað er eftir ábendingum við verkefnislýsingu fyrir eigendastefnu þjóðlendna.
Fyrir liggur bréf frá Forsætisráðuneytinu, dagsett 23. september 2015 þar sem óskað er eftir ábendingum við verkefnislýsingu fyrir eigendastefnu þjóðlendna. Bréfinu fylgja drög að lýsingu á því hvernig ráðuneytið hyggst vinna að eigendastefnu fyrir þjóðlendur og er verkefnislýsingin send þeim sem ráðuneytið telur helst að hafi hagsmuna að gæta. Bréfið lagt fram.
15. Bréf frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga vegna Ársþings SASS, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands.
Fyrir liggur bréf frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, dagsett 22. september 2015 þar sem greint er frá því hvar og hvenær Ársþings SASS, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands verður. Ársþingin verða í Vík í Mýrdal dagana 29. og 30. október n.k. Sveitarfélagið á tvo fulltrúa á þingið en öllum sveitarstjórnarmönnum er heimilt að sækja þingið. Fulltrúar Grímsnes- og Grafningshrepps verða Hörður Óli Guðmundsson og Guðmundur Ármann Pétursson.
16. Beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um byggingarsjóð Landspítala (heildarlög), 4. mál.
Frumvarpið lagt fram.
17. Beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og málefni aldraðra (uppfærsluréttur íbúðarréttar), 35. mál.
Frumvarpið lagt fram.
18. Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs, 16. mál.
Sveitarstjórn getur ekki fallist á að þingsályktunartillagan verði samþykkt nema fjármagn verði tryggt til verkefnisins.
19. Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um þjóðgarð á miðhálendinu, 10. mál.
Þingsályktunartillagan lögð fram.
20. Beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum, 15. mál.
Þingsályktunartillagan lögð fram.
21. Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um náttúruvernd (varúðarregla, almannaréttur, sérstök vernd, framandi tegundir ofl.), 140. mál.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps leggur til að óheimilt verði að tjalda nema á skipulögðum tjaldsvæðum.
22. Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, 133. mál.
Frumvarpið lagt fram.
23. Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um landskipulagsstefnu 2015-2026, 101. mál.
Þingsályktunartillagan lögð fram.
Til kynningar
Sorpstöð Suðurlands. Fundargerð 242. stjórnarfundar 28.09 2015.
Heilbrigðisnefnd Suðurlands. Fundargerð 167. stjórnarfundar 24.09 2015.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, ársskýrsla 2014.
-liggur frammi á fundinum-.
Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 11:15