Sveitarstjórn
1. Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 3. nóvember 2010 lá frammi á fundinum.
2. Fundargerðir.
a) Fundargerð 130. fundar félagsmálanefndar Uppsveita Árnessýslu og Flóa 03.11 2010
Fundargerðin lögð fram og hún staðfest.
b) Fundargerð 1. fundar umhverfisnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps 01.11 2010.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
c) Fundargerð 3. fundar fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps 09.11 2010.
Fundargerðin lögð fram. Í dagskrárlið 3 liggur fyrir tillaga og greinargerð frá fræðslunefnd Grímsnes- og Grafningshrepps þar sem hún beinir því til sveitarstjórnar að sameina leik- og grunnskóla undir stjórn grunnskólans frá og með 1. janúar 2011. Stefnt verði að því að flytja starfsemi leikskólans í húsnæði grunnskólans eins fljótt og auðið er. Að auki leggur nefndin til að stofnaður verði samráðshópur með fulltrúum foreldra, starfsmanna skóla, fulltrúum fræðslunefndar, skólastjóra og sveitarstjóra er útfæri framtíðarskipulag sameinaðs skóla. Hópurinn taki til starfa innan tveggja vikna frá samþykkt sveitarstjórnar. Skólastjóri leiði starfið en einnig starfi með hópnum utanaðkomandi ráðgjafi.
Í kjölfar tillögu fræðslunefndar var lögð fram tillaga frá foreldrafélögunum þar sem óskað er eftir því við sveitarstjórn, vegna hugsanlegrar sameiningar leik- og grunnskóla, að skipaður verðu samráðshópur og honum falið það verkefni að kanna kosti og galla sameiningar leik- og grunnskóla sem og framtíðarskipan skólamála í Grímsnes- og Grafningshreppi. Skoða beri kostnaðarliði og gerð könnun meðal íbúa sveitarfélagsins varðandi framtíðarskipan skólamála. Foreldrafélögin leggja á það áherslu að ekki verði tekin ákvörðun um mögulegar breytingar í skólamálum fyrr en að fenginni niðurstöðu samráðshópsins.
Í umsögn skólaráðs grunnskólans vegna tillögu fræðslunefndar eru útlistaðir kostir og ábendingar er varða sameiningu skólanna. Skólaráðið leggur til við sveitarstjórn að ef til sameinngar leik- og grunnskóla komi þá verði í áætlun um breytingar á skólahúsnæði gert ráð fyrir 9. og 10. bekk í því skólahúsnæði. Til þess að tryggja sterkari og stærri einingu ef til sameiningar sveitarfélaga komi.
Í umsögn foreldraráðs leikskólans vegna tillögu fræðslunefndar eru áherslur lagðar á að innan leikskólans muni sama fagmennskan halda áfram og gætt að hlutfalli fagmenntaðra starfsmanna við skólann. Einnig vill foreldraráðið að sveitarstjórn ígrundi vel staðsetningu leikskólans og að haft verði samráð við starfsfólk leikskólans við hönnun og skipulagningu hússins.
Meirihluti sveitarstjórnar samþykkir tillögu fræðslunefndar, fulltrúar minnihluta greiða atkvæði gegn tillögunni. Samþykkt er að 7 manna samráðshópur muni taka til starfa innan tveggja vikna. Hópinn skipa skólastjóri, sveitarstjóri, fulltrúi fræðslunefndar, fulltrúi foreldra grunnskólans, fulltrúi foreldra leikskólans, fulltrúi kennara grunnskólans og fulltrúi kennara leikskólans. Hópurinn mun starfa undir stjórn skólastjóra og er honum falið að boða til fyrsta fundar eftir að tilnefningar liggja fyrir. Jafnframt verði skýrsla Hrannar Pétursdóttur um fyrirkomulag skólamála, greining valkosta, frá 30. nóvember 2008 og skýrsla Sigríðar Magnúsdóttur um húsnæðismál leik- og grunnskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi frá apríl 2010 hafðar til hliðsjónar.
Sveitarstjórn samþykkir auk þess að ráða Óskar J. Sandholt sem ráðgjafa hópsins og áætlar að kostnaður vegna þessa á árinu 2010 verði kr. 300.000 og kr. 300.000 á árinu 2011.
Sveitarstjórn samþykkir einnig að samráðshópurinn vinni að sameiginlegri fjárhagsáætlun leik- og grunnskóla vegna ársins 2011.
Minnihluti sveitarstjórnar hafnar því að fundargerðin verði samþykkt. Fyrir liggur að fræðslunefnd hefur farið út fyrir verksvið sitt með því að vinna að, sækja ráðgjöf og kynna mögulega sameiningu leik- og grunnskóla. Gerð er alvarleg athugasemd við þau vinnubrögð að áður en málið er hið minnsta rætt í sveitarstjórn hefur leikskólastjóra verið tilkynnt að henni verði sagt upp auk þess sem möguleg sameining er kynnt fyrir nemendum grunnskóla áður en málið er hið minnsta tekið fyrir í sveitarstjórn. Því er harðlega mótmælt að ekki sé farið að óskum foreldra barna í leik- og grunnskóla.
Ekki er eðlilegt að ákveðnar séu og ræddar grundvallarbreytingar á skóla- og leikskólamálum sveitarfélagsinns undir staðfestingarlið fundargerðar fræðslunefndar auk þess hefur minnihlutinn ekki fengið þær upplýsingar sem kallað hefur verið eftir og því ekki hægt að taka upplýsta ákvörðun í málinu, þessu er harðlega mótmælt.
Fulltrúrar meirihluta vilja koma því á framfæri að leikskólastjóra hefur ekki verið tilkynnt að henni verði sagt upp störfum.
Í dagskrárlið 5 skorar fræðslunefnd á sveitarstjórn að bjóða nemendum upp á hafragraut á morgnanna og að auki gefist foreldrum kostur á að kaupa ávexti og grænmeti í morgunhressingu í stað nestis.
Sveitarstjórn samþykkir að bjóða nemendum upp á hafragraut á morgnanna og að foreldrum gefist kostur á að kaupa ávexti og grænmeti í stað nestis.
3. Erindisbréf fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggja drög að erindisbréfi fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps vegna kjörtímabilsins 2010-2014. Sveitarstjórn vísar í lög um leik- og grunnskóla frá 2008 þar sem segir að ekki þurfi sérstakt erindisbréf og í samantekt Bjarkar Ólafsdóttur um skyldur og ábyrgð skólanefnda.
4. Drög að endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2010.
Fyrir liggur yfirlit að fjárhagsáætlun sveitarfélagins vegna ársins 2010 ásamt stöðu bókhalds 15. nóvemberber 2010.
Sveitarstjórn vísar málinu til næsta fundar.
5. Beiðni um aðalskipulagsbreytingu.
Fyrir liggur beiðni Jónasar Inga Ketilssonar f.h. eigenda Móaflatar 2-11 og Tjaldhóla 1-9 í landi Minni-Borga um að breyta aðalskipulagi lóðanna úr því að vera skilgreindar sem verlsunar- og þjónustusvæði í það að verða svæði fyrir frístundabyggð. Sveitarstjórn hafnar erindinu þar til gert verður grein fyrir lóðarréttindum hverrar lóðar fyrir sig enda samræmist breytingartillagan ekki að aðalskipulagi.
6. Beiðni um styrk við Snorraverkefnið sumarið 2011.
Fyrir liggur beiðni fá Snorrasjóð um styrk til Snorraverkefnisins sumarið 2011 þar sem markmið verkefnisins er að auka tengsl Íslendinga við samfélag fólks af íslenskum ættum í Kanada og Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sveitarstjórn hafnar erindinu.
7. Skipurit sveitarfélagsins.
Fyrir liggja drög að skipuriti sveitarfélagsins til umræðu. Sveitarstjórn samþykkir að fresta samþykkt til næsta fundar.
8. Samningur um endurskoðunarþjónustu.
Fyrir liggur samningur við enduskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers ehf. Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur oddvita að undirrita hann.
Fundi frestað milli kl. 11:00 og 12:00
9. Dómur Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. E-1190/2009.
Fyrir liggur dómur Héraðsdóms Suðurlands frá 9. nóvember 2010 í máli nr. E-1190/2009. Lögmaður sveitarfélagsins leggur til að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar. Sveitarstjórn samþykkir að frestar afgreiðslu málsins. Guðmundur Ármann tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.
10. Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
Fyrir liggur bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti um viðbrögð Grímsnes- og Grafningshrepps vegna úrskurða ráðuneytisins í málum íbúa Sólheima er varða ferðaþjónustu fatlaðra. Einnig eru lögð fram drög að svarbréfi frá Sigurði Jónssyni hrl til ráðuneytisins. Sveitarstjórn samþykkir að fela lögmanni sveitarfélagsins að svara ráðuneytinu í samræmi við drögin. Guðmundur Ármann tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.
11. Bréf frá Markaðsstofu Suðurlands.
Fyrir liggur erindi frá Markaðsstofu Suðurlands þar sem óskað er eftir framlenginu á þjónustusamningi dagsettum 5. mars 2010. Árgjald fyrir þjónsutu er kr. 350 pr. íbúa.
Sveitarstjórn samþykkir að framlengja samstarfsamingi við Markaðsstofu Suðurlands til fjögurra ára og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
12. Beiðni um styrk frá Hestamannafélaginu Trausta.
Fyrir liggur beiðni frá Hestamannafélaginu Trausta um styrk upp á kr. 1.000.000 til að ljúka við uppbygginu á nýjum reiðvelli að Laugarvatni. Sveitarstjórn samþykkir að gera ráð fyrir 500.000 kr. styrk í fjárhagsáætlun vegna ársins 2011 og 500.000 kr. styrk í fjárhagsáætlun vegna ársins 2012.
13. Beiðni um rekstrarstyrk frá Samtökum um kvennaathvarf.
Fyrir liggur beiðni fá Samtökum um kvennaathvarf vegna rekstrarstyrks fyrir árið 2011 að fjárhæð 50.000 kr. Sveitarstjórn samþykkir að veita þennan styrk.
14. Samþykktir fyrir Félagsmiðstöðina Borg.
Fyrir liggja samþykktir Félagsmiðstöðvarinnar Borg. Sveitarstjórn staðfestir samþykktirnar með áorðnum breytingum.
15. Þjónustusamningur við Árborg.
Fyrir liggur þjónustusamningur milli sveitarfélagsins Árborgar og stjórnar sameiginlegs þjónustusvæðis Suðurlands um þjónustu við fatlaða. Sveitarstjórn staðfestir samninginn fyrir hönd Grímsnes- og Grafningshrepps. Minnihluti sveitarstjórnar hafnar gerð þjónustusamnings við Árborg á þeim forsendum að samningurinn byggir á lögum sem ekki eru komin fram á Alþingi.
16. Kjörskrá og kjörfundur.
Sveitarstjórn samþykkir að kjörstaður vegna kosninga til stjórnlagaþings þann 27. nóvember n.k. verði í stjórnsýsluhúsinu á Borg í fundarsal sveitarstjórnar á 2. hæð. Einnig er samþykkt að bjóða upp á kaffiveitingar á meðan kjörfundi stendur.
Kjörskrá vegna kosninga til stjórnlagaþings 2010 er lögð fram og yfirfarin. Á kjörskrá eru 295 aðilar, 163 karlar og 132 konur. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að árita kjörskrá um samþykki sveitarstjórnar. Kjörskráin mun liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagins til 26. nóvember n.k.
17. Aðildarumsókn að Samorku.
Fyrir liggur beiðni framkvæmdar- og veitustjóra Grímsnes- og Grafningshrepps um aðildarumsókn að Samorku fyrir Hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps. Sveitarstjórn samþykkir að sækja um aðild.
18. Tilboð í veiðirétt og veiðihús í Ásgarðslandi.
Fyrir liggja þrjú tilboð í veiðirétt og veiðihús í landi Ásgarðs. Sveitarstjórn fór yfir tilboðin og samþykkir að fela Ólafi Björnssyni lögmanni að áreiðanleikakanna fyrirliggjandi tilboð.
Til kynningar
Fundargerð 7. fundar Almannavarnarnefndar Árnessýslu, 16.04 2010.
Fundargerð 8. fundar Almannavarnarnefndar Árnessýslu, 03.05 2010.
Fundargerð 9. fundar Almannavarnarnefndar Árnessýslu, 29.10 2010.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Upplýsingar um starfsemina árið 2009.
–liggur frammi á fundinum-
Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti um uppgjör framlaga vegna húsaleigubóta á árinu 2009.
Fundargerð aðalfundar Suðurlandsvegar ehf., 21.10 2010.
Samband íslenskra sveitarfélaga. Fundargerð 780. stjórnarfundar, 29.10 2010.
Tónlistarskóli Árnesinga. Fundargerð 154. fundar skólanefndar, 11.10 2010.
Skólaskrifstofa Suðurlands. Fundargerð 125. stjórnarfundar 08.11 2010.
Rannsóknarsetur forvarna við Háskólan á Akureyri. Heilsa og lífskjör skólanema á Suðursvæði 2006-2010. -liggur frammi á fundinum-
Ekki fleira tekið fyrir og fundið slitið kl. 13:00