Sveitarstjórn
1. Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. ágúst 2019.
Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. ágúst 2019 liggur frammi á fundinum.
2. Fundargerðir.
a) Fundargerð 22. fundar fjallskilanefndar, 19. ágúst 2019.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
b) Fundargerð 182. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 28. ágúst 2019.
Mál nr. 6, 7 og 13 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 182. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dags. 28. ágúst 2019. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 6: 1908037 - Selhólsvegur 7A-D; Kóngsvegur 15A-C; Breytt stærð, breytt heiti og skipting lóða.
Fyrir liggur umsókn Gerðar Sigríðar Tómasdóttur, dags. 7. ágúst 2019 um breytingu á skráningu lóða við Selhólsveg 7A-B-C-D. Umsókninni fylgir lóðablað frá EFLU og er í samræmi við deiliskipulag sem tók gildi 5. febrúar 2018.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi breytingu á skráningu skv. framlögðu lóðarblaði.
Mál nr. 7: 1902037 - Neðra-Apavatn lóð (L169296); Umsókn um byggingarleyfi; Sumarhús með risi.
Í framhaldi af afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 14. ágúst 2019 er að nýju lögð fram umsókn Finnu Birnu Steinsson og Baldurs Hafstað, dags. 01.03.2019 um byggingarleyfi til að byggja sumarhús með svefnlofti 137,7 m2 á sumarhúsalóðinni Neðra-Apavatn (L169296) í Grímsnes- og Grafningshreppi. Lagðir hafa verið fram breyttir aðaluppdrættir með breyttu útliti hússins sem og grunnmyndum frá fyrri grenndarkynningu. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á Neðra-Apavatni L169296, með fyrirvara um niðurstöðu nýrrar grenndarkynningar skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, fyrir lóðarhöfum aðliggjandi lóða.
Mál nr. 13: 1908002F – Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 19 – 104.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 14. ágúst 2019.
c) Fundargerð 37. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 23. ágúst 2019.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
d) Fundargerð stjórnar byggðasamlagsins Bergrisans bs., 26. ágúst 2019.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
3. Staða fjárhagsáætlunar.
Farið var yfir stöðu bókhalds og borið saman við fjárhagsáætlun ársins 2019 eftir fyrstu átta mánuði ársins.
4. Lýðheilsu- og tómstundastyrkur Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggja drög að breyttum reglum fyrir lýðheilsu- og tómstundastyrk Grímsnes- og Grafningshrepps. Í drögunum er bætt við að tónlistarnám á vegum Tónsmiðju Suðurlands falli ekki undir styrkveitinguna nú þegar sveitarfélagið hefur gert samstarfssamning við Tónsmiðjuna. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög að lýðheilsu- og tómstundastyrk fyrir Grímsnes- og Grafningshrepp.
5. Heilsueflandi samfélag.
Á fundinn mætti Gígja Gunnarsdóttir fyrir hönd Landlæknisembættis Íslands með kynningu á verkefninu Heilsueflandi samfélag. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka þátt í verkefninu Heilsueflandi samfélag og felur oddvita / sveitarstjóra að vinna áfram að málinu.
6. Skógræktin.
Á fundinn mættu Hreinn Óskarsson og Hrefna Jóhannesdóttir fulltrúar Skógræktarinnar til að ræða lands- og landshlutaáætlanir og lykilhlutverk sveitarfélaga í loftslagsmálum.
7. Áskorun til umhverfisráðherra, ríkisstjórnar og sveitarfélaga Íslands frá Samtökum grænkera á Íslandi.
Fyrir liggur bréf frá Samtökum grænkera á Íslandi dagsett 20. ágúst 2019 þar sem skorað er á umhverfisráðherra, ríkisstjórn og sveitarfélög Íslands að draga úr neyslu dýraafurða. Bréfið lagt fram til kynningar.
8. Bréf frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga vegna Ársþings SASS, aðalfunda Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands.
Fyrir liggur bréf frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, dagsett 22. ágúst 2019 þar sem greint er frá því hvar og hvenær Ársþings SASS, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands verður. Ársþingin verða á Hótel Geysi, dagana 25. og 26. október n.k. Sveitarfélagið á tvo fulltrúa á þinginu en öllum sveitarstjórnarmönnum er heimilt að sækja þingið. Fulltrúar Grímsnes- og Grafningshrepps verða Ása Valdís Árnadóttir og Björn Kristinn Pálmarsson.
9. Bréf frá Landssambandi íslenskra vélsleðamanna varðandi uppsetningu forvarnarskiltis og bílastæða við Bragabót norðan Lyngdalsheiðar.
Fyrir liggur bréf frá Landssambandi íslenskra vélsleðamanna dagsett 25. ágúst 2019 þar sem félagið lýsir yfir áhuga til að setja upp varanlegt forvarnarskilti við Bragabót og óskar eftir leyfi sveitarfélagsins til verksins. Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og felur sveitarstjóra / oddvita að vinna áfram að málinu.
10. Tölvupóstur frá Guðjóni Bragasyni og Eygerði Magnúsdóttur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem kynnt er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna stefnu í úrgangsmálum.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Guðjóni Bragasyni og Eygerði Magnúsdóttur dagsett 26. ágúst 2019 þar sem kynnt er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna stefnu í úrgangsmálum. Lagt fram til kynningar.
11. Tölvupóstur frá sveitarstjórn Grýtubakkahrepps vegna þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.
Fyrir liggur tölvupóstur frá sveitarstjórn Grýtubakkahrepps dagsett 22. ágúst 2019 vegna þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Ákveðið hefur verið að boða til fundar vegna málsins og verður Ása Valdís Árnadóttir fulltrúi sveitarstjórnar á fundinum.
12. Birt til umsagnar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.
Fyrir liggur að birt er til umsagnar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Málinu var frestað á fundi sveitarstjórnar þann 21. ágúst 2019 og nú tekið fyrir að nýju.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps mótmælir harðlega þeim áformum sem koma fram í þingsályktunartillögu sveitarstjórnarráðherra að beita lögþvingunum til sameiningar sveitarfélaga á Íslandi. Sveitarstjórn hvetur ríkisstjórn og Alþingi til að virða lýðræðislegan rétt íbúa til að eiga val um það með kosningarétti sínum hvernig best er að haga sveitarfélagaskipan á hverju svæði. Sameining sveitarfélaga getur verið valkostur en meginatriði er að hún verði á grundvelli ákvörðunar íbúanna sjálfra. Mikið er lagt upp úr tveimur atriðum, lýðræði og sjálfsstjórnarrétti í tillögu ráðherra og telur sveitarstjórn að tillaga um lágmarksfjölda íbúa sé í algerri andstæðu við þær lýðræðislegu áherslur sem koma fram að öðru leyti í tillögunni.
Til kynningar
- SASS. Fundargerð 548. stjórnarfundar 16.08 2019.
- Heilbrigðisnefnd Suðurlands. Fundargerð 198. stjórnarfundar 20.08 2019.
- Umsögn IOGT um áhrif áfengis á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
- Ungmennafélagið Hvöt, ársreikningur 2017.
- Ungmennafélagið Hvöt, ársreikningur 2018.
- Vottunarfélagið Tún, ársreikningur og skýrsla stjórnar 2018.