Fara í efni

Sveitarstjórn

476. fundur 19. febrúar 2020 kl. 09:00 - 10:30 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Bjarni Þorkelsson
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir

1.  Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 5. febrúar 2020.  

Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 5. febrúar 2020 liggur frammi á fundinum.

 

2.  Fundargerðir.

a)      Fundargerð 191. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 12. febrúar 2020.

Mál nr. 12, 13, 14, 15, 16 og 21 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Lögð fram 191. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 12. febrúar 2020. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 12: 1912048 - Hvítárbraut 31C L197193; Skilmálabreyting; Þakhalli; Deiliskipulagsbreyting.

Í framhaldi af bókun sveitarstjórnar dags. 15. janúar 2020 var máli Sigríðar Ólafsdóttur f.h. Magnúsar D. Baldurssonar og Sigríðar Þorgeirsdóttur, dags. 19. desember 2019 um skilmálabreytingu Hvítárbrautar 31C, L197193 þar sem breytingin felst í að leyfilegur halli á þaki verði frá 0-45 gráðum, flatt þak, í stað 14-45 gráður frestað þar til samþykki lóðarhafa á svæðinu liggur fyrir.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan hefur verið grenndarkynnt án athugasemda.

Mál nr. 13: 2001063 - Neðan-Sogsvegar 4 L169505, 4A L169506, 4B L169507 og 4C; Lagfæring og breytt afmörkun lóða; Deiliskipulagsbreyting.

Fyrir liggur umsókn Arnar S. Ingibergssonar, dags. 24. janúar 2020, um breytingu á deiliskipulagi svæðisins við Braut 1 Neðan-Sogsvegar 4, 4A, 4B og 4C sem fram að þessu hefur ekki verið stofnuð lóð fyrir. Breytingin felst í að lóðarhafi hefur fengið lóðirnar mældar inn og fengið samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða fyrir ytri lóðamörkum sem og lóðamörkum Neðan Sogsvegar 4A og 4B en þar liggur samþykki fyrir lóðamörkum innan deiliskipulagstillögunnar einnig. Skipulagsskipmálar í samþykktu deiliskipulagi gilda að öðru leyti áfram.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að tillagan verði grenndarkynnt skv. 44. gr. sömu laga.

Mál nr. 14: 1906056 - Hamrar 3 L224192; Stofnun þriggja lóða; Deiliskipulag.

Í framhaldi af bókun sveitarstjórnar á fundi þann 6. nóvember 2019 er lagt fram bréf umsækjanda þar sem farið er fram á endurskoðun bókunarinnar og fjarlægð frá ánni verði ákveðin í samræmi við Vatnalögin og vísar umsækjandi í orðalag að jafnan skal miðað við lágflæði í vatni.

Sveitarstjórn er bundin af gildandi skipulagslögum og skipulagsreglugerð er varðar fjarlægð bygginga frá ám og vötnum. Sveitarstjórn telur sig ekki vera að draga upp ákveðin landamerki gagnvart eigendum lands.  

Mál nr. 15: 1904009 - Kerið 1 L172724; Gestastofa og bílastæði; Deiliskipulag.

Lagt fram til umfjöllunar bréf skipulagsstofnunar dags. 29. nóvember 2019, þar sem Skipulagsstofnun gerir athugasemdir í þá veru að deiliskipulagstillagan sé í ósamræmi við gildandi aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Vitnað er í kafla 17 um hverfisverndarsvæði, í greinargerð aðalskipulags, að öll mannvirkjagerð og jarðrask sé með öllu bannað í grennd við náttúruminjar. Í umsögn Skipulagsstofnunar dags, 29.11.2019, vegna tillögu að deiliskipulagi Kersins er gerð athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda vegna ósamræmis við aðalskipulag. Að mati Skipulagsstofnunar er deiliskipulagstillagan ekki í samræmi við ákvæði sem gilda um hverfisverndarsvæði en þar segir: Kerið í Grímsnesi (H1), Kerhóll í Grímsnesi (H2) og ósnortið hraun í Öndverðarnesi II (H3) verði vernduð sem einstakar landslagsgerðir og náttúrufyrirbæri. Öll mannvirkjagerð og jarðrask er með öllu bannað í grennd við náttúruminjarnar

Bókun/rökstuðningur:Á gildandi aðalskipulagsuppdrætti sveitarfélagsins eru mörk hverfisverndarsvæðisins ill greinanleg. Við vinnslu deiliskipulagstillögunnar var því kallað eftir stafrænum gögnum frá skipulagshönnuði aðalskipulagsins til að ganga úr skugga um hvar mörk hverfisverndarsvæðisins liggja og eru þau sýnd á deiliskipulagsuppdrætti. Orðalag aðalskipulagsins um hverfisverndarsvæði H1, þ.e. að mannvirkjagerð og jarðrask sé með öllu bannað „í grennd“ við náttúruminjar er ónákvæmt. Við vinnslu deiliskipulagstillögunnar var ekki litið svo á að göngustígar með tilheyrandi útsýnispöllum teldust mannvirkjagerð eða jarðrask sem ógnað gæti jarðminjunum. Þvert á móti væri um að ræða aðgerðir sem styddu við markmið hverfisverndarinnar um að standa vörð um „einstakar landslagsgerðir og náttúrufyrirbæri“ . Til þess að fylgja þessu markmiði eftir voru í deiliskipulagstillögu settir ítarlegri skilmálar um hverfisverndarsvæðið til verndunar þess. Uppbygging við Kerið skv. tillögu að deiliskipulagi er að öllu leyti utan hverfisverndarsvæðisins, að undanskildu viðhaldi á núverandi göngustígum og útsýnispalli, sem og nýjum útsýnispalli/-pöllum til að verjast ágangi. Þá er aðkoma inn á svæðið færð austar, fjær Kerinu, ásamt bílastæðum og öðrum mannvirkjum. Í kafla 5.2. í greinargerð deiliskipulagstillögunnar er gerð grein fyrir áhrifum tillögunnar á umhverfið og ásýnd m.t.t. staðsetningarkosta. Þar kemur m.a. fram að gestastofu og bílastæði var valinn staður fjær Kerinu en núverandi bílastæði. Var það m.a annars unnið í samráði við Vegagerðina til að tryggja betra umferðaröryggi, og þar með færslu á aðkomu inn á svæði. Núverandi aðkoma að Kerinu er á versta hugsanlega stað (efst uppi á hól) þar sem iðulega hafa myndast umferðarteppur og oft legið við slysum. Nýju mannvirkin eru staðsett sem næst þjóðveginum, á svæði sem þegar hefur verið raskað að talsverðu leyti. Handan Biskupstungnabrautar er sumarbústaðabyggð og uppbygging við Kerið því í grennd við aðra byggð. Almennir skilmálar deiliskipulagstillögunnar s.s. um byggingar, efnisnotkun, frágang, lýsingu, lóðafrágang, inniviði og gróður miða allir að því að vernda náttúrulegt umhverfi Kersins og tryggja vandaða uppbyggingu á svæðinu. Áframhaldandi vönduð uppbygging við Kerið styður við stefnu aðalskipulagsins um verndun svæðisins ásamt því að gera fólki kleift að njóta þeirra verðmæta sem Kerið er sbr. stefnu um náttúruverndarsvæði í kafla 15 aðalskipulags, en þar segir m.a.: Almennt verði stuðlað að verndun helstu náttúrufyrirbæra í sveitarfélaginu en jafnframt verði fólki gert kleift að njóta þessara verðmæta. Ekki er stefnt að friðlýsingu svæða á náttúruminjaskrá en lagt til að valin svæði og náttúrufyrirbæri falli undir hverfisvernd. Ekki er litið á svæði á náttúruminjaskrá sem verndarsvæði í heild sinni en lagt til að valin svæði og náttúrufyrirbæri falli undir hverfisvernd. Á grunni ofangreinds þá er það niðurstaða Grímsnes- og Grafningshrepps að deiliskipulag Kersins sé í samræmi við Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 og þar með ákvæði sem þar eru um hverfisverndarsvæði. Ákvæði sem nefnd eru í umsögn Skipulagsstofnunar eiga eingöngu við hverfisvernduð svæði, sem deiliskipulagið uppfyllir. Grímsnes- og Grafningshreppur telur því að misskilnings hafi gætt í umsögn Skipulagsstofnunar þegar segir að deiliskipulagstillagan sé ekki í samræmi við ákvæði sem gilda um hverfisverndarsvæði. Þess er því farið á leit við Skipulagsstofnun að stofnunin endurskoði umsögn sína á grunni ofangreinds og geri ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Mál nr. 16: 2001038 - Nesjar L170874; Heimanes; Breytt afmörkun, stærð og heiti lóðar.

Fyrir liggur umsókn Einars S. Ingólfssonar, dags. 8. janúar 2020 um staðfestingu á afmörkun og breytingu á stærð og heiti lóðarinnar Nesjar L170874. Óskað er eftir að lóðin fá heitið Heimanes í stað Nesjar. Lóðin er skráð 0,0 m2 í fasteignaskrá en er 2.500 m2 skv. nákvæmari mælingu. Þá er óskað eftir að ekki verði gerð athugasemd við landskipti skv. 13. gr. jarðarlaga. Fyrir liggur samþykki lóðarhafa sem og landeigenda lóðarinnar og upprunalandsins, Nesjar L170824 sem liggur upp að landinu, á hnitsetningu lóðamarka.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afmörkun lóðarinnar og heitið Heimanes, skv. umsókn. Ekki eru gerðar athugasemdir við staðfestingu landskipta skv. 13. jarðalaga.

Mál nr. 21: 2001004F – Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 20 – 114.

Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 29. janúar 2020.

 

b)     Fundargerð ársfundar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs., 30. október 2019.

Mál nr. 3 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.  

Lögð fram fundargerð ársfundar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs., dags. 30. október 2019. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 3: Samþykktir.

Á ársfundinum voru kynntar breytingar á samþykktum embættisins sem stjórn UTU leggur til. Breytingarnar felast í að tæknisviðshlutinn er tekinn út og þar með breytist skiptihlutfallið líka. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti tillögur stjórnar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs.

 

c)      Fundargerð 37. fundar Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings, 5. febrúar 2020.

Mál nr. 2 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Lögð fram fundargerð 37. fundar Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings, dags. 5. febrúar 2020. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 3: Tillaga að breyttum gjaldskrám.

Lögð fram tillaga að breyttum gjaldskrám Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings fyrir heimaþjónustu, fjárhagsaðstoð og greiðslur til stuðningsfjölskyldna. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti fyrirliggjandi tillögu.

d)     Fundargerð stjórnarfundar Bergrisans, 21. janúar 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

  e)      Fundargerð 195. fundar fagráðs Tónlistarskóla Árnesinga, 7. febrúar 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 f)       Fundargerð 6. fundar byggingarnefndar Búðarstígs, 4. febrúar 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 3.  Samningur við Gámaþjónustuna / Terra.

Fyrir liggur að samningur sveitarfélagsins við Gámaþjónustuna /Terra um sorphirðu í sveitarfélaginu mun renna út í lok ágúst 2020. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að framlengja samninginn um eitt ár eins og heimilt er í gildandi samningi. Sveitarstjóra / oddvita falið að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.

 4.  Úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 10/2019 þar sem kærð var ákvörðun sveitarstjórnar um að hafna breytingu á skráningu húss að Kerhrauni C 103/104 úr sumarhúsi í íbúðarhús.

Fyrir liggur úrskurður frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 10/2019 þar sem kærð var ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 19. desember 2018 um að hafna breytingu á skráningu hússins að Kerhrauni C103/104 úr sumarhúsi í íbúðarhús. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er að kröfu kæranda var vísað frá. Lagt fram til kynningar.

 5.   Tölvupóstur frá Ólöfu Harðardóttur f.h. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem tilkynnt er um stjórnsýslukæru. Einnig er óskað eftir gögnum og sveitarfélaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna.

Fyrir liggur tölvupóstur frá Ólöfu Harðardóttur f.h. Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2020 þar sem tilkynnt er um stjórnsýslukæru. Einnig er óskað eftir gögnum og sveitarfélaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela lögmanni sveitarfélagsins, Óskari Sigurðssyni hrl. að gæta hagsmuna sveitarfélagsins.

 6.  Bréf frá Kristínu S. Karlsdóttur f.h. Yfirfasteignamatsnefndar þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins í máli nr. 2/2020 – Sogsbakki 15, Grímsnes- og Grafningshreppi.

Fyrir liggur bréf frá Kristínu S. Karlsdóttur f.h. Yfirfasteignamatsnefndar þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins í máli nr. 2/2020 – Sogsbakki 15, Grímsnes- og Grafningshreppi. Jafnframt er lögð fram umsögn lögmanns sveitarfélagsins, Óskars Sigurðssonar hrl.  Sveitarstjórn staðfestir bréf lögmannsins.

 7.  Bréf frá Óttari Guðjónssyni f.h. kjörnefndar Lánasjóðs sveitarfélaga þar sem auglýst er eftir framboðum til stjórnar Lánasjóðsins.

Fyrir liggur bréf frá Óttari Guðjónssyni f.h. kjörnefndar Lánasjóðs sveitarfélaga, dags. 12. febrúar 2020 þar sem auglýst er eftir framboðum til stjórnar Lánasjóðsins. Bréfið lagt fram til kynningar.

8.  Bréf frá Ástþóri Jóni Ragnheiðarsyni, formanni Ungmennaráðs Íslands þar kynnt er ungmennaráðstefnan „Ungt fólk og lýðræði“.

Fyrir liggur bréf frá Ástþóri Jóni Ragnheiðarsyni, formanni Ungmennaráðs Íslands, dags. 6. febrúar 2020 þar sem vakin er athygli á ráðstefnunni „Ungt fólk og lýðræði“ sem haldin verður á Laugarvatni dagana 1. – 3.  apríl n.k. Bréfið lagt fram til kynningar.

 9.  Afrit af bréfi frá Þjóðskrá Íslands þar sem kynnt er breytt fasteignamat eigna að Nesjavöllum lóð 170929, Grímsnes- og Grafningshreppi.

Fyrir liggur afrit af bréfi frá Þjóðskrá Íslands til eiganda eigna að Nesjavöllum lóð 170929, dagsett 4. febrúar 2020 þar sem kynnt er breytt fasteignamat eignarinnar. Bréfið lagt fram til kynningar.

 10.  Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á frumvarp til laga um breytingu á barnalögum nr. 76/2003, með síðari breytingum (fæðingarstaður og sveitarfélag fyrsta lögheimilis barns), 119. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

 11. Birt til umsagnar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Fyrir liggur að birt er tilumsagnar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Sveitarstjóra falið í samstarfi við lögmann sveitarfélagsins, Óskar Sigurðsson hrl. að vinna áfram að málinu.

 12. Samningur við Villiketti.

Fyrir liggur samningur við Villiketti um að Villikettir hlúi að villi- og vergangsköttum í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi samning og felur sveitarstjóra / oddvita að ganga frá samningi.

 Til kynningar

  • Heilbrigðisnefnd Suðurlands. Fundargerð 202. stjórnarfundar 04.02 2020.
  • SASS. Fundargerð 553. stjórnarfundar 17.01 2020.
  • Samband íslenskra sveitarfélaga.  Fundargerð 878. stjórnarfundar, 31.01 2020.

 

Getum við bætt efni síðunnar?