Sveitarstjórn
486. fundur sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps var haldinn í stjórnsýsluhúsinu Borg, miðvikudaginn 1. júlí 2020 kl. 9.00 f.h.
Fundinn sátu:
Ása Valdís Árnadóttir
Björn Kristinn Pálmarssonar
Smári Bergmann Kolbeinsson
Ingibjörg Harðardóttir
Bjarni Þorkelsson
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir
1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 198. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 24. júní 2020.
Mál nr. 9, 10, 11, 12 og 15 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 198. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 24. júní 2020. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 9: 2006044 - Miðengi lóð L169073 og L188031, Gráhella 1 og 2, breytt heiti lóða.
Lögð er fram umsókn Bjarna Guðmundsonar og Ingu Karólínu Guðmundsdóttur, dags. 20. maí 2020 er varðar breytingu á skráningu lóð Miðengis lóð L169073 og 188031. Eftir breytingu verði heiti lóðanna Gráhella 1 og 2. Nafnið vísar í örnefni á svæðinu og eru lóðirnar sýndar á meðfylgjandi uppdrætti ásamt þremur öðrum lóðum á svæði sem vísað er í að sé austurhluti við Gráhelluklöpp.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða breytt heiti lóðanna og jafnframt að hinar þrjár lóðirnar innan meðfylgjandi uppdráttar fái sama heiti og viðeigandi númer. Skipulagsfulltrúa er falið að kynna málið fyrir þeim lóðarhöfum.
Mál nr. 10: 2006039 - Miðengi lóð (L188031); umsókn um byggingarleyfi; sumarbústaður – viðbygging.
Fyrir liggur umsókn Bjarna Guðmundssonar og Ingu Karólínu Guðmundsdóttur um tilkynningarskylda framkvæmd að lagfæra og byggja við sumarbústað á sumarbústaðalandinu Miðengi lóð (L188031) í Grímsnes- og Grafningshreppi. Heildarstærð eftir stækkun verður 33,8 m2.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Ef engar athugasemdir berast vegna grenndarkynningar er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Mál nr. 11: 2006020 - Herjólfsstígur 1; Breyting á skilmálum; Mænishæð; Fyrirspurn.
Lögð er fram fyrirspurn frá Þorsteini H Kristvinssyni og Sóleyju Stefánsdóttir vegna breytinga á skilmálum deiliskipulags sem tekur til lóðar Herjólfsstígar 1. Óskað er eftir breytingu á skilmálum deiliskipulags með þeim hætti að heimiluð hámarks mænishæð verði aukin úr 5 metrum í 5,9 metra. Vakin er athygli á því að fleiri byggingar á svæðinu hafa einnig farið upp fyrir skilmálahæð 5,0 m.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða breytingu á skilmálum deiliskipulags frístundabyggðar í landi Ásgarðs er varðar aukna mænishæð, að undangenginni málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. laga nr.123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að málið verði sérstaklega kynnt sumarhúsafélagi svæðisins sé það til staðar.
Mál nr. 12: 1911050 - Sólheimar L168279; Byggingarreitur fyrir þjónustuhús og baðhús; Deiliskipulagsbreyting.
Fyrir liggur umsókn frá Sólheimum SES vegna breytinga á deiliskipulagi svæðisins. Í breytingunni felst skilgreining á byggingarreit fyrir baðhús.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að hún málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Breytingin er samþykkt með fyrirvara um uppfærslu á gögnum. Sveitarstjórn telur að breytingin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda og er því ekki talin ástæða til grenndarkynningar.
Mál nr. 15: 2006002F – Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 20 – 123.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 16. júní 2020.
b) Fundargerð 42. fundar Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings, 10. júní 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
c) Fundargerð 294. fundar Sorpstöðvar Suðurlands, 23. júní 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
2. Frístund Kerhólsskóli.
Fyrir liggur niðurstaða úr könnun meðal foreldra barna í 1. – 4. bekk Kerhólsskóla skólaárið 2020-2021 um aukna opnun frístundar. Niðurstaða könnunarinnar er að þörf sé fyrir aukna opnun. Sveitarstjórn felur oddvita að vinna málið áfram með skólastjórnendum.
3. Fulltrúi í veitunefnd.
Fyrir liggur að aðalmaður veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, Ingibjörg Harðardóttur hefur beðist lausnar sem aðalmaður í veitunefnd sveitarfélagsins. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Björn Kristinn Pálmarsson verði aðalmaður í veitunefnd út kjörtímabilið 2018-2022 og Ingibjörg Harðardóttir verði til vara.
4. Erindisbréf veitunefndar.
Fyrir liggja drög að erindisbréfi fyrir veitunefnd. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum.
5. Samstarfssamningur við Skógræktarfélag Grímsneshrepps.
Fyrir liggja drög að samstarfssamning við Skógræktarfélag Grímsneshrepps. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög og felur oddvita / sveitarstjóra að skrifa undir samninginn.
6. Ársskýrsla og ársreikningur Hvatar 2019.
Fyrir liggur árskýrsla og ársreikningur Hvatar 2019. Lagt fram til kynningar.
7. Skráning lögheimilis einstaklinga í sveitarfélaginu án tilgreinds heimilisfangs.
Sveitarstjórn lýsir yfir áhyggjum sínum vegna mikillar fjölgunar á skráningu lögheimilis einstaklinga í sveitarfélaginu án tilgreinds heimilisfangs. Áhyggjur sveitarstjórnar snúa að skyldum sveitarfélagsins meðal annars um það hvort og hvert beri að veita þjónustu til einstaklinga ótilgreinda í hús. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela lögmanni sveitarfélagsins, Óskari Sigurðssyni hrl. að vinna málið áfram með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi.
8. Tilboð í stígagerð á Borg 2020.
Fyrir liggja tilboð í lagningu göngustíga á Borg. Þrjú tilboð bárust, frá Smávélum ehf. kr. 38.631.700, Suðurtak ehf. kr. 38.628.100 og frá Jóni Ingileifssyni ehf. kr. 37.955.300. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka lægsta tilboði, frá Jóni Ingileifssyni ehf. Sveitarstjóra / oddvita falið að skrifa undir samninginn.
9. Erindi til stjórnar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs.
Um nokkurt skeið hafa húsnæðismál Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. verið til umræðu, meðal annars vegna þess að húsakostur í dag sé ófullnægjandi.
Grímsnes- og Grafningshreppur áformar að kanna möguleikann á að byggja tveggja hæða viðbyggingu við núverandi íþróttahús á Borg. Grunnflötur hvors rýmis yrði um 220 m2. Á neðri hæð viðbyggingar verður íþróttaaðstaða með tengingu við sundlaug og íþróttasal ásamt aðstöðu fyrir heilsutengda þjónustu og mögulega fyrir íþróttakennara. Húsnæðið getur verið tilbúið í nóvember 2021.
Á efri hæð hússins er fyrirhugað að komi skrifstofuhúsnæði. Þetta húsnæði getur rúmað 10-15 starfsmenn ásamt fundaraðstöðu eftir skipulagi. Húsið yrði tengt við núverandi stjórnsýsluhús með tengibyggingu svipaðri þeirri sem nú er á milli stjórnsýsluhúss og Kerhólsskóla. Núverandi fundaraðstaða í stjórnsýsluhúsi yrði breytt í skrifstofur og núverandi skrifstofu sveitarstjóra breytt í fjölnotarými fyrir minni fundi eða verkefnavinnu. Hægt er að stækka núverandi kaffistofu sveitarfélagsins til að koma fyrir nýjum starfsmönnum. Móttaka fyrir viðbyggingu væri sameiginleg móttöku sveitarfélagsins og gengið yrði inn um núverandi inngang. Meðfylgjandi er uppkast af skipulagi viðbyggingar til hliðsjónar.
Hugmynd sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps er að Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita bs. gæti leigt skrifstofurýmið sem fyrirhugað er að byggja en hægt er að skipuleggja þessa 220 m2 eftir þörfum þess aðila sem nýtir rýmið. Með því telur sveitarstjórn að hægt væri að leysa úr húsnæðisþörf embættisins til framtíðar.
Sveitarstjórn óskar eftir afstöðu stjórnar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. og aðildarsveitarfélaganna um það hvort embættið vilji nýta sér þessa aðstöðu.
10. Bréf frá Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita með ósk um umsögn um aðalskipulagsbreytingar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir vindorkugarð í Skáldabúðum.
Fyrir liggur bréf frá Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita þar sem kynnt er skipulags- og matslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við lýsinguna.
11. Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna leyfis til sölu gistingar í flokki II í Brúarholt 1, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 22. júní 2020 um umsögn vegna leyfis til gistingar í flokki II í Brúarholti 1, Grímsnes- og Grafningshreppi. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að leyfið verði veitt með fyrirvara um jákvæða umsögn byggingarfulltrúa og Brunavarna Árnessýslu.
12. Beiðni sveitarstjórnarráðherra vegna fasteignaskattsálagningar vegna 2021.
Fyrir liggur bréf frá Karli Björnssyni framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 16. júní 2020 þar sem kynnt er bókun stjórnar sambandsins og tillaga ráðherra vegna fasteignaskattsálagningar ársins 2021. Bréfið lagt fram til kynningar.
13. Skýrsla um náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum á Íslandi.
Fyrir liggur skýrsla Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum á Íslandi. Skýrslan lögð fram til kynningar.
14. Fréttabréf Vináttu.
Lagt fram til kynningar fréttabréf Vináttu.
15. Birt til umsagnar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu drög að reglugerð um skráningu einstaklinga.
Fyrir liggur að birt er til umsagnar frá Samgöngu- og sveitarauðlindaráðuneytinu drög að reglugerð um skráningu einstaklinga. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að því að haldin sé áreiðanleg skrá yfir einstaklinga og að skráningin sé rétt svo að hún skapi grundvöll fyrir tiltekin réttindi og tilteknar skyldur einstaklinga. Enn fremur er það markmið að skráning upplýsinga í þjóðskrá og tengdar skrár byggist á bestu fáanlegu gögnum á hverjum tíma.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun:
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps fagnar því að stuðla eigi að því að haldin sé áreiðanleg skrá yfir einstaklinga og að stuðlað sé að því að sú skráning skapi tiltekin réttindi og tilteknar skyldur einstaklinga.
Svo skráning lögheimilis einstaklinga geti verið áreiðanleg og skapað einstaklingum réttindi og skyldur telur sveitarstjórnin að það sé grundvallarforsenda að sú skráning sé í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og lög um skráningu einstaklinga 140/2019. Ef ekki verður betur girt fyrir ólögmætar skráningar lögheimilis einstaklinga en nú er gert þá er einsýnt að markmiðum reglugerðarinnar verður ekki náð. Nánar tiltekið verður skráin sjálf hvorki nægjanlega áreiðanleg, né munu einstaklingar geta notið réttinda eða borið skyldur sem lögmæt skráning lögheimilis hefði fært þeim.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela lögmanni sveitarfélagsins Óskari Sigurðssyni hrl. að útbúa umsögn um drögin að reglugerðinni um skráningu einstaklinga þar sem sjónarmiðum sveitarfélagsins til þessa verður komið á framfæri.