Sveitarstjórn
1. Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. maí 2011 lá frammi á fundinum.
2. Fundargerð 137. fundar félagsmálanefndar Uppsveita Árnessýslu og Flóa, 03.05 2011.
Fundargerðin lögð fram og hún staðfest.
3. Breytingar á samþykktum um stjórn og fundarsköp Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggur að breyta þurfi samþykktum um stjórn og fundarsköp Grímsnes- og Grafningshrepps í samræmi við nýja sameiginlega félagsþjónustu Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, Ölfuss og Hveragerðis. Breytingarnar eru þær að 2. tl. 1. mgr. 49. gr. samþykkta Grímsnes- og Grafningshrepps um félagsmálanefnd Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps verður eftirfarandi:
Sameiginleg félagsþjónusta sjö sveitarfélaga í Árnessýslu. Sveitarstjórn kýs einn fulltrúa til setu í yfirstjórn sameiginlegrar félagsþjónustu sjö sveitarfélaga í Árnessýslu samkvæmt samningi þar að lútandi. Sá sem kjörinn er í yfirstjórn hefur umboð til þess að skipa fulltrúa í eina sameiginlega velferðarnefnd á starfssvæði félagsþjónustu sveitarfélaganna í samræmi við ákvæði samstarfssamnings og á grundvelli 2. mgr. 7. gr laga nr. 48/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fulltrúar í sameiginlegri velferðarnefnd eru fimm auk jafnmargra varamanna og koma þrír af starfssvæði Sveitarfélagsins Ölfuss og Hveragerðisbæjar og tveir af starfssvæði sveitarfélaga í Uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi. Fulltrúi sveitarstjórnar í sjö manna yfirstjórn hefur einnig umboð til þess að taka þátt í skipan formanns og varaformanns sameiginlegrar velferðarnefndar. Yfirstjórn útbýr einnig erindisbréf sameiginlegrar fimm manna velferðarnefndar og leggur það fyrir sveitarstjórn til staðfestingar af hennar hálfu.
Þá breytist einnig 3. tl. 1. mgr. 49. gr. samþykkta Grímsnes- og Grafningshrepps um jafnréttisnefnd og verður eftirfarandi:
Jafnréttisnefnd. Sameiginleg velferðarnefnd skv. 2. tl. 1. mgr. 49. gr. fer með verkefni jafnréttisnefndar skv. 10. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Vísað til annarrar umræðu.
4. Samstarfssamningur um sameiginlegt starfssvæði félagsþjónustu Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps.
Fyrir liggja drög að samstarfssamningi um sameiginlegt starfssvæði félagsþjónustu Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps. Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur oddvita, Gunnari Þorgeirssyni að undirrita samninginn.
5. Beiðni um styrk frá Kjartani Gunnari Jónssyni vegna keppnisgjalds fyrir fótboltalið í sunnlenskudeildina.
Fyrir liggur beiðni um styrk frá Kjartani Gunnari Jónssyni að fjárhæð 10.000 vegna keppnisgjalds fyrir fótboltalið í sunnlenskudeildina í sumar. Fyrirhugað er að hópur drengja úr sveitarfélaginu muni spila í sunnlenskudeildinni í sumar. Sveitarstjórn hafnar erindinu og bendir umsækjanda á U.m.f. Hvöt.
6. Hesthús og pallur við gangnamannakofann í Kringlumýri.
Fyrir liggur erindi frá Kerhestum ehf. um hvort sveitarfélagið vilji leggja fjármuni í að stækka pallinn í kringum gangnamannakofann og laga hesthúsið í Kringlumýri. Búið er að fá verðtilboð í efnið að fjárhæð kr. 600.000. Sveitarstjórn samþykkir að fresta erindinu þar til tillaga að heildaruppbyggingu á svæðinu liggur fyrir.
7. Bréf frá Guðrúnu Pétursdóttur vegna frostskemmda í sumarhúsi.
Fyrir liggur bréf frá Guðrúnu Pétursdóttur, eiganda sumarhúss í Hraunborgum, um tjón á bústaðnum vegna frostskemmda sem urðu þegar varð bilun í spenni í mars. Kostnaður vegna frostskemmdanna var um kr 150.000 og er farið fram á niðurfellingu á greiðslu fyrir heitt vatn í að minnsta kosti 12 mánuði.
Í 23. grein reglugerðar um Hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps stendur eftirfarandi: Hitaveitan ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni sem leiða kann af rekstrartruflunum er verða á veitunni vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir ef rennsli í vatnsæð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerða eða annarra nauðsynlegra framkvæmda veitunnar. Þurfi að takmarka notkun um lengri eða skemmri tíma ákveður hitaveitan hvernig hún skuli takmörkuð. Takmörkunin hefur ekki áhrif á greiðslu fastagjalds (fasts aflgjalds eða mælagjalds). Hitaveitunni er ekki skylt að greiða bætur eða veita afslátt vegna takmörkunar á afhendingu heita vatnsins, en notandi getur sótt um afslátt vegna lækkunar á hitastigi. Nánari reglur þar um skulu settar í gjaldskrá veitunnar.
Sveitarstjórn hafnar niðurfellingu á greiðslu.
8. Bréf frá Skipulagsstofnun vegna efnistöku í Seyðishólum.
Fyrir liggur bréf frá Skipulagsstofnun þar sem óskað er eftir upplýsingum frá sveitarfélaginu varðandi efnistöku í Seyðishólum. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og skipulagsfulltrúa að afla gagna vegna málsins.
9. Breytingartillaga að aðalskiplagi Grímsnes- og Grafningshrepps.
Í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er lögð fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Um er að ræða breyting á um 28 ha svæði í landi Ásgarðs sem samkvæmt gildandi aðalskipulagi er skilgreint sem íbúðarsvæðið Ásborgir. Í breytingunni felst að svæðið breytist úr íbúðarsvæði í blandaða landnotkun íbúðarsvæðis og verslunar- og þjónustusvæði til að heimilt verði að nýta hús innan svæðisins sem veitinga- og/eða gistihús. Aðalskipulagsbreytingin hefur þegar verið kynnt lóðarhöfum innan Ásborgarsvæðisins auk þess sem hún var kynnt skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga með auglýsingu í Dagskránni dags. 28. apríl 2011. Fyrir liggja umsagnari Umhverfisstofnunar dags. 10. maí, Skipulagsstofnunar dags. 27. apríl auk athugasemdar frá lóðarhafa tveggja lóða innan Ásborga dags. 2. maí. Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa fyrirliggjandi skipulagsbreytingu.
10. Endurskoðun aðalskipulags Ölfuss 2010-2022.
Fyrir liggur erindi frá Skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss um endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins, lýsing á skipulagsverkefni og matslýsing. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gerir ekki athugasemdir við endurskoðun aðalskipulags Ölfuss 2010-2022 enda afstaða ekki tekin til landamerkja sveitarfélaganna.
11. Beiðni frá Sýslumanninum á Selfossi um umsögn vegna leyfis til reksturs veitingastaðar í flokki II í Golfskálanum að Kiðjabergi.
Fyrir liggur beiðni frá Sýslumanninum á Selfossi um umsögn vegna leyfis til reksturs veitingastaðar í flokki II í Golfskálanum að Kiðjabergi. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að leyfið verði veitt.
12. Beiðni um framlag til SÁÁ í tengslum við Álfasölu SÁÁ.
Fyrir liggur beiðni frá SÁÁ um að sveitarfélagið kaupi 100 stk af Álfinum að fjárhæð kr. 150.000 vegna Álfasölu SÁÁ 19. - 22. maí n.k. Sveitarstjórn hafnar erindinu.
13. Beiðni um styrk vegna reksturs Aflsins 2011, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi.
Fyrir liggur beiðni um styrk frá Afli, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi vegna rekstur Aflsins 2011. Sveitarstjórn hafnar erindinu.
14. Kennslukvóti skólaársins 2011/2012.
Fyrir liggur tillaga skólastjóra Kerhólsskóla, Hilmars Björgvinssonar, um að kennslustundakvóti skólaársins 2011/2012 verði 159,3 kennslustundir á viku og að auki 5 kennslustundir til viðbótar vegna verkefnisstjóra við þróunarverkefna skólans. Kennslustundakvóti skólaársins 2011/2012 yrði því samtals 164,3 kennslustundir. Sveitarstjórn hafnar viðbótar kennslukvóta og samþykkir að kennslustundakvóti skólaársins 2011/2012 verði 159,3 kennslustundir.
15. Viðauki við ráðningarsamning skólastjóra Kerhólsskóla.
Fyrir liggur viðauki viðráðningarsaming skólastjóra Kerhólsskóla. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að ræða við skólastjóra á grundvelli umræðna á fundinum.
16. Beiðni Samgöngunefndar Alþingis um umsögn frumvarps til sveitarstjórnarlaga.
Fyrir liggur beiðni Samgöngunefndar Alþingis um umsögn frumvarps til sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra og oddvita að setja saman greinargerð með athugasemdum sveitarstjórnar í samræmi við umræður á fundinum.
17. Útboð á seyrulosun.
Fyrir liggur niðurstaða sameiginlegs tilboðs í seyrulosun í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi til næstu þriggja ára sem opnuð voru 11. maí s.l. Eftirfarandi tilboð bárust: Hreinsitækni ehf. kr 68.082.000, Bólholt ehf. kr. 136.891.002, Holræsa- og stífluþjónusta Suðurlands ehf. kr. 76.252.200, Gámaþjónustan hf. kr. 94.494.280 og Hreinsibílar ehf. kr. 104.422.004. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 73.377.409. Jafnframt er lagt fram minnisblað frá Berki Brynjarssyni dags. 18.05 2011. Sveitarstjórn samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.
18. Samningur um refa- og minkaveiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggja drög að samningi um refa- og minkaveiðar við Viðar Braga Þórðarson og Jón Matthías Sigurðsson til eins árs. Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur sveitarsjóra að undirrita samninginn.
19. Málefni golfvallarins á Minni-Borg.
Málefni golfvallarins á Minni-Borg rædd og málinu frestað til næsta fundar.
20. Eignarhaldsfélagið Fasteign hf.
Samkvæmt samningi dags. 27. júlí 2005 fylgiskjal B liður 1.02 er tekið fram að endurskoða megi leiguverð á 5 ára fresti þ.e. fyrsta sinn fyrir lok maí 2011. Í ljósi aðstæðna og endurskoðunar á rekstri Eignarhaldsfélagsins fasteignar er samþykkt að óska eftir að frestur vegna endurskoðunar leiguverðs verði framlengdur um þrjá mánuði eða til loka ágúst 2011. En verði ekki af breyttu rekstrarformi Fasteignar hf. innan þessa tímamarka er samþykkt að farið verði fram á að leiguverð verði endurskoðað.
Til kynningar
Bréf frá Sveitarfélaginu Árborg um áframhaldandi aðild að Skólaskrifstofu Suðurlands.
Samband íslenskra sveitarfélaga. Fundargerð 786. stjórnarfundar, 29.04 2011.
Bréf frá Hótel Örk um fyrirkomulag sparidaga eldri borgara vorið 2012.
Sorpstöð Suðurlands. Fundargerð 202. stjórnarfundar 02.05 2011.
Sorpstöð Suðurlands. Fjárhagsáætlun 2011.
Bréf frá Innanríkisráðuneyti um samgönguþing sem haldið verður fimmtudaginn 19. maí n.k.
Aðalfundarboð Klausturhóls, félag sumarhúsaeigenda í Rimahverfi í landi Klauturhóla.
Héraðsskjalasafn Árnesinga, ársskýrsla 2010.
Þroskaþjálfinn, fagblað Þroskaþjálfafélags Íslands 1. tbl 12. árg 2011.
-liggur frammi á fundinum-.
Bautasteinn, Kirkjugarðasamband Íslands 1. tbl 16. árg 2011.
-liggur frammi á fundinum-.
Ekki fleira tekið fyrir og fundið slitið kl. 11:50