Sveitarstjórn
1. Kynning frá Markaðsstofu Suðurlands.
Sveitarstjórn fékk kynningu frá Dagnýju Huldu Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands á starfsemi stofunnar, ásamt því að rætt var um fyrirhugaða breytingu Markaðsstofunnar í Áfangastofu.
2. Fundargerðir
a) Fundargerð 24. fundar fjallskilanefndar, 19. ágúst 2020.
Oddvita og sveitarstjóra falið að ræða við formann fjallskilanefndar í samræmi við umræður á fundinum.
b) Fundargerð 16. fundar húsnefndar Félagsheimilisins Borgar, 2. nóvember 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
c) Fundargerð 205. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 11. nóvember 2020.
Mál nr. 14, 15, 16, 17 og 21 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 205. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 11. nóvember 2020. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 14: 2010089 - Nesjar (L170905); umsókn um byggingarleyfi; gestahús.
Fyrir liggur umsókn Ólafs Ó. Axelssonar fyrir hönd Ragnheiðar Haraldsdóttur og Hallgríms Guðjónssonar, móttekin 27.10.2020 um byggingarleyfi til að byggja gestahús 40 m2 á sumarbústaðalandinu Nesjar (L170905) í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Mál nr. 15: 2010091 - Neðan-Sogsvegar 61 L169338; Norðurkot; Skipting lóðar; Deiliskipulagsbreyting.
Lögð er fram umsókn frá Þrúði Karlsdóttur er varðar uppskiptingu lóðar Neðan-Sogsvegar 61. Í skiptingunni felst skilgreining núverandi svæðis sem lóðin tekur til og tillaga að skiptingu hennar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu málsins.
Mál nr. 16: 2011007 - Kerhraun C 103,104 L173012; Úr frístundasvæði í landbúnaðarsvæði; Aðalskipulagsbreyting.
Lögð er fram umsókn frá Bergi Haukssyni lögmanni fyrir hönd Guðfinns Traustasonar, dagsett 28. október 2020, þar sem óskað eftir að aðalskipulagi fyrir lóðina Kerhraun C 103/104 verði breytt úr skipulagðri frístundalóð í landbúnaðarsvæði, þannig að hægt sé að breyta sumarhúsalóð í íbúðarhúsalóð. Umsækjandi vísar um frekari rök til lóða 99 og 100 að Snæfoksstöðum og Miðengi 17 og 17a.
Umrædd beiðni felur í sér ósk um breytingu á aðalskipulagi, þar sem lóð umsækjanda er í skipulagðri frístundabyggð. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hefur sveitastjórn víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags. Í 1. mgr. 29. og 38. gr. laganna er kveðið á um að sveitastjórn beri ábyrgð á og annast gerð aðal- og deiliskipulags. Samkvæmt því heyrir það undir hana að samþykkja aðalskipulag sem og deiliskipulag, sbr. 20. og 40. til 42. gr. laganna, og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 36. og 43. þeirra. Samkvæmt framangreindum ákvæðum á sá sem óskar eftir slíkri breytingu ekki heimtingu á þeim, heldur er sveitarfélögum falið það vald, allt eftir skipulagi sveitarfélagsins hverju sinni. Lóðarhafar eiga þannig ekki einhliða rétt á skipulagsbreytingu óháð afstöðu þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Endanleg ákvörðun um aðal- og deiliskipulagsbreytingu er ávallt í höndum sveitastjórnar sem tekur endanlega skipulagsákvörðun. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að beiðninni verði hafnað. Lóð umsækjanda er staðsett í mjög stóru hverfi fyrir skipulagða frístundabyggð. Skipulagssvæðið er í heild um 107 hektarar og telur 130 frístundalóðir á svæðum A, B og C. Sveitarstjórn telur engar forsendur fyrir því að stök lóð innan frístundasvæðis F24a verði skilgreind sem landbúnaðarland. Að mati sveitarstjórnar eru helstu forsendur þess að slíkt sé heimilað að aðkoma verði ekki í gegnum frístundabyggð frá stofn- eða tengivegi m.t.t. þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið skal veita íbúum með lögheimili innan sveitarfélagsins. Sveitarstjórn telur jafnframt að sveitarfélagið skuli eftir fremsta megni leitast við að halda samfellu í landnotkun innan aðalskipulags sveitarfélagsins. Í umsókninni er vísað til skipulagsbreytinga sem umsækjandi telur sambærilegar við framlagða umsókn. Sveitarstjórn tekur ekki undir þau sjónarmið umsækjanda og vísar til ofangreindra forsenda.
Jafnframt bendir sveitarstjórn á að skráning byggingarstigs sumarhúss á eigninni hjá Þjóðskrá Íslands er ekki það sama og minnst er á í þessu erindi.
Samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá er byggingarstig sumarhússins stig 4 – fokhelt en í erindinu segir að fullbyggt íbúðarhús sé á eigninni.
Mál nr. 17: 2009015 - Öndverðarnes 1 L168299; Frístundasvæðið Kambshverfi; Hlíðarhólsbraut 20; Deiliskipulagsbreyting.
Lögð er fram umsókn frá Öndverðarnes ehf. vegna breytinga á deiliskipulagi Öndverðarnesi 1. Í breytingunni felst að lega lóðar 20 breytist. Málinu var frestað á 203. fundi nefndarinnar en er nú tekið fyrir að nýju eftir að uppfærð gögn bárust.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Málið verði grenndarkynnt lóðarhöfum innan skipulagssvæðisins.
Mál nr. 21: 2010005F - Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 20-130.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 4. nóvember 2020.
d) Fundargerð aðalfundar nefndar oddvita/sveitarstjóra í yfirstjórn velferðarmála í Árnesþingi (NOS), 22. október 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
e) Fundargerð aðalfundar Rangárbakka, þjóðaleikvangs íslenska hestsins ehf, 3. nóvember 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
f) Fundargerð 6. fundar Almannavarnarnefndar Árnessýslu, 6. nóvember 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
g) Fundargerð 563. fundar stjórnar SASS, 28. október 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
h) Fundargerð 890. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 2. nóvember 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
3. Staða fjárhagsáætlunar.
Farið var yfir stöðu bókhalds og borið saman við fjárhagsáætlun ársins 2020 eftir fyrstu 10 mánuði ársins.
4. Innri persónuverndarstefna Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggja drög að innri persónuverndarstefnu Grímsnes- og Grafningshrepps.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög.
5. Aðalfundur Bergrisans bs.
Fyrir liggur að aðalfundur Bergrisans bs. verður haldinn miðvikudaginn 25. nóvember n.k. í fjarfundarbúnaði. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Ása Valdís Árnadóttir og Ingibjörg Harðardóttir verði fulltrúar sveitarfélagsins á aðalfundinum og Smári Bergmann Kolbeinsson og Björn Kristinn Pálmarsson til vara.
6. Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Fyrir liggur að tilnefna þurfi fulltrúa sveitarfélagsins á ársfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn verður í dag, 18. nóvember. Samþykkt er að Smári Bergmann Kolbeinsson verði fulltrúi sveitarfélagsins.
7. Bréf frá Hannesi Lárussyni f.h. Íslenska bæjarins ehf. þar sem óskað er eftir niðurfellingu fasteignagjalda.
Lagt fram að nýju erindi frá Hannesi Lárussyni f.h. Íslenska bæjarins ehf. dags. 26. október 2020 þar sem óskað er eftir niðurfellingu fasteignagjalda af fasteigninni F220-8648. Fasteignin var friðlýst af menntamálaráðherra þann 5. maí 2020 og er óskað eftir niðurfellingu fasteignagjalda ásamt endurgreiðslu þeirra fasteignagjalda sem greidd hafa verið síðan friðlýsing var undirrituð.
Sveitarstjórn hafnar samhljóða að fella niður fasteignagjöld af fasteigninni F220-8648 og bendir eigendum á að hægt er að leita eftir endurmati á fasteignamati eignarinnar hjá Þjóðskrá Íslands sem og skráningu á byggingarstigi hjá byggingarfulltrúa.
8. Erindi frá Markaðsstofu Suðurlands er varðar ósk um endurnýjun samstarfssamnings.
Fyrir liggur bréf frá Markaðsstofu Suðurlands dags. 5. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir því að samstarfssamningur milli Markaðsstofunnar og sveitarfélagsins verði endunýjaður óbreyttur til þriggja ára.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að endurnýja samninginn. Sveitarstjóra / oddvita falið að annast undirritun samningsins.
9. Beiðni um styrk frá Sjóðnum góða.
Fyrir liggur bréf frá starfshópi Sjóðsins góða dags. 6. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir fjárframlagi frá sveitarfélaginu í sjóðinn. Tilgangur Sjóðsins góða er að veita þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum aðstoð fyrir jólahátíðina.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að styrkja Sjóðinn góða um 500 kr. á hvern íbúa og eru íbúar sveitarfélagsins 498 talsins, samtals 249.000 kr.
10. Beiðni um framlag til starfsemi Stígamóta.
Fyrir liggur bréf frá Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur talskonu Stígamóta, dags. 9. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir fjárstyrk til reksturs samtakanna á árinu 2021.
Sveitarstjórn hafnar erindinu samhljóða.
11. Beiðni um styrk frá Sólmundi Magnúsi Sigurðarsyni, f.h. knattspyrnudeildar Íþróttafélags Uppsveita.
Fyrir liggur bréf Sólmundi Magnúsi Sigurðarsyni f.h. knattspyrnudeildar Íþróttafélags Uppsveita, dags. 10. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir styrk að upphæð 200.000 kr. til að halda úti liðum í íslandsmótinu í knattspyrnu í meistaraflokki karla og 5. flokki karla næsta sumar, ásamt því að fara á önnur knattspyrnumót með yngri iðkendur.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að veita umbeðinn styrk.
12. Bréf frá baráttuhópi smærri fyrirtækja, einyrkja og sjálfstætt starfandi aðila í ferðaþjónustu.
Fyrir liggur bréf frá baráttuhópi smærri fyrirtækja, einyrkja og sjálfstætt starfandi aðila í ferðaþjónustu, dags. 3. nóvember 2020, þar sem lögð er fram tilkynning, kröfur og tillögur að aðgerðum af hálfu stjórnvalda til að bregðast við rekstrarvanda fyrrnefndra aðila í kjölfar Covid-19. Lagt fram til kynningar.
13. Bréf frá AOPA á Íslandi - Félagi flugmanna og flugvélaeigenda, vegna fyrirhugaðs vindorkugarðs á Mosfellsheiði.
Fyrir liggur bréf frá AOPA á Íslandi, Félagi flugmanna og flugvélaeigenda, dags. 30. október 2020 þar sem lýst er yfir áhyggjum flugmanna gagnvart fyrirhuguðum vindorkugarði á Mosfellsheiði.
Lagt fram til kynningar.
14. Bréf frá Hildi Jónsdóttur, f.h. Soroptimistaklúbbs Suðurlands, varðandi verkefnið Sigurhæðir.
Lagt fram að nýju bréf frá Hildi Jónsdóttur f.h. Soroptimistaklúbbs Suðurlands varðandi verkefnið Sigurhæðir, dags. 14. október 2020, þar sem óskað er eftir undirbúningsstyrk vegna verkefnisins, sem og að verkefninu verði veitt fast fjárframlag á komandi fjárhagsáætlunum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða stofnstyrk til verkefnisins að fjárhæð kr. 50.000.
15. Bréf frá Bandalagi háskólamanna (BHM) um styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki.
Fyrir liggur bréf frá Bandalagi háskólamanna (BHM) dags. 2. nóvember 2020, þar sem minnt er á markmið styttingar vinnuvikunnar og ávinninginn sem hún mun hafa í för með sér fyrir sveitarfélögin og starfsfólk þeirra.
Lagt fram til kynningar.
16. Bréf frá aðstandendum verkefnisins Jafnrétti fyrir alla og Menntavísindasviði Háskóla Íslands um virkt samráð.
Fyrir liggur bréf og handbók frá aðstandendum verkefnisins Jafnrétti fyrir alla og Menntavísindasviði Háskóla Íslands, dags. 22. október 2020, þar sem vakin er athygli á skuldbindingum sveitarfélaga um samráð við fatlað fólk varðandi lagasetningu, stefnumótun og skipulag þjónustu. Einnig eru kynntar vinnusmiðjur sem boðið verður upp á fyrir sveitarfélög.
Lagt fram til kynningar.
17. Bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vegna minningardags um fórnarlömb umferðarslysa 2020.
Fyrir liggur bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu dags. 26. október 2020, þar sem upplýst er um minningardag um fórnarlömd umferðarslysa þann 15. nóvember.
Lagt fram til kynningar.
18. Stöðuskýrsla uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála vegna Covid-19.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Maríu Ingibjörgu Kristjánsdóttur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 6. nóvember 2020, þar sem kynnt er 7. stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19.
Lagt fram til kynningar.
19. Ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga.
Fyrir liggur auglýsing um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga. Þar kemur fram að ráðherra hafi tekið ákvörðun um að framlengja heimild allra sveitarstjórna, sem veitt var með auglýsingu í Stjórnartíðindum nr. 230/2020, til að víkja tímabundið frá eftirfarandi skilyrðum sveitarstjórnarlaga til að tryggja starfhæfi sitt og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélags, með vísan til VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Heimildin gildir til 10. mars 2021.
Lagt fram til kynningar.
20. Birt til umsagnar frá Þjóðskjalasafni Íslands drög að reglum um eyðingu námsmatsgagna afhendingarskyldra aðila.
Drögin lögð fram til kynningar.
21. Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 39. mál.
Þingsályktunartillagan lögð fram til kynningar.
22. Beiðni Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, 43. mál.
Þingsályktunartillagan lögð fram til kynningar.