Fara í efni

Sveitarstjórn

191. fundur 07. desember 2006 kl. 09:00 - 11:00 Stjórnsýsluhúsið Borg
Sveitarstjórn
  • Ingvar G. Ingvarsson oddviti
  • Sigurður K. Jónsson
  • Ólafur Ingi Kjartansson
  • Gunnar Þorgeirsson
  • Hildur Magnúsdóttir
  • Sigfríður Þorsteinsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð var færð í tölvu og hana ritaði Sigfríður Þorsteinsdóttir

Í upphafi fundar leitaði oddviti afbrigða:
a) Erindi vegna styrks til náms á framhaldsskólastigi.
b) Sjálfvirkur útreikningur afsláttar af fasteignasköttum vegna elli- og örorkulífeyris-þega.
c) Áskorun til Vegagerðarinnar.
d) Seyðishólanáman.
e) Framkvæmdir á Borgarsvæðinu.
Hreppsnefnd samþykkir að taka erindin á dagskrá undir liðnum „Önnur mál.“

1. Fundargerð hreppsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps.
Frá 23. nóvember 2006. Liggur frammi á fundinum.

2. Fundargerð.
061201/09501.
Lögð var fram fundargerð 14. fundar byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 28. nóvember 2006.
Hreppsnefnd Grímsnes- og Grafningshrepps staðfestir fundargerðina.

3. Álagning gjalda fyrir árið 2007.
a) Álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt 12,74%.

b) Fasteignaskattur „a“ verði óbreyttur 0,475 %
     Fasteignaskattur „c“ verði óbreyttur 1,45 %

c) Seyrulosunargjald vegna kostnaðar við seyrulosun/fráveitukerfi verði kr. 4.500 á hvert íbúðarhús, sumarhús og fyrirtæki sem ber samkvæmt byggingarskilmálum að hafa rotþró eða vera tengt viðurkenndu fráveitukerfi.

d) Álagning vegna sorphirðu og sorpeyðingar eru:
a) Íbúðarhús                          kr. 6.979
b) Sumarhús                          kr. 4.285
c) Fyrirtæki/smárekstur       kr. 8.257
d) Lögbýli                               kr. 8.257
e) Losun úr gámum              kr. 393 pr/kg.
Gjöldin taki breytingum 1. janúar 2007 samkvæmt byggingavísitölu með grunn í janúar 2006.
Vatnsskattur verði 0,2% af fasteignamati eigna sem tengst geta vatnsveitum sveitarfélagsins.
Hámarksálagning verði kr. 20.000 á sumarhús og kr. 20.000 á íbúðarhús.
Fyrirtæki sem safna vatni í eigin miðlun fá 30% afslátt af vatnsskatti.

e) Tengigjöld vatns- og hitaveitu.
Tengigjöld vatnsveitu (stofngjöld) fyrir frístundahús og íbúðarhús verða kr. 180.000.
Tengigjöld fyrir íbúðarhús í þéttbýlinu Borg eru kr. 150.000.
Tengigjöld fyrir lögbýli að meðtöldu einu íbúðarhúsi eru kr. 294.843.
Stofngjald Hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps er kr. 269.527 án vsk.
Á þeim lóðum sem ekki hefur verið byggt á en hafa tengst vatni er innheimt fast árgjald kr. 3.000.
Gjöldin taki breytingum 1. janúar 2007 samkvæmt byggingavísitölu með grunn í janúar 2006.

f) Nýtt gjald holræsagjald verði tekið upp í þéttbýlinu á Borg og Ásborgum:
Hreppsnefnd samþykkir að taka upp holræsagjald í samræmi við lög þar um.
Hreppsnefnd samþykkir tillögu um álagningu gjalda að öðru leyti.

4. Fjárhagsáætlun Grímsnes- og Grafningshrepps 2007 – Fyrri umræða.
Áætlun um rekstur Grímsnes- og Grafningshrepps fjárhagsárið 2007.
C-listi óskar bókað að hann telji útsend gögn ekki gefa tilefni til fyrri umræðu.
Hreppsnefnd frestar umræðunni til aukafundar sem verður fimmtudaginn 14. desember.

5. Önnur mál.
a) Lagt var fram erindi frá Frey Snæbjörnssyni vegna styrks til náms á framhalds-skólastigi.
Hreppsnefnd samþykkir að greiða Frey styrk til 20 ára aldurs, sem er ¼ af styrknum vegna haust annar. Sveitarstjórn áréttar að úthlutunarreglur vegna styrksins eru þær að hann hefur verið greiddur fyrir 8 fyrstu annirnar í framhaldsskóla í beinu framhaldi af grunnskóla.

b) Sjálfvirkur útreikningur afsláttar af fasteignasköttum vegna elli- og örorku-lífeyrisþega.
Hreppsnefnd Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkir að við útreikning afsláttar af fasteignagjöldum til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega verði miðað við heildartekjur viðkomandi einstaklinga, þ.e. launatekjur að viðbættum fjármagnstekjum.

c) Áskorun til Vegagerðarinnar.
Hreppsnefnd Grímsnes- og Grafningshrepps skorar á Vegagerðina að hreinsa vegaskurði á kaflanum frá Úlfljótsvatni að Nesjavöllum í Grafningi nú þegar. Aðrir vegaskurðir í sveitarfélaginu verði einnig hreinsaðir sem fyrst. Það er ófært að fólk sem rennur út af vegum í vetrarhálku eigi á hættu að drukkna í vatns-fylltum vegaskurðum vegna hirðuleysis Vegagerðarinnar.

d) Seyðishólanáman.
Hreppsnefnd samþykkir að hefja undirbúning að því að endurskipuleggja malar-vinnslu úr Seyðishólum. Sveitarstjóra og oddvita falin framkvæmdin.

e) Framkvæmdir á Borgarsvæðinu.
Sigurður K. Jónsson gerði fyrirspurn til Gunnars Þorgeirssonar fyrri oddvita um það hvort gengið hefði verið frá samkomulagi við landeigendur á svæði Stóru-Borgar um að yfirfall frá hreinsistöð lægi yfir land þeirra. Gunnar taldi svo ekki vera.

Getum við bætt efni síðunnar?