Sveitarstjórn
1. Ársreikningur Grímsnes- og Grafningshrepps.
Ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2020 lagður fram til seinni umræðu. Helstu niðurstöður samantektar A og B hluta eru eftirfarandi:
Rekstrarniðurstaða A hluta kr. (36.574.286)
Rekstrarniðurstaða A og B hluta saman kr. (32.008.231)
Eigið fé kr. 1.325.039.756
Skuldir kr. 973.992.039
Eignir kr. 2.299.031.794
Veltufé frá rekstri kr. 69.055.926
Ársreikningur samþykktur samhljóða og áritaður af sveitarstjórn.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að halda íbúafund um ársreikning sveitarfélagsins í Félagsheimilinu Borg, mánudaginn 14. júní kl. 19:30.
2. Fundargerð 85. fundar stjórnar byggðasamlags UTU, 24. apríl 2021.
Mál nr. 1 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 1: Drög að samþykktum UTU.
Jóhannes fór yfir drög að uppfærðum samþykktum UTU. Nokkrar breytingar eru í drögunum og hefur verið tekið tillit til athugasemda sem gerðar voru af Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Rætt var um þær breytingar sem lagt er upp með og hvað þær fela í sér. Samþykkt að leggja fyrir sveitarstjórnir þau drög sem lágu fyrir til umfjöllunar. Jóhannesi falið að taka saman kynningu á þeim breytingum sem verða á samþykktum sem starfsmenn UTU munu svo kynna á fundum hjá sveitarstjórnum allra sveitarfélaganna.
Á fundinn mættu Davíð Sigurðsson, Vigfús Þór Hróbjartsson og Jóhannes Hr. Símonarson og kynntu drög að uppfærðum samþykktum UTU. Helstu breytingarnar á samþykktunum eru annars vegar ný grein um eignarhluta sveitarfélaganna í byggðasamlaginu, og hins vegar að í ákveðnum og vel skilgreindum tilvikum muni sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaganna framselja vald sitt til fullnaðarákvarðana mála til skipulagsnefndar, skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa í þeim tilgangi að flýta afgreiðslu mála.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins.
3. Ósk um hættumat til Veðurstofu Íslands.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps vinnur að endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins.
Við vinnuna hefur komið í ljós að sveitarstjórn telur þörf á að bæta frekari upplýsingum við núverandi hættumat við ákveðið svæði við Hvítá, þ.e. við Hvítá og upp læki og ár frá Öndverðarnesi að Hestfjalli.
Undanfarin ár hafa orðið ísstífluflóð á svæðinu með tilheyrandi eignatjóni m.a. sökum þess að Hvítá hefur stíflast með þeim afleiðingum að hún hefur rutt sér leið upp eftir Höskuldslæk.
Í umsögn starfsmanna Veðurstofunnar vegna fyrirspurnar varðandi flóð í Hvítá – Nesvegur og Höskuldslækur frá 5. mars 2021 segir: „Ekki er talin þörf á nýju hættumati en mögulega myndi þó gagnast að bæta frekari upplýsingum við núverandi hættumat vegna þessarar tilteknu staðsetningar. Þannig má ætla að hægt sé að nota upplýsingar úr fyrirliggjandi skýrslum og aðeins bæta við hermun á þessum tiltekna stað vegna ísttífluflóða“.
Sveitarstjórn óskar því hér með eftir að Veðurstofa Íslands bæti frekari upplýsingum við núverandi hættumat fyrir svæðið frá Öndverðarnesi og að Hestfjalli með ár og læki út frá Hvítá í huga, sér í lagi Höskuldslæk.
EFLA hefur unnið aðalskipulagsvinnu fyrir sveitarfélagið og meðal annars teiknað upp flóðalínur út frá þeim gögnum sem liggja fyrir um flóðin sem hafa átt sér stað undanfarin ár og stendur Veðurstofu Íslands til boða að nýta þau gögn og vera í sambandi við EFLU.