Fara í efni

Sveitarstjórn

515. fundur 03. nóvember 2021 kl. 09:00 - 11:30 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir í fjarveru Bjarna Þorkelssonar
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir.

1.  Fundargerðir.

 a)      Fundargerð 95. fundar fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 19. október 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 b)     Fundargerð 226. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 27. október 2021.

Mál nr. 13, 14, 15, 16, 17, 18, 19, 20, 21 og 27 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Lögð fram 225. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 13. október 2021. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 13: Minni-Bær land L169227; Fyrirspurn -  (2110032).

Lagt er fram erindi frá Oddi Þorbergi Hermannssyni í þremur liðum í samræmi við meðfylgjandi gögn. Í erindinu felst beiðni um nafnabreytingu, breytingu á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags sem tekur til Minni-Bæjar lands L169227.

Sveitarstjórn vísar aðalskipulagsbreytingunni til endurskoðunar aðalskipulagsins og tekur jákvætt nafnabreytinguna og að unnið verði deiliskipulag fyrir landið.

Mál nr. 14: Kringla II; Árvegur 23-45; Sameining lóða; Deiliskipulagsbreyting -  (2108091).

Lögð er fram beiðni um endurupptöku máls er varðar breytingu á deiliskipulagi Kringlu II vegna Árvegar 23-45. Umsótt breyting á deiliskipulagi svæðisins snýr að sameiningu lóða við Árveg númer 23, 25, 27, 29, 31, 33, 35, 37, 39, 41, 43 og 45 í tvær lóðir sem yrðu númer 23 og 25. Sveitarstjórn synjaði beiðni um breytingunni á fundi sínum þann 15. september 2021. Í beiðni um endurupptöku máls er vísað til þess að fækkun húsa á svæðinu verði til þess að eldhætta og umferð innan svæðisins minnki til framtíðar auk þess sem fækkun lóða á þessu svæði sé gott mótvægi við fjölgun lóða á aðliggjandi skipulagssvæði. Umsækjandi bendir á að lóðir númer 1-12 við Árveg sem aðliggjandi skipulagssvæði séu allar í kringum 5 ha. Einnig er bent á að syðstu lóðirnar séu mjög blautar og því erfitt að selja þær nema sem hluta af stærra landi.

Í fyrri bókun sveitarstjórnar vegna málsins kom fram að sveitarstjórn teldi að lóðir innan frístundasvæða ættu að jafnaði vera á bilinu 5.000 - 10.000 fm. Sveitarstjórn taldi jafnframt að framlögð sameining 12 lóða innan svæðisins í tvær 49.678,5 fm lóðir samræmdist illa núverandi byggðarmynstri svæðisins þar sem allar lóðir innan skipulagssvæðisins væru á bilinu 6.600 fm - 8.100 fm. Sveitarstjórn telur rök er varðar eldhættu eiga illa við þar sem landið er lítið skógi vaxið og til stendur að útbúa góðar flóttaleiðir frá aðliggjandi svæði um land Kringlu 2. Umsækjandi vísar til aðliggjandi skipulagssvæðis við Árveg 1-12. Sveitarstjórn telur það ekki rök í málinu þar sem um annað deiliskipulagssvæði er að ræða. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að umsókn um sameiningu lóða verði synjað.

Mál nr. 15: Norðurkot; Sogsvegur 18C og 18B; Deiliskipulagsbreyting -  (2110010).

Lögð er fram deiliskipulagsbreyting vegna Sogsvegar 18C og 18B eftir grenndarkynningu. Athugasemdir bárust á grenndarkynningartíma og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt andsvörum málsaðila.

Athugasemdir sem bárust vegna málsins og svör eru eftirfarandi:

1. Engin bílastæði eða skilgreind aðkoma er inn á viðkomandi lóðarhluta á meðfylgjandi lóðablaði og væri eðlileg staðsetning við L4 og L17.

Svar: Á deiliskipulagsuppdrætti sem tók gildi 5.2.2021 eru bílastæði og aðkomur að lóðum ekki sérstaklega skilgreind. Að mati sveitarstjórnar er ekki ástæða til að skilgreina sérstaklega bílastæði eða aðkomu fyrir viðkomandi lóðir sem breytingin tekur til umfram aðrar lóðir innan skipulagssvæðisins. Sveitarstjórn bendir á að lóðarhafar geti afmarkað sínar lóðir með fullnægjandi hætti.

2. Gæta þarf þess að Sogsvegur 18 vegsvæði L231607 sé uppfært og þinglýst með tillit til skiptingar á lóð og samningur um nýtingu, viðhald og afnot sé virt.

Svar: Í samræmi við framlagðan texta er afmörkuð lóð um veg innan svæðisins og telst hann vera í óskiptri sameign allra lóða innan svæðisins enda tryggi hann sameiginlega aðkomu allra að landinu. Að mati sveitarstjórnar verður engin breyting á því þótt svo að heimilt verði að stofna sér lóð út úr viðkomandi lóðarhluta.

3. Eigendur að Sogsvegi 18c hafa sýnt algeran yfirgang og tillitsleysi með því að nota grasflöt neðan við bústað sem heimkeyrslu að bústað sínum. Viðkomandi grasflötur er orðin talsvert skemmdur og nýtist ekki sem leikvöllur.

Svar: Vísað er til svars við athugasemd í lið 1.

Í breytingunni felst að lóðir innan svæðisins verða 8 í stað 7 áður með skiptingu lóðar 18C í tvo hluta, annarsvegar 18B og hins vegar 18C. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða deiliskipulagsbreytingu eftir grenndarkynningu. Breytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og Skipulagsstofnun verði send gögn málsins til varðveislu.

Mál nr. 16: Almenningsholt (L221920); umsókn um byggingarleyfi; aðstöðuhús -  (2110035).

Fyrir liggur umsókn Bent L. Fróðasonar fyrir hönd Þorsteins G. Jóhannssonar, móttekin 11.10.2021, um byggingarleyfi til að byggja 38,4 m2 aðstöðuhús á landinu Almenningsholt L221920 í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.

Mál nr. 17: Oddsholt 34 (L202637); umsókn um byggingarleyfi; gesta- og geymsluhús -  (2110036).

Fyrir liggur umsókn Fjólu Höskuldsdóttur, móttekin 12.10.2021, um byggingarleyfi til að byggja 35,8 m2 gesta- og geymsluhús á sumarbústaðalandinu Oddsholt 34 L202637 í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa. Sveitarstjórn mælist til þess að skilmálar deiliskipulags að Oddsholti verði uppfærðir m.t.t. byggingaskilmála innan svæðisins.

Mál nr. 18: Stangarhylur L210787; Aðalskipulagsbreyting -  (2110060).

Lögð er fram umsókn frá Magnúsi Ingberg Jónssyni er varðar breytingu á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps. Í umsókninni felst að skilgreint verði iðnaðarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði á námusvæði E22a á lóð Stangarhyls L210787.

Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins og óskar eftir frekari og ítarlegri gögnum.

Mál nr. 19: Vaðnes. 3.áfangi; Mosabraut 27; Ný lóðamörk og breyting á leik- og útivistarsvæði; Deiliskipulagsbreyting -  (2107004).

Lögð er fram breytingu á deiliskipulagi Vaðness, 3. áfanga, eftir auglýsingu og kynningu. Í breytingunni felst breytt lega lóðar Mosabrautar 27 og breyting á leik- og útivistarsvæði þar sem gert er ráð fyrir skilgreiningu nýrrar lóðar á hluta svæðisins. Athugasemdir og umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.

Flestar athugasemdir sem bárust vegna málsins snúa að skerðingu leik- og útivistarsvæðis. Þótt svo að flestar athugasemdir hafi borist frá lóðarhöfum sem hafa ekki grenndaráhrif af breytingunni telur sveitarstjórn að athugasemd lóðarhafa aðliggjandi lóðar við Mosabraut vega þungt við ákvörðun um synjun á deiliskipulagsbreytingu eftir auglýsingu. Að mati sveitarstjórnar ætti sá hluti breytinganna er varðar breytta legu Mosabrautar 27 ekki að hafa veruleg neikvæð áhrif á lóðarhafa innan svæðisins þar sem sú lóð er nú þegar skilgreind innan gildandi deiliskipulags á svæðinu en þarf að aðlaga að landslagi og legu vegar innan deiliskipulagssvæðisins.

Sveitarstjórn telur að umrædd skipulagsbreyting sem tekur til Vaðness, 3. áfanga, geti ekki tekið gildi í óbreyttri mynd sökum mikillar andstöðu lóðarhafa innan skipulagssvæðisins við framlagðar breytingar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gildistöku skipulagsbreytingar eftir auglýsingu verði synjað og mælist sveitarstjórn til þess við umsækjanda að lagður verði fram uppfærður uppdráttur til skipulagsnefndar sem tekur til breytingar er varðar Mosabraut 27.

Mál nr. 20: Neðan-Sogsvegar 61 L169338, Norðurkot, Skipting lóðar, Deiliskipulagsbreyting -  (2010091).

Lögð er fram beiðni um undanþágu er varðar fjarlægð frá vegi á lóðum Sogsvegar 61,61A og 61B. Unnið er að deiliskipulagsbreytingu vegna lóðanna.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að undanþága er varðar fjarlægð frá vegi í samræmi við framlagða beiðni verði samþykkt. Sveitarstjórn mælist til þess að umsækjandi óski eftir heimild Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir undanþágu á grundvelli 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 lið 12. vegna takmarkanna skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 lið. d gr. 5.3.2.5 er varðar fjarlægð frá vegum. Svæðið er bundið af takmörkunum vegna fjarlægðar frá Sogsvegi (100 m) og fjarlægðar frá vatni (50 m). Við það bætast náttúrulegar takmarkanir innan lóða þar sem hraungjá takmarkar verulega byggingarmöguleika innan lóðanna. Skipulagsfulltrúa falið að aðstoða umsækjanda við umsókn um undanþágu til ráðuneytisins.

 Mál nr. 21: Illagil - Umsókn um skipulagsmál -  (2110086).

Lögð er fram umsókn frá Ágústi Sverri Egilssyni og Soffíu Guðrúnu Jónasdóttur er varðar skilmálabreytingar fyrir lóðirnar Illagil 17 og Illagil 19.

Sveitarstjórn leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á skilmálum deiliskipulagsins.

Núverandi skilmálar varðandi byggingarmagn: Byggingarmagn lóða miðast við nýtingarhlutfallið 0,03 (3% af flatarmáli lóðar, þar af mega aukahús vera allt að 40 fm. Þeir skulu ekki stærri en 150 fm.)

Skilmálar eftir breytingu er varðar byggingarmagn á lóðum: Byggingarmagn lóða miðast við nýtingarhlutfallið 0,03. Þar af mega aukahús vera allt að 40 fm.

Núverandi skilmálar er varðar mænis- og vegghæð: Mænishæð frá jörðu skal ekki vera meiri en 6 m og hámarks vegghæð skal eki vera meiri en 3.8 m. Heimilt er að hafa svefnloft og kjallara undir húsum þar sem aðstæður leyfa.

Skilmálar eftir breytingu er varðar mænis- og vegghæð: Mænishæð frá jörðu skal ekki vera meiri en 6.8 m. Heimilt er að hafa svefnloft og kjallara undir húsum þar sem aðstæður leyfa en þó innan hámarks nýtingarhlutfalls lóðar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að unnin verði skilmálabreyting sem tekur til byggingarheimilda innan svæðisins. Sveitarstjórn mælist til þess að skilmálabreytingin taki til svæðisins í heild og verði kynnt sérstaklega fyrir sumarhúsafélagi svæðisins sé það til staðar. Að öðrum kosti verði öllum lóðarhöfum innan skipulagssvæðisins kynntar tillögur skilmálabreytingar.

 Mál nr. 27: Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 21-151.

Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 20. október 2021.

 c)      Fundargerð 90. fundar stjórnar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, 13. október 2021.

Mál nr. 1 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Lögð fram 90. fundargerð stjórnar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, dagsett 13. október 2021. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar;

Mál nr. 1: Fjárhagsáætlun UTU bs. fyrir árið 2022.

Fyrir liggja drög að fjárhagsáætlun embættisins fyrir árið 2022. Við gerð hennar var stuðst við ársreikning ársins 2020, fjárhagsáætlun ársins 2021 auk upplýsinga úr bókhaldi embættisins fyrstu 9 mánuði ársins 2021.

Áætlunin gerir ráð fyrir að kostnaður embættisins árið 2022 verði alls 174.957.234 kr. sem skiptist niður á aðildarsveitarfélögin samkvæmt samþykktum hlutföllum. Alls er gert ráð fyrir að kostnaður við rekstur embættisins hækki um 3,2% frá árinu 2021.

Fjárhagsáætlunin tekur tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana sem og vísitöluhækkunar launa. Samtals er gert ráð fyrir að laun og launatengd gjöld hækki um 5,2% milli ára.

Gert er ráð fyrir að embættið flytjist í nýtt húsnæði innan Laugarvatns síðla árs 2022 og er áætlaður sérstakur kostnaður vegna þess 2,5 mkr. Einnig er gert ráð fyrir að ein bifreið embættisins verði endurnýjuð síðari hluta ársins þar sem lagðar verði út 2,5 mkr. auk söluandvirðis bifreiðarinnar upp í nýja bifreið.

Framlag Grímsnes- og Grafningshrepps árið 2022 verður samkvæmt fjárhagsáætluninni kr. 55.986.315.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fjárhagsáætlunina og gert verður ráð fyrir hlut sveitarfélagsins í fjárhagsáætlun næsta árs.

 d)     Fundargerð 91. fundar stjórnar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, 27. október 2021.

Mál nr. 1 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Lögð fram 91. fundargerð stjórnar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, dagsett 27. október 2021. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar;

Mál nr. 1: Breytingar á samþykktum UTU bs. - framhaldið.

Breytingar á samþykktum UTU bs. lagðar fram til fyrri umræðu. Sveitarstjórn vísar málinu til seinni umræðu.

 e)      Fundargerð nefndar oddvita / sveitarstjóra í yfirstjórn velferðarmála í Árnesþingi, 13. október 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 f)       Fundargerð 47. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 8. október 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 g)      Fundargerð fundar um endurskoðun fjallskilasamþykktar fyrir Árnessýslu austan vatna, 13. október 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 2.  Námuúttekt í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Tekin fyrir að nýju tilboð vegna kortlagningar á námum í sveitarfélaginu. Tilboð bárust frá verkfræðistofunum Mannvit, Verkís og Eflu. Málinu var frestað á fundi sveitarstjórnar þann 20. október s.l. og óskað eftir frekari gögnum. Mannvit hafði ekki tök á að skila frekari gögnum innan tímarammans sem gefinn var. Tilboð Eflu hljóðaði upp á 2.905.000 kr. og tilboð Verkís hljóðaði upp á 2.106.000 kr.  

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka lægsta tilboði, frá Verkís. Sveitarstjóra / oddvita falið að skrifa undir samninginn.

 3.  Bréf frá Íþróttafélagi Uppsveita vegna aðstöðumála í sveitarfélögunum.

Fyrir liggur bréf frá stjórn Íþróttafélags Uppsveita (ÍBU), dags. 17. október 2021, þar sem gerð er grein fyrir stöðu mála varðandi aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í sveitarfélögunum í Uppsveitum Árnessýslu. Núverandi stefna er að nota Flúðavöll sem heimavöll meistaraflokks karla, Reykholtsvöll sem miðstöð yngri flokka, og Árnesvöll sem varavöll. Lagt er til að sveitarfélögin standi saman að uppbyggingu og viðhaldi þessara valla.

Þá óskar félagið eftir aðgangi að líkamsræktaraðstöðu íþróttamiðstöðva sveitarfélaganna, ásamt afnotum af félagsheimilum, árlegum styrkjum og verkefnum gegn greiðslu.

Guðrúnu Ásu Kristleifsdóttur heilsu- og tómstundafulltrúa falið að vinna málið áfram, m.a. ræða við Gunnar Gunnarson starfsmann hinna sveitarfélaganna í Uppsveitum og stjórn ÍBU.

 4.  Úrskurður nr. 91/2021 frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Fyrir liggur úrskurður frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 91/2021, þar sem kærð var ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. apríl 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs.

Niðurstaða nefndarinnar er að kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps er hafnað.

Lagt fram til kynningar.

 5.  Ársreikningur Hestamannafélagsins Trausta fyrir árið 2020.

Fyrir liggur ársreikningur Hestamannafélagsins Trausta fyrir árið 2020.

Ársreikningurinn lagður fram til kynningar.

 6.  Ársreikningur Samtaka orkusveitarfélaga fyrir árið 2020.

Fyrir liggur ársreikningur Samtaka orkusveitarfélaga fyrir árið 2020.

Ársreikningurinn lagður fram til kynningar.

Getum við bætt efni síðunnar?