Fara í efni

Sveitarstjórn

521. fundur 16. febrúar 2022 kl. 09:00 - 10:40 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir í fjarveru Bjarna Þorkelssonar
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ása Valdís Árnadóttir
  1. Fundargerðir.
    a)Fundargerð 233. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 9. febrúar 2022.

    Mál nr. 17, 18, 19, 20, 21, 22 og 29 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
    Lögð fram 233. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 9. febrúar 2022. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

    Mál nr. 17: Þrastalundur lóð 1 L201043; Fyrirspurn – 2202009.
    Lögð er fram fyrirspurn frá Ásgeiri Ásgeirssyni er varðar Þrastalund lóð 1 L201043. Í fyrirspurninni felst ósk um breytingu á deiliskipulagi og hugsanlega aðalskipulagi með það að markmiði að stunda gistirekstur innan lóðarinnar. Í hugmyndum fyrirspyrjanda felst að sett verði upp kúlutjöld innan svæðisins. Rekstur þeirra og núverandi veitingasölu muni tengjast með beinum hætti.
    Að mati sveitarstjórnar gæti starfsemi sem um ræðir hentað ágætlega á svæðinu í tengslum við núverandi starfsemi Þrastalundar. Sveitarstjórn bendir á að starfsemin sé háð breytingu á aðalskipulagi þar sem ekki er gert ráð fyrir gistingu innan skilgreinds verslunar- og þjónustusvæðis V5 sem tekur til Þrastalundar heldur eingöngu veitingaþjónustu. Samhliða þyrfti að vinna breytingu á deiliskipulagi svæðisins eða gera nýja skipulagsáætlun sem tæki á svæðinu í heild. Sveitarstjórn leggur áherslu á að frjáls för almennings um árbakka haldist óbreytt og að gisting standist allar kröfur byggingarreglugerðar er varðar slíka þjónustu.

    Mál nr. 18: Vatnsbrekka 1 L199296; Skipting lóðar; Deiliskipulag – 2201076.
    Lögð er fram umsókn frá Gunnari Jónassyni er varðar nýtt deiliskipulag sem tekur til Vatnsbrekku 1 L199296. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að landinu verði skipt upp í fjórar jafnstórar lóðir sem verða um 21.750 fm hver. Ein lóðanna er þegar byggð og á henni er sumarbústaður (93,3 fm) byggður 2007 og geymsla (12,4 fm) byggð 2007. Heimilt er að reisa geymslu, svefnhús eða gróðurhús innan byggingarreits, þó ekki stærri en 40 fm.
    Sveitarstjórn samþykkir samhljóða deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.

    Mál nr. 19: Bíldsfell 1 L170812; Deiliskipulag – 2202010.
    Lögð er fram beiðni frá Kistufossi ehf. er varðar heimild til deiliskipulagsgerðar á jarðarhlut Bíldsfells 1 L170812 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Deiliskipulagið tæki til um 70 ha svæðis sem er skilgreint sem frístundasvæði innan gildandi aðalskipulags sveitarfélagsins.
    Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gerir ekki athugasemd við að unnin verði deiliskipulagstillaga sem tekur til svæðisins. Sveitarstjórn telur ekki þörf á gerð lýsingar fyrir verkefnið þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.
    Ása Valdís Árnadóttir vék sæti við afgreiðslu málsins.

    Mál nr. 20: Mýrarkot; Akurgerði 3-5 L169232; Skipting lóðar; Deiliskipulagsbreyting – 2202011.
    Lögð er fram umsókn frá Árbæ ehf er varðar breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar að Mýrarkoti. Deiliskipulagsbreytingin tekur til skiptingar á lóðar Akurgerðis 3-5 L169232. Umsókn um skiptingu lóðarinnar var samþykkt í sveitarstjórn þann 19. janúar sl. með fyrirvara um breytingu á deiliskipulagi svæðisins.
    Sveitarstjórn samþykkir viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.

    Mál nr. 21: Hallkelshólar lóð (L168483); umsókn um byggingarheimild; sumarbústaður - viðbygging – 2202003.
    Fyrir liggur umsókn Jóns H. Hlöðverssonar fyrir hönd Láru D. Daníelsdóttur, móttekin 31.01.2022, um byggingarheimild til að byggja 39,3 m2 viðbyggingu við sumarbústað á sumarbústaðalandinu Hallkellshólar lóð L168483 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Heildarstærð á sumarbústaði eftir stækkun verður 98 m2.
    Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

    Mál nr. 22: Álfhóll L210521; 25 hektarar; Deiliskipulag – 2111047.
    Lögð er fram að nýju deiliskipulagstillaga sem tekur til 25 ha lands Álfhóls L210521 eftir kynningu. Innan deiliskipulagsins eru m.a. skilgreindir tveir byggingarreitir ásamt byggingarheimildum fyrir íbúðarhús, tvö minni hús allt að 60 m2, fjölnotahús tengt atvinnurekstri allt að 600 m2 auk skemmu/skýlis í tengslum við skógrækt.
    Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi deiliskipulag eftir kynningu og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.

    Mál nr. 29: Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 22-158.
    Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 2. febrúar 2022.
    Fundargerð

    b) Fundargerð 92. fundar stjórnar byggðasamlags UTU, 26. janúar 2022.
    Mál nr. 1 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
    Lögð fram 92. fundargerð sjórnar byggðasamlags UTU, dagsett 26. janúar 2022. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
    Mál nr. 1: Breytingar á gjaldskrá byggingarfulltrúa
    Lagðar fram breytingar á gjaldskrá byggingarfulltrúa vegna breytinga sem gerðar voru á byggingarreglugerð í lok ársins 2021.
    Sveitarstjórn samþykkir samhljóða nýja gjaldskrá vegna útgáfu byggingarheimilda, byggingarleyfa og þjónustu byggingarfulltrúa.
    Fundargerð


    c) Fundargerð 578. fundar stjórnar SASS, 4. febrúar 2022.
    Fundargerðin lögð fram til kynningar.
    Fundargerð

    d) Fundargerð 48. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 14. janúar 2022.
    Fundargerðin lögð fram til kynningar.
    Fundargerð

    e) Fundargerð 906. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 4. febrúar 2022.
    Fundargerðin lögð fram til kynningar.
    Fundargerð

2. Starfsmannamál.
Fyrir liggur að sveitarstjóri sveitarfélagsins Ingibjörg Harðardóttir óskaði eftir því í október 2021 að fá að taka út uppsafnað orlof frá miðjum febrúar og út ráðningarsamninginn sem er í lok kjörtímabilsins. Nú er kominn miður febrúar og þetta því síðasti sveitarstjórnarfundur Ingibjargar sem sveitarstjóri, vill sveitarstjórn því nýta tækifærið og þakka henni kærlega fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins síðustu 12 ár.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að við þessa breytingu muni Ása Valdís Árnadóttir oddviti gegna stöðu sveitarstjóra þar til annað verður ákveðið, þar sem oddviti er staðgengill sveitarstjóra samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins.

3. Deiliskipulag íbúðarbyggðar í þéttbýlinu Borg.
Lögð er fram að nýju heildarendurskoðun deiliskipulags sem tekur til þéttbýlisins að Borg eftir athugasemdir Skipulagsstofnunar.
Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við athugasemdum Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti innan framlagðra gagna og samþykkir samhljóða að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4. Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032.
Lögð er fram að nýju tillaga heildarendurskoðunar aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps ásamt umsögn Skipulagsstofnunar sem tekur til samþykktar á málinu fyrir auglýsingu. Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við að aðalskipulagið verði auglýst með fyrirvara um að brugðist verði við athugasemdum sem fram koma innan umsagnar.
Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við athugasemdum Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti innan framlagðar gagna og samþykkir samhljóða að tillagan verði auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5. Úthlutun úr Landbótasjóði 2022.
Lagt fram til kynningar bréf frá Landgræðslunni, dagsett 8. febrúar 2022 þar sem Grímsnes- og Grafningshreppi hefur verið úthlutað styrk að fjárhæð kr. 444.000.- úr Landbótasjóði Landgræðslunnar.
Bréf frá Landgræðslunni um úthlutun úr Landbótasjóði

6. Þátttaka í könnun um fyrirmyndar sveitarfélag.
Fyrir liggur bréf frá FOSS stéttarfélagi í almannaþjónustu þar sem sveitarfélaginu er boðið að taka þátt í könnun um fyrirmyndar sveitarfélag. Tilgangurinn með könnuninni „Fyrirmyndar sveitarfélag“ er að hvetja stjórnendur sveitarfélaganna til að veita starfsumhverfinu aukna athygli. Mikil reynsla er af þessari könnun, sem er ítarleg, og gefur stjórnendum kleift að bregðast við áskorunum með skipulögðum hætti. Einnig er ætlunin að skapa almenna umræðu á vinnustöðum okkar félagsmanna um áhrif starfsumhverfis og stjórnunar á starfsfólk, þjónustuþega og samfélag. Ekki síst er tilgangurinn að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að okkar félagsfólki. Kostnaður við verkefnið er 182.000.- án vsk. + 390.- án vsk. á hvern starfsmann sem er ekki í FOSS.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka þátt í könnuninni.
Bréf frá FOSS 

Fundarhlé: gert var fundarhlé kl. 10:00 þar sem sveitarstjórn fór á fund með þingmönnum Suðurkjördæmis.
Fundur hófst aftur kl. 10:15.

7. Minnisblað um umdæmisráð barnaverndar.
Lagt fram til kynningar minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dagsett 1. febrúar 2022 um hlutverk og skipan umdæmisráðs barnaverndar.
Minnisblað

8. Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins um stjórnsýslukæru vegna fasteignagjalda.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Ragnhildi Jóhönnu Júlíusdóttur f.h. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 1. febrúar 2022 þar sem tilkynnt er um stjórnsýslukæru. Einnig er óskað eftir gögnum og sveitarfélaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela lögmanni sveitarfélagsins, Óskari Sigurðssyni hrl. að gæta hagsmuna sveitarfélagsins.

9. Bréf frá kjörnefnd Lánasjóðs sveitarfélaga ohf.
Lagt fram til kynningar bréf Óttari Guðjónssyni f.h. kjörnefndar Lánasjóðs sveitarfélaga, dags. 11. febrúar 2022 þar sem auglýst er eftir framboðum til stjórnar Lánasjóðsins.
Bréf frá kjörnefnd Lánasjóðs sveitarfélaga

10. Auglýsing um ákvörðun innviðaráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga 142/2022.
Fyrir liggur auglýsing um ákvörðun innviðaráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga 142/2022.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að virkja þá heimild að sveitarstjórnarmönnum og nefndarmönnum, bæði aðal- og varamönnum sé heimilt að taka þátt í fundum á vegum sveitarfélagsins í gegnum fjarfundarbúnað. Fundargerðir verða undirritaðar síðar. Heimildin gildir í samræmi við ákvörðun ráðherra.

11. Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 332. mál.
Fyrir liggur beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 332. mál.
Þingsályktunartillagan lögð fram til kynningar.

12. Beiðni Atvinnuvegarnefnar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldi, 93. mál.
Fyrir liggur beiðni Atvinnuvegarnefnar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldi, 93. mál.
Þingsályktunartillagan lögð fram til kynningar.

13. Beiðni Velferðarnefnd Alþingis um umsögn á frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (móttaka einstaklinga með vernd, innflytjendaráð), 271. mál.
Fyrir liggur beiðni Velferðarnefnd Alþingis um umsögn á frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (móttaka einstaklinga með vernd, innflytjendaráð), 271. mál.
Frumvarpið lagt fram til kynningar.

14. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 31/2022, „Áform um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 - bætt nýting virkjana“.
Fyrir liggur að Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 31/2022, „Áform um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 - bætt nýting virkjana“.
Lagt fram til kynningar.

15. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir samráðs mál nr. 32/2022, „Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 (Mannvirkjaskrá)“.
Fyrir liggur að Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir samráðs mál nr. 32/2022, „Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 (Mannvirkjaskrá)“.
Lagt fram til kynningar.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl: 10:40.

Getum við bætt efni síðunnar?