Sveitarstjórn
1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 97. fundar fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 1. mars 2022.
Mál nr. 3 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 97. fundargerð fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, dagsett 1. mars 2022. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 3 Skóladagatal
Lagt er til að farið verði í skóladagatal B þar sem að starfsdagar verða ekki þann 19. og 20. apríl. Það er gert þar sem að ekki verður hægt að fara í fyrirhugaða námsferð.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu fræðslunefndar.
Fundargerð
b) Fundargerð 16. fundar veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 28. febrúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð
c) Fundargerð 44. fundar æskulýðs- og menningarmálanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 5. mars 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð
d) Fundargerð 20. fundar ungmennaráðs Grímsnes- og Grafningshrepps, 28. febrúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð
e) Fundargerð 235. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 9. mars 2022.
Mál nr. 18, 19, 20, 21, 22, 23, 24, 25, 26, 27, 28 og 37 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 234. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 25. febrúar 2022. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 18: Kringla 9 L232038; Árvegsbotnar 42-56; Stofnun lóða; Deiliskipulag - 2202091.
Lögð er fram umsókn frá Ingibjörgu Guðrúnu Geirsdóttur er varðar nýtt deiliskipulag í landi Kringlu 9. Innan deiliskipulagsins er gert ráð fyrir 7 lóðum fyrir frístundabyggð.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða deiliskipulagstillöguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Mál nr. 19: Hlíðarhólsbraut 10 L230453 og 12 L229602; Stækkun lóða; Fyrirspurn - 2202043.
Lögð er fram fyrirspurn frá Sigfúsi Aðalsteinssyni er varðar breytingu á deiliskipulagi að Hlíðarhólsbraut 10 og 12. Í breytingunni fælist stækkun lóðanna að núverandi vegi auk þess sem mörk lóðanna eru færð saman. Áfram verði gert ráð fyrir göngustíg um svæðið.
Sveitarstjórn telur ekki forsvaranlegt að fara í stakar lóðarmarkabreytingar innan skipulagssvæðisins og mælist til þess að skipulagið verði skoðað með heildstæðum hætti eigi að gera breytingar á legum lóða innan deiliskipulagssvæðisins.
Mál nr. 20: Kringla 2 L168259; Gesthús; Fyrirspurn - 2203008.
Lögð er fram fyrirspurn frá Ingibjörgu Guðrúnu Geirsdóttur er varðar byggingarheimildir á landi Kringlu 2. Í fyrirspurninni felst hvort að heimilt sé að reisa tvö gestahús á landinu.
Samkvæmt stefnumörkun gildandi aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps má á landbúnaðarsvæðum gera ráð fyrir takmarkaðri þjónustu og léttum iðnaði, sem einkum þjónar ferðaþjónustu eða frístundabyggðum. Hér getur verið um að ræða veitinga- og gistiþjónustu. Sveitarstjórn telur að útleiga á tveimur smáhýsum gæti fallið undir þær heimildir. Eftir mati hverju sinni getur þó umfangsmeiri gistiþjónusta krafist þess að skilgreint sé verslunar- og þjónustusvæði innan jarðar ef megin starfsemi svæðisins er orðið með þeim hætti. Sveitarstjórn telur æskilegt að útbúa deiliskipulag sem tekur til byggingarheimilda viðkomandi smáhýsa..
Mál nr. 21: Neðan-Sogsvegar 46 (L169357); umsókn um byggingarheimild; sumarbústaður - viðbygging - 2202078.
Fyrir liggur umsókn Emils Þ. Guðmundssonar fyrir hönd Ruthar Gylfadóttur, móttekin 28.02.2022, um byggingarheimild að byggja 73 m2 viðbyggingu við sumarbústað á sumarbústaðalandinu Neðan-Sogsvegar 46 L169357 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Heildarstærð á sumarbústaði eftir stækkun verður 127 m2.
Sveitarstjórn mælist til þess að afmörkun lóðarinnar verði skilgreind áður en afstaða verði tekin til útgáfu byggingarleyfis innan lóðarinnar. Innan meðfylgjandi gagna er ekki lögð fram afstöðumynd sem gerir grein fyrir fjarlægð bygginga frá lóðarmörkum. Sveitarstjórn synjar því umsókninni.
Mál nr. 22: Kothólsbraut 24 L202220; Nýtingarhlutfall; Fyrirspurn - 2202034.
Lögð er fram fyrirspurn frá Rúnari Inga Guðjónssyni er varðar Kothólsbraut 24 í Öndverðarnesi. Óskað er eftir því að B-rými verði ekki talið með í nýtingarhlutfalli Kothólsbrautar 24 því ekki hefur verið brugðist við fyrirvara Skipulagsstofnunar um að skilmálar um nýtingarhlutfall hafi verið yfirfarnir innan gildandi deiliskipulags fyrir svæðið. Málið var afgreitt á 234 fundi skipulagsnefndar. Lagt fram að nýju með uppfærðum gögnum og rökstuðningi.
Sveitarstjórn telur að fyrirspurninni hafi verið svarað af skipulagsnefnd með fullnægjandi hætti.
Mál nr. 23: Hvítuborgir L218057; Verslunar- og þjónustusvæði; Deiliskipulag - 2203020.
Lögð er fram umsókn frá Ögmundi Gíslasyni er varðar nýtt deiliskipulag í landi Hvítuborgar L218057. Í Hvítuborgum verður byggt upp svæði fyrir verslun- og þjónustu. Meginstarfsemin verður útleiga á gistirými fyrir ferðamenn og þjónusta þar að lútandi.
Sveitarstjórn samþykkir deiliskipulagð samhljóða og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um lagfærð gögn.
Mál nr. 24: Mýrarkot; Brekkugerði; Fjölgun lóða; Deiliskipulagsbreyting - 2203011.
Lögð er fram umsókn frá félagi lóða- og sumarhúsaeigenda við Héðinslæk er varðar breytingu á deiliskipulagi. Í breytingunni felst fjölgun og breytt lega lóða innan skipulagssvæðisins. Fyrirspurn vegna lóða 3-5 var samþykkt á 230. fundi skipulagsnefndar með fyrirvara um gerð deiliskipulagsbreytingar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins með fyrirvara um samþykki landeiganda. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt eigendum aðliggjandi landeigna.
Mál nr. 25: Mýrarkot; Lerkigerði 7 L173072; Breytt lóðamörk; Deiliskipulagsbreyting - 2203012.
Lögð er fram umsókn frá félagi lóða- og sumarhúsaeigenda við Héðinslæk er varðar breytingu á deiliskipulagi. Í breytingunni felst breytt stærð lóðar Lerkigerðis 7 173072 innan skipulagssvæðisins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins með fyrirvara um samþykki landeiganda. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að málið fái fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.
Sveitarstjórn mælist til þess að skipulagsfulltrúi skoði hvort hægt sé að vinna eftirfarandi mál saman: Mýrarkot; Brekkugerði; Fjölgun lóða; Deiliskipulagsbreyting - 2203011 og Mýrarkot; Lerkigerði 7 L173072; Breytt lóðamörk; Deiliskipulagsbreyting – 2203012.
Mál nr. 26: Vaðnes; Nesvegur 1-8; Deiliskipulagsbreyting - 2203024.
Lögð er fram deiliskipulagsbreyting sem tekur til Nesvegar 1-8 í landi Vaðness. Í breytingunni felast breyttir deiliskipulagsskilmálar innan svæðisins auk þess sem kvaðir eru settar á lágmarks hæðarkóta vegna flóðahættu.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi. Sveitarstjórn mælist til þess að málið verði kynnt sérstaklega fyrir lóðarhöfum innan skipulagssvæðisins.
Mál nr. 27: Efri-Brú L196003; Grænahlíð 1A; Stofnun lóðar - 2202042.
Lögð er fram umsókn f.h. Brúarholts ehf er varðar stofnun lóðar. Óskað er eftir að stofna 11.360 fm lóð, Grænahlíð 1A, úr landi Efri-Brúar L196003. Fjárhús, hlaða og hesthús eru staðsett innan afmörkun hennar. Aðkoman er um aðkomuveg frá Þingvallavegi (36) skv. samþykktu skipulagi fyrir íbúðahúsalóðir við Grænuhlíð.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar skv. fyrirliggjandi umsókn en gerir athugasemd við heiti lóðarinnar.
Mál nr. 28: Brúarholt land L175456 og Efri-Brú L196003, Grænahlíð opið svæði; Breytt landamerkjalína og stofnun lóðar - 2202055.
Lögð er fram umsókn f.h. Brúarholts ehf er varðar ósk um samþykki fyrir breyttri landamerkjalínu milli Brúarholts lands L175456 og Efri-Brúar L196003 ásamt stofnun landeignar. Í landskiptagerð frá 1995 fyrir Brúarholt land L175456 kemur fram óhnitsett afmörkun landsins og áætluð stærð hennar (um 425 ha). Í ljós hefur komið að landamerkjalína jarðanna milli Stapamýrar og Grænlandsmýrar skarast við skipulagssvæði fyrir 10 íbúðarhúsalóðir við Grænuhlíð sem er þá innan beggja jarðanna. Nú liggur fyrir samkomulag milli eigenda jarðanna á breyttum landamörkum sem hafa verið hnitsett skv. meðfylgjandi mæliblaði. Með breytingunni fellur skipulagssvæðið fyrir Grænuhlíð þá alfarið innan Brúarholts lands sem stækkar um ca. 9,9 ha frá áætlaðri stærð í landskiptagerð. Jafnframt er óskað eftir að stofna landið undir opið svæði/leiksvæði og vegi, innan skipulagssvæðisins fyrir Grænuhlíð, sem er þá tekið úr Brúarholti landi með ofangreindri landamerkjabreytingu. Landeignin, Grænahlíð opið svæði, mælist 44.633 fm skv. mæliblaði.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við breytta landamerkjalínu né stofnun opna svæðisins skv. fyrirliggjandi umsókn.
Mál nr. 37: Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 22-160.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 2. mars 2022.
Fundargerð
f) Fundargerð 9. fundar Oddvitanefndar uppsveita Árnessýslu, 3. mars 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð
g) Fundargerð 53. fundar Skólaþjónustu og velferðarnefndar Árnesþings, 1. mars 2022.
Mál nr. 2b þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 53. fundargerð Skólaþjónustu og velferðarnefndar Árnesþings, dagsett 1. mars 2022. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 2b Erindi til samþykktar.
b) Tilllaga að gjaldskrárhækkunum á fjárhagsaðstoð og fargjöldum í akstursþjónustu.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögur að gjaldskrárhækkunum.
Fundargerð
h) Fundargerð 37. fundar stjórnar Bergrisans, 1. mars 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Sveitarstjórn leggur til að bókanir stjórnar Bergrisans verði aðeins ítarlegri eða ítargögn fylgi hverri fundargerð.
Fundargerð
i) Fundargerð 38. fundar stjórnar Bergrisans, 8. mars 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð
j) Fundargerð 309. fundar Sorpstöðvar Suðurlands, 28. febrúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð
k) Fundargerð 216. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands, 25. febrúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð
l) Fundargerð 579. fundar stjórnar SASS, 4. mars 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð
m) Fundargerð 907. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 25. febrúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð
n) Fundargerð framhalds stofnfundar Brákar hses, 4. mars 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð
2. Erindi frá Birni Snorrasyni og Ingibjörgu Harðardóttur eigendum jarðarinnar Bjarkar II um breytta vegtengingu um svokallaðan vatnsveg.
Lagt er fram að nýju erindi frá Birni Snorrasyni og Ingibjörgu Harðardóttur eigendum jarðarinnar Bjarkar II, dagsett 24. febrúar 2022, um breytta vegtengingu um svokallaðan vatnsveg sem liggur að vatnslind sveitarfélagsins í landi Bjarkar I. Málinu var frestað á fundi sveitarstjórnar þann 2. mars 2022 og er nú tekið fyrir að nýju.
Fyrir liggur minnisblað frá Ragnari Guðmundssyni um kostnaðinn og samþykkir sveitarstjórn samhljóða að breyta vegtengingunni í vor og felur Ragnari að vinna verkefnið áfram.
Ingibjörg Harðardóttir vék sæti við afgreiðslu málsins.
Bréf frá eigendum Bjarkar II
Ný tenging
Núverandi tenging
3. Tilboð í deiliskipulagsgerð á golfvelli.
Fyrir liggur minnisblað frá Ragnari Guðmundssyni umsjónarmanni veitna og framkvæmda, dagsett 2. mars 2022, þar sem farið er yfir tilboð sem bárust í kjölfar verðkönnunar í deiliskipulagsgerð vegna fyrirhugaðrar breytingar á hluta golfvallar í landbúnaðarsvæði með auknum byggingarheimildum. Verðkönnunin var send á Eflu, Landhönnun og Landform. Tilboð Eflu hljóðaði upp á 4.200.000 kr., tilboð Landhönnunar hljóðaði upp á 4.500.000 kr. og tilboð Landforms hljóðaði upp á 6.125.000 kr.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka lægsta tilboði, frá Eflu. Sveitarstjóra falið að skrifa undir samninginn.
Tilboð
4. Tilboð í leigu á fjallaskála í Kringlumýri.
Fyrir liggur að sveitarfélagið auglýsti í lok febrúar fjallaskála í Kringlumýri, hesthús og aðra aðstöðu sem fylgir skálanum til leigu til 5 ára. Ein í umsókn barst frá Kerhestum ehf.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að ganga til samninga við Kerhesta ehf.
5. 1901008 - Öndverðarnes lóð 2 L170095; Laxabakki; Staðfest afmörkun og breytt heiti lóðar.
Lögð er fram að nýju umsókn Hannesar Lárussonar f.h. Íslenska Bæjarins, dags. 7. febrúar 2019 um staðfestingu á afmörkun landeignarinnar Öndverðarnes lóð 2 L170095. Skv. hnitsettri afmörkun er lóðin 10.000m2 og er í samræmi við skráða stærð í fasteignaskrá. Einnig er óskað eftir að landið fái heitið Laxabakki og liggur fyrir útskýring á hvaðan heitið er fengið. Málinu var frestað á fundi sveitarstjórnar þann 3. apríl 2019 og er nú tekið fyrir að nýju.
Sveitarstjórn staðfestir samhljóða afmörkun og breytt heiti lóðar.
Smári Bergmann Kolbeinsson vék sæti við afgreiðslu málsins.
6. Erindi til sveitarfélaga frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu vegna móttöku flóttafólks.
Lagt fram til kynningar bréf frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, dagsett 9. mars 2022, vegna móttöku flóttafólks.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að skoða málið nánar.
Bréf frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu
7. Bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga um Suðurnesjalínu 2.
Lögð fram til kynningar bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga um Suðurnesjalínu 2 þar sem bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hvetur sveitarfélög landsins og Samband íslenskra sveitarfélaga til að veita umsögn og taka afstöðu til frumvarps til laga um að veita Landsneti framkvæmdaleyfi til lagningar Suðurnesjalínu 2 í lofti í sveitarfélaginu.
Bókun
8. Aðalfundur Límtré Vírnet ehf.
Lagt fram til kynningar bréf frá stjórnarformanni Límtré Vírnet ehf, dagsett 7. mars 2022, um að aðalfundur félagsins verði haldinn þriðjudaginn 22. mars 2022 í Reykjavík.
9. Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar bréf frá framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga ohf, dagsett 11. mars 2022, um að aðalfundur lánasjóðsins verði haldinn föstudaginn 1. apríl 2022 í Reykjavík.
Aðalfundarboð
10. Beiðni Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldastofn fasteignaskatts), 78. mál.
Fyrir liggur beiðni Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldastofn fasteignaskatts), 78. mál.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps getur ekki veitt jákvæða umsögn um breytingar sem lagðar eru til á frumvarpi til laga um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldastofn fasteignaskatts), 78. mál.
Frumvarp til laga
11. Beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum, 51. mál.
Fyrir liggur beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum, 51. mál.
Frumvarpið lagt fram til kynningar.
Frumvarp til laga
12. Önnur mál.
a) Sveitarstjórnarkosningar 2022 – fundaraðstaða framboðslista og kjörstaður.
Rætt var um undirbúning og framkvæmd sveitarstjórnarkosninga sem haldnar verða 14. maí n.k. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að bjóða framboðslistum til sveitarstjórnakosninga aðgang að félagsheimilinu endurgjaldslaust til fundahalda í samráði við umsjónaraðila félagsheimilisins, á það við fundarhöld vegna undirbúningsfunda og framboðsfunda í aðdraganda kosninga. Jafnframt býðst svo þeim framboðslistum sem fá mann í sveitarstjórn aðgangur að félagsheimilinu endurgjaldslaust fyrir framboðs- og vinnufundi á kjörtímabilinu. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að framboðslistar hafi aðgang að skrifstofu vegna fjölföldunar á kynningarefni í aðdraganda kosninga.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að kjörfundur vegna kosninga til sveitarstjórna þann 14. maí n.k. verði í stjórnsýsluhúsinu á Borg í fundarsal sveitarstjórnar á 2. hæð. Einnig er samþykkt að bjóða upp á kaffiveitingar á meðan kjörfundi stendur.
Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl: 12:40.