Fara í efni

Sveitarstjórn

549. fundur 07. júní 2023 kl. 09:00 - 10:40 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir oddviti
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Dagný Davíðsdóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir
  • Steinar Sigurjónsson í fjarveru Smára Bergmann Kolbeinssonar
  • Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri

1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 9. fundar framkvæmda- og veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 2. júní 2023. Mál nr. 2 og 4 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 9. fundar framkvæmda- og veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps sem haldinn var 2. júní 2023.
Mál nr. 2; Drög að uppfærðum reglum um úthlutun lóða í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Farið yfir drög að uppfærðum reglum um úthlutun lóða í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins.
Mál nr. 4; Niðurstöður útboðs í verkið „Athafnasvæði við Sólheimaveg – Gatnagerð“.
Fyrir liggur fundargerð frá opnunarfundi tilboða í verkið „Athafnasvæði við Sólheimaveg – Gatnagerð“ sem haldinn var þann 9. maí 2023.
Eftirfarandi tilboð bárust:
Aðalleið ehf: 99.434.550 kr.
Aðalleið ehf frávikstilboð: 81.724.800 kr.
Suðurtak ehf: 78.447.024 kr.
Magnús Ingberg Jónsson: 114.236.600 kr.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að tilboði lægstbjóðanda, Suðurtaks ehf. verði tekið og felur sveitarstjóra að undirrita verksamning.
b) Fundargerð 8. fundar skólanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 18. apríl 2023.
Mál nr. 1 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 8. fundar skólanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps sem haldinn var 18. apríl 2023.
Mál nr. 1; Skóladagatal Kerhólsskóla.
Farið yfir skóladagatal Kerhólsskóla fyrir árið 2023/2024.
Sveitarstjórn staðfestir samhljóða skóladagatalið.
c) Fundargerð 9. fundar skólanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 9. maí 2023.
Mál nr. 1 og 4 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 9. fundar skólanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps sem haldinn var 9. maí 2023.
Mál nr. 1; Gjaldskrá leikskóla og frístundar.
Lagt er til að taka upp sérstakt gjald fyrir hverjar 15 mínútur fyrir barn sem kemur of snemma að morgni og sótt er of seint. Lagt er til að gjaldið verði 700 krónur á hvert skipti. Gert er ráð fyrir ákveðið mörgum starfsmönnum miðað við umsamdan dvalartíma barna því er mikilvægt að foreldrar virði dvalartíma barna sinna í leikskóla og frístund. Lagt er til að innheimta á gjaldinu hefjist 1. ágúst 2023.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka upp sérstakt gjald fyrir hverjar 15 mínútur fyrir barn sem kemur of snemma að morgni og sótt er of seint, jafnframt samþykkir sveitarstjórn að gjaldið verði 700 krónur og taki gildi frá og með 1. ágúst 2023.
Mál nr. 4; Önnur mál.
Í skólabíl eru nemendur sem ber að hafa fylgdaraðila allan skóladaginn og upp eru að koma agamál á leiðum sem illa hefur gengið að leysa. Lagt er til að ráðnir yrðu stuðningsfulltrúar til að vera í skólabílum þegar börn eru keyrð í og úr skóla. Minnt var á leiðbeiningar til sveitarfélaga vegna skólaaksturs í grunnskólum frá 4. nóvember 2019. Þar kemur fram að skólaakstur grunnskólabarna skuli skipulagður með hliðsjón af öryggi og velferð nemenda í hvívetna. Einnig var bent á að merkingar á skólabílum eru ekki viðunandi. Lagt er til að gera kröfu um viðunandi merkingar í næsta útboði um skólaakstur. Ennfremur var bent á að sveitarfélagið útvegi ekki bílstóla fyrir ung börn í skólabílnum. Lagt er til að sveitarfélagið útvegi börnum undir 135 cm bílstól í skólabílnum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna málið áfram með skólabílstjórum og skólastjóra.
d) Fundargerð 261. fundar skipulagsnefndar UTU, 24. maí 2023.
Mál nr. 13, 14, 15, 16, 17 og 24 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 261. fundar skipulagsnefndar UTU sem haldinn var 24. maí 2023.
Mál nr. 13; Villingavatn (L170971); byggingarheimild; gestahús – 2302022
Fyrir liggur umsókn Ásgerðar Þ. Bergset Ásgeirsdóttur, Bjargar Óskarsdóttur og Óskars Arnar Ásgeirssonar, móttekin 13.02.2023, um byggingarheimild fyrir 51,6 m2 gestahúsi á sumarbústaðalandinu Villingavatn L170971 í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Mál nr. 14; Hrossakrókar L231319; Miðengi L168261; 7 smáhýsi og þjónustuhús; Fyrirspurn – 2305013.
Lögð er fram fyrirspurn frá Sverri Sigurjónssyni er varðar áform um uppbyggingu á lóð Hrossakróka L231319 í landi Miðengis. Hugmyndin er að reisa þar allt að 7 smáhýsi ásamt þjónustuhúsi, hvert um sig í kringum 30 fermetrar að stærð eða samtals 8 hús. Húsin verða leigð út til gistingar og er hvert hús hugsað fyrir tvo einstaklinga. Við hvert hús verður byggður sólpallur ásamt heitum potti fyrir gestina. Auk þess verður svæðið skipulagt með upplýstum snyrtilegum göngustígum á milli húsa. Ákvörðunarstaður húsanna, ásamt öllu skipulagi á svæðinu yrði í samráði við landslagsarkitekt til þess að framkvæmdin falli sem best inn í umhverfið.
Sveitarstjórn bendir á að umrætt svæði er skilgreint sem frístundasvæði innan aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps. Að mati sveitarstjórnar eru þær áætlanir sem lagðar eru fram innan fyrirspurnar háðar því að unnin verði breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins þar sem svæðið væri skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði. Samhliða væri unnið nýtt deiliskipulag sem tæki til framkvæmda innan þess. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að unnin verði tillaga að aðalskipulagsbreytingu og beinir því til fyrirspyrjanda að hafa samband við skipulagsfulltrúa til að hefja þá vinnu.
Steinar Sigurjónsson vék af fundi undir þessum lið.
Mál nr. 15; Tjarnhólslaut 82 L193110; Sumarbústaður í lögheimili; Fyrirspurn – 2305027.
Lögð er fram fyrirspurn frá Karli Heimi Karlssyni er varðar skráningu lögheimils á lóð Tjarnarhólslautar 82. Innan fyrirspurnar kemur fram að innan deiliskipulagssvæðisins séu 4 önnur frístundahús og að allir eigendur innan svæðisins styðji viðkomandi breytingu.
Sveitarstjórn bendir á að í stefnumörkun aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps er gert ráð fyrir því að ekki verði skilgreind ný íbúðarsvæði í dreifbýli innan sveitarfélagsins. Ekki er hægt að skrá íbúa til lögheimils innan frístundasvæða sbr. skilgreiningu 2.gr. skipulagslaga nr.123/2010 á landnotkun frístundabyggðar og lögum um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018. Slík skráning er því í öllum tilfellum háð breyttri skráningu landnotkunar og notkunar húsnæðis í íbúðarhús. Eins og fyrr segir gerir stefnumörkun aðalskipulags sveitarfélagsins ekki ráð fyrir því að skilgreind verði ný íbúðarsvæði í stað frístundasvæða og að sama skapi fellur stærð viðkomandi lóða og þéttleiki þeirra illa að skilgreiningu landbúnaðarlands, L3, eða smábýla þar sem gert er ráð fyrir að landspildur séu að jafnaði á bilinu 1- 10 ha að stærð. Að mati sveitarstjórnar býður því núverandi stefnumörkun sveitarfélagsins ekki upp á að mögulegt sé að breyta frístundalóðum í íbúðarlóðir.
Mál nr. 16; Þrastalundur lóð 1 L201043; Fyrirspurn – 2305050.
Lögð er fram fyrirspurn frá V63 ehf. er varðar uppbyggingu ferðaþjónustu í og við Þrastarlund. Í fyrirspurninni felst að umsækjandi fái heimild sveitarstjórnar til að vinna, í samráði við Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita, landeiganda (UMFÍ) og umsagnaraðila, deiliskipulag af tveimur svæðum í Þrastaskógi til viðbótar því deiliskipulagi sem unnið var af þjónustumiðstöðinni Þrastalundi 2004 m.s.b. Annars vegar deiliskipulag af tjaldalundum norðaustan þjónustumiðstöðvarinnar og hins vegar deiliskipulag af núverandi tjald- og hjólhýsasvæði í skóginum. Jafnframt verði heimilað að gera nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins til samræmis við þær hugmyndir sem fram koma í deiliskipulagsáætlunum, gerist þess þörf að mati sveitarfélagsins. Að mati skipulagsnefndar er framlögð uppbygging háð því að unnin verði breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins norðan Þrastarlundar þar sem skilgreint verði verslunar- og þjónustusvæði.
Að mati sveitarstjórnar er landnotkun núverandi tjaldsvæðis í samræmi við þær hugmyndir sem fram koma innan fyrirspurnar með fyrirvara um þær heimildir sem lagðar verða fram innandeiliskipulagsáætlana. Sveitarstjórn telur því nauðsynlegt að unnar yrðu tvær nýjar deiliskipulagsáætlanir fyrir viðkomandi svæði auk breytingar á aðalskipulagi. Mælist sveitarstjórn til þess að lögð verði fram sameiginleg skipulagslýsing vegna verkefnisins. Að mati sveitarstjórnar er forsenda framgöngu ofangreindra skipulagsáætlana sú að fyrir liggi skriflegt samþykki landeiganda fyrir viðkomandi breytingum og áætlunum.
Mál nr. 17; Ljósafossskóli 168468 L168468; Fyrirspurn – 2305051.
Lögð er fram fyrirspurn frá V63 ehf. er varðar uppbyggingu ferðaþjónustu að Ljósafossskóla. Í fyrirspurn felst að leita heimildar sveitarfélagsins til að vinna, í samráði við Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita, deiliskipulag á landi skólans sem og gera nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins til samræmis við þær hugmyndir sem fram koma í deiliskipulaginu, gerist þess þörf að mati sveitarfélagsins.
Að mati sveitarstjórnar er framlögð uppbygging háð því að unnin verði breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins við Ljósafossskóla þar sem heimildir aðalskipulags verði auknar í takt við framlagða fyrirspurn. Samkvæmt aðalskipulagi er tiltekið að á svæðinu sé rekin gisting og ferðaþjónusta fyrir allt að 30 manns. Á reitnum eru einnig 3 íbúðarhús. Ekki verði gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu. Frekari uppbygging á svæðinu er því háð breytingu á aðalskipulagi. Samhliða verði unnið deiliskipulag sem skilgreinir með ítarlegri hætti byggingarheimildir innan svæðisins til framtíðar í takt við heimildir aðalskipulags. Að mati sveitarstjórnar er forsenda framgöngu ofangreindra skipulagsáætlana sú að fyrir liggi skriflegt samþykki eiganda fyrir viðkomandi breytingum og áætlunum.
Mál nr. 24; Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 23-185 – 2305001F
Lögð er fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 23-185.
e) Fundargerð 2. fundar oddvitanefndar Uppsveita Árnessýslu, 11. janúar 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 2. fundar oddvitanefndar Uppsveita Árnessýslu sem haldinn var 11. janúar 2023.
f) Fundargerð 3. fundar oddvitanefndar Uppsveita Árnessýslu, 19. apríl 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 3. fundar oddvitanefndar Árnessýslu sem haldinn var 19. apríl 2023 ásamt ársreikningi. Greiðsla til sveitarfélagsins vegna útgreiðslu úr sjóði nemur 3,4 m.kr. og mun verða tekið tillit til þeirrar greiðslu við gerð viðauka við fjárhagsáætlun.
g) Fundargerð stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, 11. maí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings sem haldinn var 11. maí 2023.
h) Fundargerð 206. fundar stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga, 9. maí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga sem haldinn var 9. maí 2023.
i) Fundargerð 30. fundar Héraðsnefndar Árnesinga, 24. maí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 30. fundar Héraðsnefndar Árnesinga sem haldinn var 24. maí 2023. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti að Héraðsnefnd Árnesinga taki húsnæði að Hellismýri 8, Selfossi, á leigu fyrir Héraðsskjalasafn Árnesinga, með þeim áhrifum sem það hefði á fjárhagsáætlun Héraðsskjalasafnsins til næstu ára, fáist húsnæðið leigt. Á móti fellur út kostnaður við leigu í Ráðhúsi Árborgar og rekstrarkostnaður af Háheiði 9.
j) Fundargerð 55. fundar stjórnar Bergrisans bs., 18. apríl 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 55. fundar stjórnar Bergrisans bs., sem haldinn var 18. apríl 2023.
k) Fundargerð 56. fundar stjórnar Bergrisans bs., 15. maí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 56. fundar stjórnar Bergrisans bs., sem haldinn var 15. maí 2023.
l) Fundargerð 27. fundar stjórnar Bergrisans bs., 19. maí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 57. fundar stjórnar Bergrisans bs., sem haldinn var 19. maí 2023.
m) Fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu, 25. maí apríl 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu sem haldinn var 25. maí 2023.
n) Fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga, 30. maí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga sem haldinn var 30. maí 2023.
o) Fundargerð 64. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 16. maí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 64. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn var 16. maí 2023.
p) Fundargerð 926. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 17. maí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 926. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 17. maí 2023.
q) Fundargerð 927. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 26. maí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 927. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 26. maí 2023.
2. Samþykkt Grímsnes- og Grafningshrepps um gatnagerðargjöld.
Lögð fram til fyrri umræðu drög að breytingum á samþykktum Grímsnes- og Grafningshrepps um gatnagerðargjöld.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum og vísar samþykktinni til síðari umræðu.
3. Skipan fulltrúa í kjörstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að kjörstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps kjörtímabilið 2022-2026 verði skipuð á eftirfarandi hátt:
Aðalmenn:
Bragi Svavarsson, formaður
Valgeir Fridolf Backman
Elín Bergsdóttir
Til vara:
Guðrún Margrét Njálsdóttir
Embla Ósk Ásgeirsdóttir
Magnús Grímsson
4. Sumarleyfi sveitarstjórnar og næstu fundir hennar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að sveitarstjórn verði í sumarleyfi í júlí. Næstu fundir sveitarstjórnar eru þá 29. júní og 17. ágúst.
5. Sumarlokun á skrifstofu Grímsnes- og Grafningshrepps.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skrifstofa Grímsnes- og Grafningshrepps verði lokuð vegna sumarleyfa starfsmanna frá 17. júlí til og með 11. ágúst 2023.
6. Samstarfssamningur við Hjálparsveitina Tintron.
Fyrir liggja drög að samstarfssamning við Hjálparsveitina Tintron.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög og felur sveitarstjóra að skrifa undir samninginn.
7. Ársreikningur Ungmennafélagsins Hvatar vegna ársins 2022.
Ársreikningur Ungmennafélagsins Hvatar vegna ársins 2022 lagður fram til kynningar.
8. Atvinnumálstefna Uppsveita.
Atvinnumálastefna Uppsveita fyrir árin 2023-2027 var lögð fram að loknu athugasemdaferli. Að stefnunni standa Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Í stefnunni var leitast við að setja fram raunhæf markmið og að unnt verði að mæla framvindu. Stefnan tekur mið af Sóknaráætlun Suðurlands.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða atvinnumálastefnu Uppsveita fyrir sitt leyti.
Sveitarstjórn vill koma á framfæri þökkum til vinnuhópsins sem stóð að vinnu atvinnumálastefnunnar fyrir sitt framlag, svo og öðrum þeim sem komu að vinnunni.
9. Ferðamálafulltrúi og byggðaþróunarfulltrúi Uppsveita.
Lagt var fram minnisblað ásamt fylgigögnum annars vegar um áframhaldandi ráðningu á ferðamálafulltrúa Uppsveita og hins vegar ráðningu á nýrri stöðu, byggðaþróunarfulltrúa.
Ráðningartími ferðamálafulltrúa miðast við 1. júlí n.k. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að ráðningartími verði framlengdur til 31. desember n.k. miðað við 80% starfshlutfall. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.
Sveitarstjórn samþykkir jafnframt samhljóða að taka þátt í verkefni sem varðar nýja stöðu byggðaþróunarfulltrúa fyrir Uppsveitir Árnessýslu í gegnum samstarfssamning við SASS, sem byggir á samningi SASS við Byggðastofnun. Framlag SASS næmi um 7.500.000 kr miðað við heilt almanaksár. Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti að auglýst verði eftir starfsmanni í 100% starf, og undir það heyri, auk skilgreindra verkefna byggðaþróunarfulltrúa, ferða- og kynningarmál, eftirfylgni með atvinnustefnu, auk mála sem tengjast fjölmenningu. Bláskógabyggð verði leiðandi sveitarfélag og gerður verði samningur milli sveitarfélaganna um verkefnið. Um er að ræða sveitarfélögin Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshrepp, Hrunamannahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Kostnaður sveitarfélaganna, umfram framlög SASS, skiptist í jöfnum hlutföllum á milli sveitarfélaganna fjögurra. Ráðningarferli annist sveitarstjóri Bláskógabyggðar og formaður oddvitanefndar. Áætlaður kostnaður sveitarfélaganna á árinu 2023 er á bilinu 1.800.000 til 2.300.000 og ræðst m.a. af því hvenær nýr starfsmaður gæti hafið störf.
10. Bréf frá orlofsnefnd húsmæðra í Árnes- og Rangárvallasýslu ásamt skýrslu um starfsemi þess og ársreikningi fyrir árið 2022.
Lagt fram til kynningar bréf frá Orlofsnefnd húsmæðra í Árnes- og Rangárvallasýslu varðandi greiðslu vegna orlofs húsmæðra. Meðfylgjandi bréfinu er reikningur, skýrsla um starfsemi orlofs húsmæðra í Árnes- og Rangárvallasýslu, ársreikningur fyrir árið 2022 og yfirlit yfir greiðslu allra sveitarfélaga sem greiða skulu í Orlof húsmæðra í Árnes- og Rangárvallasýslu.
11. Erindi frá stjórn Skógræktarfélags Íslands.
Lagt fram til kynningar.
12. Boð á aðalfund Háskólafélags Suðurlands 2023.
Fyrir liggur að aðalfundur Háskólafélags Suðurlands 2023 verður haldinn miðvikudaginn 7. júní í Fjölheimum á Selfossi, ásamt því að hægt verður að sitja fundinn í formi fjarfundar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Björn Kristinn Pálmarsson verði fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum.
13. Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 100/2023 – „Drög að reglugerð um málsmeðferð við setningu skipulagsreglna fyrir flugvelli“.
Lagt fram til kynningar.
14. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 103/2023, „Sameining stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins“.
Lagt fram til kynningar.
15. Forsætisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 106/2023, „Drög að reglugerð um meðferð og nýtingu þjóðlendna“.
Lagt fram til kynningar.
16. Kjaradeila Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB.
Lögð var fram tilkynning FOSS um verkfallsboðun vegna starfa á leikskóladeild Kerhólsskóla frá 5. júní til 5. júlí og í íþróttamiðstöð sveitarfélagsins, ótímabundið frá 5. júní. Ljóst er að komi til verkfalls mun verða talsverð röskun á leikskólastarfi og íþróttamannvirkin verða mögulega lokuð.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leikskólagjöld verði felld niður í þeim tilvikum sem ekki er hægt að veita þjónustu leikskóla.


Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 10:40.

Skjöl

Getum við bætt efni síðunnar?