Fara í efni

Sveitarstjórn

565. fundur 20. mars 2024 kl. 09:00 - 10:30 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir oddviti
  • Dagný Davíðsdóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Steinar Sigurjónsson í fjarveru Björns Kristins Pálmarssonar
Starfsmenn
  • Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Iða Marsibil Jónsdóttir


Ása Valdís Árnadóttir oddviti setti fund, bauð fundargesti velkomna og leitaði athugasemda við fundarboð, engar athugasemdir voru við boðun fundarins.

1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 17. fundar Skólanefndar, 12. mars 2024.
Mál nr. 1 og 4 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 17. fundar Skólanefndar sem haldinn var 2. febrúar 2024.
Mál nr. 1; Tillögur að stuðningi til forráðamanna leikskólabarna á biðlista.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu málsins.
Mál nr. 4; Bréf til skólanefndar.
Lagt fram bréf til Skólanefndar, dagsett 10. janúar 2024. Í bréfinu koma fram athugasemdir starfsmanns við störf sveitarstjórnar og sveitarstjóra og vísaði Skólanefnd því bréfinu til umfjöllunar í sveitarstjórn.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða drög að svarbréfi til bréfritara og felur sveitarstjóra að klára málið.
b) Fundargerð 276. fundar skipulagsnefndar UTU, 13. mars 2024.
Mál nr. 13, 14, 15 og 22 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 276. fundar skipulagsnefndar UTU sem haldinn var 13. mars 2024.
Mál nr. 13; Álftavatn 19 L218004 og Álftavík L169078; Sameining lóða; Fyrirspurn – 2401066.
Lögð er fram fyrirspurn sem tekur til breyttrar skráningar lóðar Álftavatns 19 L218004 og Álftavík L169078. Í fyrirspurninni felst hvort athugasemd verði gerð við sameiningu lóðanna.
Sveitarstjórn bendir á að landnotkun viðkomandi lóða sem fyrirspurnin tekur til er mismunandi samkv. gildandi deiliskipulagi svæðisins. Almennt er óheimilt að skipta upp eða sameina frístundalóðir í þegar byggðum frístundahverfum, nema í tengslum við heildarendurskoðun eða gerð nýs deiliskipulags samkvæmt almennum skilmálum aðalskipulags um frístundasvæði. Að mati sveitarstjórnar er því ekki forsenda fyrir sameiningu lóðanna.
Mál nr. 14; Hestvíkurvegur 18 (L170895); byggingarheimild; sumarbústaður - viðbygging – 2402035.
Móttekin er umsókn þ. 11.12.2023 um byggingarheimild fyrir 69,4 m2 viðbyggingu við sumarbústað á sumarbústaðalandinu Hestvíkurvegur 18 L170895 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Heildarstærð á sumarbústað eftir stækkun verður 147,2 m2.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Málið verði grenndarkynnt lóðarhöfum Hestvíkurvegar 14, 16 og 20 auk Nesja lóð 4. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Mál nr. 15; Öndverðarnes 2 lóð L170117; Selvíkurvegur 1; Breytt heiti lóðar – 2401014
Lögð er fram umsókn um breytt staðfang lóðar Öndverðarness 2 lóð L170117. Eftir breytingu fái lóðin staðfangið Selvíkurvegur 3. Samhliða verði unnið að endurskoðun staðfanga aðliggjandi lóða innan svæðisins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemdir við endurskoðað staðfang lóðarinnar og að sambærilegar breytingar verði gerðar á staðvísum og staðföngum lóða á svæðinu við sömu götu.
Mál nr. 22; Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 24 - 200 - 2402003F.
Lögð er fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa nr. 24 – 200.
c) Fundargerð 5. fundar oddvitanefndar Uppsveita Árnessýslu 2022-2026, 22. febrúar 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 5. fundar oddvitanefndar Uppsveita Árnessýslu 2022-2026, sem haldinn var 22. febrúar 2024.
d) Fundargerð 70. fundar stjórnar Bergrisans bs., 26. febrúar 2024.
Mál nr. 4 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 70. fundar stjórnar Bergrisans bs., sem haldinn var 26. febrúar 2024.
Mál nr. 4; Gjaldskrá vegna stuðningsfjölskyldna og notendasamninga.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu stjórnar Bergrisans bs., gjaldskrá vegna stuðningsfjölskyldna og notendasamninga.
e) Fundargerð 9. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga, 16. október 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 9. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga sem haldinn var 16. október 2023.
f) Fundargerð 10. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga, 6. nóvember 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 10. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga sem haldinn var 6. nóvember 2023.
g) Fundargerð 11. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga, 11. mars 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 11. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga sem haldinn var 11. mars 2024.
h) Fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu, 29. febrúar 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu sem haldinn var 29. febrúar 2024.
i) Fundargerð 69. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 23. febrúar 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn var 23. febrúar 2024.
j) Fundargerð 945. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 28. febrúar 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 28. febrúar 2024.
k) Fundargerð 27. fundar svæðisskipulagsnefndar um gerð svæðisskipulags fyrir Suðurhálendið, 27. febrúar 2024.
Lögð fram fundargerð 27. fundar svæðisskipulagsnefndar um gerð svæðisskipulags fyrir Suðurhálendið sem haldinn var 27. febrúar 2024.
Lögð er fram tillaga að svæðisskipulagi Suðurhálendisins 2022-2042 eftir auglýsingu. Innan tillögunnar er mótuð framtíðarsýn fyrir Suðurhálendið um sterka innviði, umhyggju fyrir auðlindum, ábyrga nýtingu auðlinda, aðgerðir fyrir loftslagið og góða samvinnu. Tillögunni fylgir greinargerð um landslagsgreiningu fyrir Suðurhálendi, sem er fylgirit svæðisskipulagsins. Tillagan nær yfir hálendishluta sveitarfélaganna Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Ásahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hrunamannahrepps, Bláskógabyggðar, og Grímsnes- og Grafningshrepps. Auk þeirra hafa sveitarfélögin Flóahreppur og Árborg tekið þátt í verkefninu. Tillagan var auglýst frá 15. nóvember 2023 til og með 19. janúar 2024. Athugasemdir og umsagnir bárust við tillöguna og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins eftir auglýsingu auk samantektar á andsvörum og viðbrögðum svæðisskipulagsnefndar fyrir Suðurhálendið.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða uppfærða og fyrirliggjandi tillögu og greinargerðir að svæðisskipulagi fyrir Suðurhálendið.
2. Næstu fundir sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að næstu fundir sveitarstjórnar verði 5. apríl klukkan 9:00, 17. apríl klukkan 9:00 og 2. maí klukkan 9:00.
3. Sumarlokun á skrifstofu Grímsnes- og Grafningshrepps.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skrifstofa Grímsnes- og Grafningshrepps verði lokuð vegna sumarleyfa starfsmanna frá og með 22. júlí til og með 9. ágúst 2024.
4. Áskorun til sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga.
Fyrir liggur erindi frá Arnari Þór Sævarssyni framkvæmdarstjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 13. mars 2024 vegna áskorunar til sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga. Í erindinu eru sveitarfélög landsins hvött til að skoða sínar gjaldskrár og meta hvort þær hafi áhrif á barnafjölskyldur eða viðkvæma hópa og þá hvort tilefni sé til að taka ákvörðun um lækkun.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna málið áfram.
5. Tjaldsvæðið á Borg.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að auglýsa til leigu tjaldsvæðið á Borg og felur umsjónarmanni umhverfismála að hefja auglýsingarferli á næstu vikum.
6. Efnistaka Seyðishólum, náma E24; Framkvæmdaleyfi – 2302043.
Mál Klausturhóla gjallnámu L168965; Efnistaka Seyðishólum, náma E24; Framkvæmdarleyfi – 2302043 lagt fyrir að nýju vegna ábendinga um skýrari bókun að hálfu sveitarstjórnar.
Framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr námu E24, Seyðishólum sem samþykkt var í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps þann 29.6.2023 var fellt úr gildi með úrskurði Úrskurðarnefndar Umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 98/2023. Á grundvelli þess úrskurðar er málið lagt fram að nýju til afgreiðslu. Lögð er fram uppfærð greinargerð framkvæmdaleyfis þar sem framkvæmdin er m.a. rökstudd með ítarlegri hætti en áður. Fyrirhugað er að taka 500.000 m3 af efni úr námunni á næstu 15 árum eða um 33.000 m3 á ári. Stærð námusvæðisins er 3,5 ha í dag og er áætlað að raskað svæði verði við áframhaldandi efnistöku í heild 4,4 ha. Með umsókninni er lagt fram álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum ásamt umhverfismatsskýrslu. Gert er ráð fyrir að leyfið gildi til 31. desember 2039.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og laga um umhverfismat framkvæmda- og áætlana nr. 111/2021. Leyfið verði gefið út með gildistíma til 31. desember 2039. Að mati sveitarstjórnar koma allar helstu forsendur fyrir útgáfu leyfisins fram innan framlagðrar greinargerðar framkvæmdaleyfisins. Lagður er fram ítarlegri rökstuðningu fyrir útgáfu rekstrarleyfis vegna efnistöku innan greinargerðar framkvæmdaleyfis þar sem eftirfarandi atriði koma m.a. fram:
Um þegar raskað svæði er að ræða. Líkt og kemur fram í umhverfismatsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar er svæðið þegar raskað af fyrri efnistöku. Það réttlætir þó ekki sjálfkrafa áframhaldandi rask en vegur óneitanlega þungt að mati sveitarfélags um ákvörðun fyrir áframhaldandi efnistöku. Ljóst er að afla verður jarðefna fyrir framkvæmdir í sveitarfélaginu og er það mat sveitarfélagsins að umhverfisáhrif séu minni ef nýtt er náma sem nú þegar er opin og allir innviðir til staðar. Efnisþörfin hverfur ekki þó viðkomandi námuvinnslu væri hætt og myndi ásókn í aðrar námur aukast, eða þá að opna þyrfti nýjar námur með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Þar af leiðandi telur sveitarfélagið að það sé brýn nauðsyn í skilningi 3. mgr. 61. gr. laga um náttúruvernd að leyfa efnistöku á þegar röskuðu svæði í stað þess að opna ný efnistökusvæði. Um er að ræða sérstakt efni í samfélaginu. Rauðleita jarðefnið sem fæst úr Seyðishólum og hefur verið notað í stóran hluta malar- og sumarbúastaðavega á svæðinu er fyrir löngu orðið einkennandi fyrir svæðið og hluti af ímynd þess og sögu. Vilji er hjá sveitarfélaginu að halda í þetta einkenni. Áframhaldandi nýting sé skynsamleg út frá kolefnisspori. Mikil uppbygging í Grímsnesi kallar á mikla notkun jarðefna og er flutningur á efninu veigamikill þáttur í kolefnisspori framkvæmda. Það minnkar því kolefnissporið umtalsvert að hafa aðgang að opinni námu í nærumhverfinu. Álag á vegi og umferð er jafnframt minna sem og slit á ökutækjum, allt þetta stuðlar að minni umhverfisáhrifum heldur en ef sækja þyrfti efni um langan veg. Engin önnur náma af sambærilegri stærð er nær stóru sumarbústaðabyggðunum í Grímsnesi meðfram Soginu og Hvítá. Áframhaldandi nýting sé skynsamleg út frá lægri byggingarkostnaði. Jarðefni er nauðsynlegur þáttur í innviða- og mannvirkjagerð og flutningskostnaður hefur mikil áhrif á kostnaðarlið jarðefna í framkvæmdum. Að hafa aðgang að opinni námu í nærumhverfinu minnkar byggingarkostnað og eykur hagkvæmni uppbyggingar í sveitarfélaginu. Áframhaldandi rekstur efnistökusvæðisins hefur áhrif á atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Efnistakan í Seyðishólum er af þeirri stærðargráðu að hún hefur teljandi áhrif á atvinnulíf í sveitarfélaginu og stöðvun hennar myndi skilja eftir sig skarð sem eftir væri tekið.
Sveitarstjórn felur Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs. að grenndarkynna útgáfu leyfisins í 1 km radíus umhverfis efnistökusvæðið.
7. Tilkynning um fyrirhugaða niðurfellingu Bjarkarvegar (3759-01) af vegaskrá.
Fyrir liggur afrit af bréfi frá Vegagerðinni, dagsett 1. mars 2024 þar sem tilkynnt er um niðurfellingu Bjarkarvegar (3759-01) af vegaskrá.
Sveitarstjórn gerir athugasemd við niðurfellingu vegarins af vegaskrá enda er skráð búseta að Björk II, L203819 og felur sveitarstjóra að svara Vegagerðinni þess efnis.
8. Hestamannafélagið Jökull – ársskýrsla.
Lagður fram til kynningar ársreikningur og ársskýrsla Hestamannafélagsins Jökuls fyrir árið 2023.
9. Kvenfélag Grímsneshrepps – ársskýrsla.
Lagður fram til kynningar ársreikningur og ársskýrsla Kvenfélags Grímsneshrepps fyrir árið 2023.
10. Boð á Aðalfund Rangárbakka, þjóðarleikvagns íslenska hestsins ehf.
Lagt fram til kynningar.
11. Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaða í flokki II C, minna gistiheimili að Þrastarhólum 2 fnr. 234-4055.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 8. mars 2024 um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II C, minna gistiheimili að Þrastarhólum 2, 805 Selfossi, fnr. 234-4055.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leggjast gegn útgáfu rekstrarleyfis á grundvelli laga nr. 85/2007 í flokki II C að Þrastarhólum 2, fnr. 234-4055 á þeim grundvelli að leyfisveitingin samræmist ekki heimildum gildandi deiliskipulags svæðisins.
Sveitarstjórn bendir á að heimildir aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032 gera ráð fyrir að gististarfsemi geti verið á frístundasvæðum. Þó er gerð krafa um að gististarfsemi sé skilgreind í skilmálum gildandi deiliskipulags. Heimildir fyrir gististarfsemi innan deiliskipulags eru háðar því að fjöldi bílastæða innan lóðar sé fullnægjandi og að enginn lóðarhafi innan deiliskipulagssvæðisins leggist gegn starfseminni við breytingu á deiliskipulagi eða við gerð nýs deiliskipulags.
12. Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 84/2024, „Kosningar – kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga“.
Lagt fram til kynningar.
13. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 79/2024, „Áform um breytingu á lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun“.
Lagt fram til kynningar.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 10:30.

Skjöl

Getum við bætt efni síðunnar?