Sveitarstjórn
Ása Valdís Árnadóttir oddviti setti fund, bauð fundargesti velkomna og leitaði athugasemda við fundarboð, engar athugasemdir voru við boðun fundarins.
1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 23. fundar Framkvæmda- og veitunefndar, 27. janúar 2025.
Mál nr. 2, 3, 10, 12 og 13 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram 23. fundargerð Framkvæmda- og veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, dagsett 27. janúar 2025. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 2; Hraunbraut 2.
Fyrir liggur minnisblað Ragnars Guðmundssonar, dags. 13.01.2025 um lagfæringar á Hraunbraut 2. Framkvæmda- og veitunefnd leggur til að starfsmenn áhaldahúss og veitna forgangsraði nauðsynlegum framkvæmdum í samræmi við það sem lagt er til í minnisblaðinu með hliðsjón af fjárhagsáætlun.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu Framkvæmda- og veitunefndar.
Mál nr. 3; Borgarbraut 26.
Fyrir liggur minnisblað Ragnars Guðmundssonar og Steinars Sigurjónssonar, dags. 22.01.2025 um endurnýjun baðherbergis leiguíbúðar sveitarfélagsins að Borgarbraut 26. Framkvæmda- og veitunefnd leggur til að farið verði í nauðsynlegar framkvæmdir vegna lagna en reynt verði að takmarka umfang verksins að öðru leyti.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu Framkvæmda- og veitunefndar.
Mál nr. 10; Sundlaug á Borg – Stjórnkerfi og sturtur.
Fyrir liggur minnisblað Ragnars Guðmundssonar, dags. 23.01.2025 um endurnýjun stjórnbúnaðar og sturtukerfis í sundlauginni á Borg. Stjórnbúnaðurinn er kominn til ára sinna og ekki er lengur hægt að fá íhluti í stjórneiningar sundlaugarinnar. Framkvæmda- og veitunefnd leggur til að farið verði í endurnýjun búnaðarins sem fyrst.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu Framkvæmda- og veitunefndar.
Mál nr. 12; Rarik – Kostnaður vegna breytts skipulags á Borg.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Rarik vegna aukakostnaðar við heimtaugar í Hraunbraut 37A og 37B. Vegna deiliskipulagsbreytinga á Borg var einbýlishúsalóð breytt í parhúsalóð og því vantar eina heimtaug í götuskáp. Framkvæmda- og veitunefnd leggur til að erindið verði samþykkt. Jafnframt leggur nefndin til að sveitarfélagið sjái um yfirborðsfrágang og kostnaður við verkið lækki sem því nemur.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu Framkvæmda- og veitunefndar.
Mál nr. 13; Parket í Félagsheimilinu Borg.
Fyrir liggur minnisblað Steinars Sigurjónssonar, dags. 13.1.2025 um parket í Félagsheimilinu Borg. Nýlega kom upp sú staða að gólffjöl í salnum brotnaði og ekki hlaupið að því að fá samskonar fjöl til að skipta þeirri brotnu út. Samkvæmt fjárfestingaáætlun fyrir árin 2025-2028 var gert ráð fyrir að skipta út parketi í félagsheimilinu á árinu 2026. Í minnisblaðinu er lagt til að framkvæmdum verði flýtt og farið verði í verkið strax á þessu ári vegna þess sem að ofan er rakið. Framkvæmda- og veitunefnd leggur til að framkvæmdum við að endurnýja gólf félagsheimilisins verði flýtt og farið verði í verkið á árinu 2025.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu Framkvæmda- og veitunefndar.
b) Fundargerð 24. fundar Skólanefndar, 14. janúar 2025.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
c) Fundargerð 7. fundar Samráðshóps eldri borgara, 5. mars 2024.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
d) Fundargerð 295. fundar skipulagsnefndar UTU, 29. janúar 2025.
Mál nr. 12, 13, 14, 15, 16, 17, 18, 19, 20 og 31 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram 295. fundargerð skipulagsnefndar UTU, dagsett 29. janúar 2025. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 12; Eyvík L168241; Eyvíkurnáma E25; Framkvæmdarleyfi – 25011052.
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem felur í sér að fjarlægja 50.000 m3 af jarðefni úr Eyvíkurnámu E25 sem staðsett er á Túnholti á jörðinni Eyvík II í Grímsnes- og Grafningshreppi. Áætlað er að efnistaka fari fram í fimm áföngum þar sem klöpp verður sprengd í námunni. Áður en hægt er að sprengja bergið þarf að ýta lausum jarðvegi ofan af svæðinu sem spannar tæplega 2,5 ha. Svæðið er í dag gróið en fyrirhugað er að ýta lausu efni í mön sem verður í verklok nýtt til þess að ganga snyrtilega frá öllu framkvæmdasvæðinu, þannig að yfirborð sé sem jafnast og svo það falli vel að umhverfinu. Grasi skal svo sá á yfirborðið. Vegagerðin hefur áætlað meðalþykkt þess jarðefnis sem numið hefur verið sem 5 m en fyrirhugað er að fjarlægja efni þannig að náman falli slétt og vel að landslaginu í kring. Samkomulag við námurétthafa liggur fyrir.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og á grundvelli heimilda aðalskipulags sveitarfélagsins. Fyrir útgáfu leyfisins skal leita umsagnar til Vegagerðarinnar varðandi tengingu að svæðinu. Að öðru leyti telur sveitarstjórn að allar forsendur fyrir efnistöku á svæðinu liggi fyrir innan aðalskipulags. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins sem framkvæmdin tekur til en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Smári Bergmann Kolbeinsson vék af fundi undir þessum lið.
Mál nr. 13; Bakkahverfi L236382 við Álftavatn; Breyttir skilmálar; Deiliskipulagsbreyting - 2501051.
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til Bakkahverfis L236382 við Álftavatn. Um er að ræða breytingu á skilmálum í kafla 2.2. um hámarksstærðir bygginga á svæðinu. Nýtingarhlutfall er hækkað úr 0,03 í 0,05 til samræmis við breytta stefnu aðalskipulags er varðar nýtingarhlutfall á frístundalóðum sem er í kynningar- og auglýsingaferli.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að deiliskipulagið verði auglýst samhliða tillögu aðalskipulagsbreytingar sem tekur til breytinga á nýtingarhlutfalli á frístundasvæðum innan Grímsnes- og Grafningshrepps. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi.
Mál nr. 14; Hallkelshólar lóð, L168514; Fiskeldi; Deiliskipulag – 2406077.
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags fyrir fiskeldi að Hallkelshólum L168541 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Svæðið sem um ræðir er skilgreint sem iðnaðarsvæði I13 og landbúnaðarsvæði L2 í gildandi aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032. Heildarstærð deiliskipulagssvæðis er um 13,6 ha. Leyfi er fyrir allt að 135 tonna framleiðslu á laxaseiðum með 100 tonna hámarkslífsmassa. Markmið með gerð deiliskipulags er að heimila áframhaldandi uppbyggingu iðnaðarstarfsemi og íbúðir fyrir starfsfólk. Afmarkaðir eru byggingareitir og settir skipulagsskilmálar vegna bygginga. Einnig eru settir rammar um mótvægisaðgerðir vegna mögulegra umhverfisáhrifa af starfseminni. Jafnframt er heimilt að byggja íbúðir fyrir starfsfólk. Umsagnir og athugasemdir bárust við skipulagslýsingu sem eru lagðar fram við afgreiðslu málsins.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við þann hluta deiliskipulagsins sem tekur til uppbyggingar á fiskeldi og tengdri starfsemi á landinu í takt við heimildir aðalskipulags. Hins vegar telur sveitarstjórn ekki forsendur fyrir uppbyggingu á 5 íbúðarhúsum í tengslum við starfsemina. Hallkelshólar lóð 168514 sem viðkomandi deiliskipulag tekur til er iðnaðar- og athafnalóð samkvæmt skráningu, svæðið er flokkað er iðnaðarsvæði I13 í aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps þar sem gert er ráð fyrir fiskeldi á um 3 ha svæði. Í stefnumörkun aðalskipulags er ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð eða uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á landbúnaðarsvæði í tengslum við starfsemina.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps frestar afgreiðslu tillögunnar og felur skipulagsfulltrúa að hafa samráð við vinnsluaðila tillögunnar og umsækjanda er varðar framangreint.
Mál nr. 15; A- og B-gata úr Norðurkotslandi frístundabyggð; Lega lóða og aðkoma; Deiliskipulagsbreyting – 2410073.
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til A- og B-gatna frístundasvæðis í Norðurkotslandi eftir grenndarkynningu. Í breytingunni felst breytt lega lóða og byggingarreita innan svæðisins í takt við mælingar af svæðinu auk þess sem tekið er til aðkomumála á svæðinu. Athugasemdir bárust við grenndarkynningu málsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess.
Í ljósi framlagðra athugasemda synjar sveitarstjórn samhljóða deiliskipulagsbreytingunni eftir grenndarkynningu.
Mál nr. 16; Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps; Skilmálabreyting; Skógrækt og frístundabyggð; Aðalskipulagsbreyting – 2408047.
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna breytinga á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032 eftir kynningu. Í breytingunni felst nánari skilgreining á heimildum er varðar skógrækt í sveitarfélaginu auk þess sem skilmálum er varðar nýtingarhlutfall og uppbyggingu á frístundasvæðum er breytt.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna skógræktar og nýtingarhlutfalls og uppbyggingar á frístundasvæðum í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
Mál nr. 17; Framkvæmdaleyfi vegna vegaframkvæmda á Grafningsvegi efri, Þingvallavegi og Grafningsvegi neðri.
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til vegaframkvæmda á Grafningsvegi efri, Þingvallavegi og Grafningsvegi neðri. Verkið felst í styrkingu, breikkun og klæðningu bundins slitlags ásamt lagfæringu núverandi vegar. Einnig þarf að endurnýja ræsi sem fyrir eru í veginum. Framkvæmdarkaflinn sem um ræðir er 1,33 km að lengd.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan vegsvæðisins sem framkvæmdin tekur til en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Mál nr. 18; Minna-Mosfell L168262; Breytt landnotkun; Náma; Aðalskipulagsbreyting -2410017.
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032 eftir kynningu. Með breytingunni er skilgreint efnistökusvæði innan lands Minna-Mosfells fyrir allt að 50.000 m3 efnistöku til eigin nota.
Sveitarstjórn gerir ekki athugsemd við að framlögð tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Minna-Mosfells verði auglýst í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
Mál nr. 19; Minna-Mosfell L168262; Efnistökusvæði og landbúnaðarlóðir; Deiliskipulag -2412016.
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsáætlunar sem tekur til svæðis innan lands Minna-Mosfells L168262. Í deiliskipulaginu felst skilgreining heimilda fyrir uppbyggingu á tveimur landbúnaðarlóðum auk þess sem efnistökusvæði er skilgreint í samræmi við breytingu á aðalskipulagi sem er í ferli. Athugasemdir bárust við deiliskipulagstillöguna og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt andsvörum málsaðila.
Sveitarstjórn gerir ekki athugsemd við að deilskipulagið verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða auglýsingu aðalskipulagsbreytingar sem tekur til sama svæðis.
Mál nr. 20; Minna-Mosfell L168262; Öldusteinstún - frístundabyggð; Deiliskipulag -2410081.
Lögð er fram tillaga deiliskipulags, eftir kynningu, sem tekur til hluta frístundasvæðis F82 í landi Minna-Mosfells. Um er að ræða 1. áfanga af fjórum innan skipulagssvæðisins. Gert er ráð fyrir skilgreiningu á 21 lóð í fyrsta áfanga á bilinu 7.234 - 15.797 fm að stærð. Innan hverrar lóðar er gert ráð fyrir heimild fyrir frístundahúsi auk þess sem heimilt er að reisa geymslu, svefnhús eða gróðurhús innan byggingareits og hámarksnýtingarhlutfalls 0,03. Umsagnir og athugasemdir bárust við kynningu og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi sveitarstjórnar þann 22.1.25.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða auglýsingu aðalskipulagsbreytingar sem tekur til sama svæðis.
Mál nr. 31; Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 25-219 - 2501003F.
Lögð er fram til kynninga fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa 25-219.
e) Fundargerð stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. 23. janúar 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
f) Fundargerð 80. fundar Bergrisans bs., 13. janúar 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
g) Fundargerð 330. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands bs., 18. desember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
h) Fundargerð 79. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 7. nóvember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
i) Fundargerð ársfundar Brákar íbúðafélags hses., vegna ársins 2023, 15. janúar 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
2. Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 5/2024 um Freyjustíg 14.
Fyrir liggur úrskurður yfirfasteignamatsnefndar frá 27. janúar 2025 í máli nr. 5/2024 vegna kæru á álagningu fasteignaskatts vegna fasteignarinnar Freyjustíg 14, Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. 231-5305, fyrir árið 2024.
Niðurstöður úrskurðar eru að álagning fasteignaskatts vegna Freyjustígs 14, Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. 231-5305, fyrir tímabilið 1. janúar 2024 til 31. október 2024, skal vera samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en samkv. a-lið sömu lagagreinar fyrir annan hluta ársins 2024. Kröfu kæranda um endurgreiðslu fasteignaskatts vegna ofangreindrar fasteignar kæranda er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.
3. Fjárfestingar í vatnsveitu.
Árið 2023 keypti Grímsnes- og Grafningshreppur Orkubú Vaðnes ehf. sem rekur bæði hitaveitu og kaldavatnsveitu í Vaðnesi. Við kaupin var lagt upp með að sveitarfélagið myndi kaupa kaldavatnskerfið út úr OBV. Fyrir fund liggja drög að kaupsamningi á kaldavatnsveituhluta Orkubús Vaðness ehf.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna málið áfram í samstarfi við Lögmenn Suðurlands og að fullunnin gögn verði lögð fyrir sveitarstjórn til samþykktar þegar þau liggja fyrir.
4. Samstarf um vöktun Þingvallavatns.
Fyrir liggur að samningur um samstarf Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar, Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps vegna vöktunar á vistkerfum Þingvallavatns er að renna út.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að endurnýja samninginn og felur sveitarstjóra að klára málið.
5. Tilkynning um fyrirhugaðar breytingar héraðsvega í þéttbýli – Sólheimar (3774-01).
Fyrir liggur bréf frá Vegagerðinni, dagsett 24. janúar 2025 þar sem tilkynnt er um fyrirhugaða breytingu á skráningu á Sólheimavegi (3774-01) í vegaskrá.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við fyrirhugaðar breytingar.
6. Tilkynning um fyrirhugaða niðurfellingu Arnarbælisvegar (3749-01) af vegaskrá.
Lagt fram til afrit af bréfi frá Vegagerðinni, dagsett 21. janúar 2025 þar sem tilkynnt er fyrirhuguð niðurfelling Arnarbælisvegar (3749-01) af vegaskrá.
Sveitarstjórn gerir athugasemd við niðurfellingu vegarins af vegaskrá enda er enn skráð búseta að Arnarbæli 1b og felur sveitarstjóra að svara Vegagerðinni þess efnis.
7. Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs fyrir gistingu í flokki II, H frístundahús að Þrastarhólar 13 fnr. F2299202.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 21. janúar 2025, um umsögn vegna rekstrarleyfis til sölu gistingar í flokki II, H Frístundahús að Þrastarhólum 13 fnr. F2299202.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leggjast gegn útgáfu rekstrarleyfis á grundvelli laga nr. 85/2007 í flokki II H að Þrastarhólum 13 fnr. F2299202 á þeim grundvelli að leyfisveitingin samræmist ekki heimildum gildandi deiliskipulags svæðisins. Sveitarstjórn bendir á að heimildir aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032 gera ráð fyrir að gististarfsemi geti verið á frístundasvæðum. Þó er gerð krafa um að gististarfsemi sé skilgreind í skilmálum gildandi deiliskipulags. Heimildir fyrir gististarfsemi innan deiliskipulags eru háðar því að fjöldi bílastæða innan lóðar sé fullnægjandi og að enginn lóðarhafi innan deiliskipulagssvæðisins leggist gegn starfseminni við breytingu á deiliskipulagi eða við gerð nýs deiliskipulags.
8. Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs fyrir gistingu í flokki II, H frístundahús að Jórukleif, Rofabæ 4 fnr. F2209648.
Tekið fyrir að nýju bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 23. september 2024, um umsögn vegna rekstrarleyfis til sölu gistingar í flokki II, H Frístundahús að Rofabæ 4 fnr. F2209648. Búið er að gera deiliskipulagsbreytingu sem heimilar gististarfsemi á svæðinu.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemdir við að veitt verði leyfi í rekstrarflokki II að Rofabæ 4 fnr. F2209648 í Grímsnes- og Grafningshreppi.
9. Framkvæmd sundkennslu á unglingastigi í grunnskólum landsins.
Lagt fram til kynningar erindi frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu dagsett 23. janúar 2025, um breytingu á sundkennslu á unglingastigi í grunnskólum landsins.
10. Ályktun Félags íþrótta-, æskulýðs-, og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT) um áfengissölu á íþróttaviðburðum á landinu.
Fyrir liggur ályktun frá haustfundi Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi vegna sölu áfengis á íþróttaviðburðum.
Lagt fram til kynningar.
11. Styrktarbeiðni frá Miðstöð slysavarna barna.
Fyrir liggur bréf dagsett 29. janúar 2025 frá Herdísi L. Storgaard stofnanda góðgerðarfélagsins Miðstöð slysavarna barna. Í bréfinu er óskað eftir styrk að upphæð kr. 50.000.- til fjármögnunar myndbands með námskeiði á rafrænu formi fyrir foreldra á landsbyggðinni.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða styrkbeiðnina.
Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 10:12.