Sveitarstjórn
Ása Valdís Árnadóttir oddviti setti fund, bauð fundargesti velkomna og leitaði athugasemda við fundarboð, engar athugasemdir voru við boðun fundarins.
1. Kynning frá Arctic Adventures.
Fulltrúar Arctic Adventures Ásgeir Baldursson og Birta Ísólfsdóttir mættu á fund sveitarstjórnar og kynntu breytingu á deiliskipulaginu við Kerið ásamt uppbyggingu gestastofu á svæðinu. Jafnframt sat Vigfús Þór Hróbjartsson skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins kynninguna.
2. Fundargerðir.
a) Fundargerð 12. fundar Lýðheilsu- og æskulýðsnefndar, 22. janúar 2025.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
b) Fundargerð 13. fundar Lýðheilsu- og æskulýðsnefndar, 13. febrúar 2025.
Mál nr. 2 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram 13. fundargerð Lýðheilsu- og æskulýðsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, dagsett 13. febrúar 2025. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 2; Heilsueflandi samfélag viðburðaáætlun.
Fyrir liggur viðburðaráætlun Heilsu- og tómstundafulltrúa sem tekur til heilsueflandi viðburða á vegum sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðburðaráætlun um heilsueflandi viðburði.
c) Fundargerð 296. fundar skipulagsnefndar UTU, 12. febrúar 2025.
Mál nr. 13, 14, 15 og 24 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram 296. fundargerð skipulagsnefndar UTU, dagsett 12. febrúar 2025. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 13; Torfastaðir 1 L170828; Tilfærsla á efnistökusvæði E-23 og skilgreining nýs efnistökusvæðis; Fyrirspurn – 2501047.
Lögð er fram fyrirspurn er varðar Torfastaði 1 og 2 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í fyrirspurninni felst beiðni um tilfærslu á efnistökusvæði E-23 auk skilgreiningar á nýju svæði í stað þess innan jarðar Torfastaða 2. Forsenda tilfærslu E-23 er að heimild fáist fyrir skilgreiningu nýs efnistökusvæðis í landi Torfastaða 2.
Sveitarstjórn hafnar samhljóða tilfærslu á efnistökusvæði E23. Sveitarstjórn vísar því til umsækjanda að sækja um breytingu á aðalskipulagi sem tekur til skilgreiningar á nýju efnistökusvæði í landi Torfastaða 1.
Mál nr. 14; Leynir 5 L233254 og Leynir L230589; Útleiga frístundahúsa; Skilmálabreyting; Deiliskipulagsbreyting – 2501034.
Lögð er fram beiðni um breytingu á skilmálum deiliskipulags frístundasvæðisins Leynis. Í breytingunni felst að skilgreindar eru heimildir fyrir útgáfu rekstrarleyfis vegna gistingar í flokki II innan svæðisins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt innan skipulagssvæðisins. Jafnframt verði tillagan kynnt sumarhúsafélögum þeirra svæða sem sameiginlegur vegur að viðkomandi sumarhússvæði liggur að. Að mati sveitastjórnar er ljóst að þeir aðilar sem hafa aðgang að sameiginlegum vegi og hliði um svæðið hafi hagsmuna að gæta gagnvart framlagðri breytingu.
Mál nr. 15; Furuborgir, Minniborgum; Frístundasvæði; Deiliskipulag – 2406078.
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til frístundasvæðis F59, Furuborgir í landi Minniborgar, eftir yfirferð Skipulagsstofnunar. Skipulagðar eru 37 lóðir á bilinu 3.735 - 11.255 m2. Heimiluð verður uppbygging frístundahúsa og gestahúsa í samræmi við heimilað byggingarmagn skv. nýtingarhlutfalli. Níu lóðir innan svæðisins eru byggðar. Athugasemdir bárust við gildistöku tillögunnar frá Skipulagsstofnun og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum.
Sveitarstjórn samþykkir framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu og afgreiðslu Skipulagsstofnunar með fyrirvara um uppfærslu á uppdrætti í takt við bókun skipulagsnefndar. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við öðrum athugasemdum Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti og/eða þeim svarað. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Gögnin verði send Skipulagsstofnun til varðveislu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Mál nr. 24; Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 25-220 - 2501005F
Lögð er fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa nr. 25-220.
d) Fundargerð 81. fundar Bergrisans bs., 27. janúar 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
e) Fundargerð 242. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands, 11. febrúar 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
f) Fundagerð 618. fundar stjórnar SASS, 24. janúar 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
g) Fundargerð 80. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 31 janúar 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
h) Fundargerð 960. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 13. desember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
i) Fundargerð 961. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 17. janúar 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
j) Fundargerð 962. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 22. janúar 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
k) Fundargerð 963. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 31. janúar 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
3. Minna-Mosfell L168262; Öldusteinstún - frístundabyggð; deiliskipulag -2410081.
Tekið fyrir að nýju mál númer 20 á 295. fundi skipulagsnefndar frá 29. janúar 2025. Mistök urðu við fyrri bókun sveitarstjórnar þar sem tilgreint er að deiliskipulagið skuli auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingu. Deiliskipulagi er hins vegar í samræmi við stefnumörkun gildandi aðalskipulags sveitarfélagsins þar sem svæðið er skilgreint innan marka F82. Engin aðalskipulagsbreyting er í vinnslu tengd framlagðri deiliskipulagstillögu. Er því tillagan lögð fram að nýju, eftir kynningu, sem tekur til hluta frístundasvæðis F82 í landi Minna-Mosfells. Um er að ræða 1. áfanga af fjórum innan skipulagssvæðisins. Gert er ráð fyrir skilgreiningu á 21 lóð í fyrsta áfanga á bilinu 7.234 - 15.797 fm að stærð. Innan hverrar lóðar er gert ráð fyrir heimild fyrir frístundahúsi auk þess sem heimilt er að reisa geymslu, svefnhús eða gróðurhús innan byggingareits og hámarksnýtingarhlutfalls 0,03. Umsagnir og athugasemdir bárust við kynningu og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkir samhljóða deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
4. Viðauki við fjárhagsáætlun 2025.
Lagður er fram viðauki 1 við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps fyrir árið 2025. Viðaukinn gerir ráð fyrir hækkun á fjárfestingaáætlun ársins um m.kr. 30.212.944. Fjárfestingaáætlun 2025 hækki því sem nemur m.kr. 30.212.944. Viðaukanum er mætt með lækkun á handbæru fé.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagðan viðauka.
5. Samningur um kaup á innviðum vatnsveitu Orkubús Vaðnes ehf.
Fyrir liggur kaupsamningur og afsal vegna kaupa Grímsnes- og Grafningshrepps á innviðum vatnsveitu Orkubús Vaðnes ehf. Um er að ræða allt stofn- og dreifikerfi vatnsveitunnar með öllu því sem því tilheyrir, þ.m.t. allar lagnir, dælubúnað, vatnstanka og annað það lausafé sem tilheyrir vatnsveitunni.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita kaupsamninginn, afsöl og önnur skjöl sem málið varðar.
6. Erindi frá Tónlistarskóla Árnesinga.
Lagt fyrir að nýju erindi frá Tónlistarskóla Árnesinga sem frestað var á 584. fundi sveitarstjórnar; Ósk um aukinn kennslukvóta í Grímsnes- og Grafningshreppi 2025. Í haust fékk Tónlistarskóli Árnesinga aukinn kennslukvóta frá Grímsnes- og Grafningshreppi og fjölgaði kenndum klukkustundum. við það úr 8,5 klukkustundir í 9,5. Á biðlista í Grímsnes- og Grafningshreppi eru núna 7 umsækjendur. Óskað er eftir auknum kennskukvóta frá 1. febrúar um 1,5 klukkustundir.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hafnar beiðni um aukinn kennslukvóta frá 1. febrúar en óskar jafnframt eftir því að Tónlistarskóli Árnesinga sendi inn nýtt erindi sem tekur til skólaársins 2025-2026.
7. Frístunda- og menningarstarf í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir fundinum liggur annars vegar minnisblað um vetrarútiaðstöðu í sveitarfélaginu og hins vegar minnisblað um frístundaaðstöðu. Á fundinum urðu umræður um málið.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að stofna nefnd til að skoða heilt yfir frístunda- og menningarstarf sveitarfélagsins og leggja fram tillögur að framtíðarfyrirkomulagi. Nefndina skipa Ása Valdís Árnadóttir, Björn Kristinn Pálmarsson og Ragnheiður Eggertsdóttir, Heilsu- og tómstundafulltrúi mun jafnframt vinna með hópnum. Nefndin á að skila afrakstri sínum í september.
8. Reglur um lýðheilsu- og tómstundastyrk Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggja uppfærðar reglur um lýðheilsu- og tómstundarstyrk Grímsnes- og Grafningshrepps eftir yfirferð Lýðheilsu- og æskulýðsnefndar. Meginbreytingin er að nú veitir Grímsnes- og Grafningshreppur styrk vegna barna á aldrinum 0 - 18 ára í stað barna á aldrinum 5-18 ára.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða reglur um lýðheilsu- og tómstundastyrk Grímsnes- og Grafningshrepps.
Jafnframt samþykkir sveitarstjórn samhljóða að lýðheilsu- og tómstundastyrkurinn fyrir árið 2025 verði 60.000.- krónur.
9. Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs fyrir gistingu í flokki II, C minna gistiheimili að Þóroddstöðum 1, fnr.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 7. febrúar 2025, um umsögn vegna rekstrarleyfis til sölu gistingar í flokki II, C minna gistiheimili að Þóroddstöðum 1, fnr. F2508577.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemdir við að veitt verði leyfi í rekstrarflokki II, C minna gistiheimili að Þóroddstöðum 1 í Grímsnes- og Grafningshreppi með fyrirvara um jákvæða umsögn byggingarfulltrúa.
10. Auglýsing eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar erindi frá tilnefningarnefnd Lánasjóðs sveitarfélaga, dagsett 11. febrúar 2025, þar sem auglýst er eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga. Áformað er að halda aðalfund Lánasjóðsins 20. mars á Hilton Reykjavík Nordica í Reykjavík. Frestur til að skila framboðum eða tilnefningum til kjörnefndar rennur út kl. 12 á hádegi miðvikudaginn 24. febrúar.
11. Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 23/2025, „Áform um fyrirhugaðrar breytingar á gr. laganna um mat á fjárhagslegum áhrifum lagafrumvarpa á sveitarfélög.
Lagt fram til kynningar.
12. Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 21/2025, „Endurskoðun fyrirkomulags eftirlitskerfis með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum“.
Lagt fram til kynningar.
Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.11:23