Endurbygging Klausturhólarétta
21.02.2025
Framkvæmdir eru hafnar í Klausturhólaréttum, en gert var ráð fyrir því í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins að endurbyggja réttirnar samkvæmt tillögu fjallskilanefndar. Búið er að ryðja niður gömlu réttunum og koma þeim í förgun, en þær voru steyptar upp árið 1952. Ástand þeirra var orðið verulega slæmt og hættulegt bæði mönnum og dýrum. Niðurrif og jarðvinnu annast sannkallað heimafólk, en það er JÞ Verk ehf. sem sér um þann hluta framkvæmdanna. Þegar jarðvinnu er lokið tekur við endurbygging á réttunum, en til að byrja með verða byggðir þrír dilkar ásamt almenningi, auk þess sem skúrar sem stóðu við innrekstrardilk verða endurbyggðir. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið í sumar.
Síðast uppfært 21. febrúar 2025