Fara í efni

Fréttatilkynning frá stjórn Samtaka orkusveitarfélaga

Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga fékk í dag kynningu á tillögum starfshóps um vindorku sem síðar um voru kynntar á blaðamannafundi. Tillögurnar voru unnar fyrir tilstilli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og var markmið starfshópsins að koma með tillögur að umgjörð á uppbyggingu vinorkunýtingar á Íslandi, þar sem litið yrði til áherslu um að slík orkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt yrði að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Þá var lögð áhersla á að vinna starfshópsins myndi leiða til þess að breið sátt geti ríkt um uppbyggingu vindorkuvera.

Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga hefur fundað með starfshópnum á meðan vinnunni stóð og komið á framfæri þeim álitamálum er tengjast uppbyggingu vindorku á Íslandi meðal annars er snúa að skipulagsvaldi sveitarfélaga, skilgreiningu nærumhverfis, álitamál er varða tekjur nærsamfélagsins af virkjanakosti af þessu tagi og mörgum fleiri álitamálum. Stjórn vill þakka starfshópnum sem og ráðherra fyrir gott samstarf, opið og gott samtal sem mun halda áfram þar til Alþingi afgreiðir málið.

Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga mun taka málið fyrir og veita umsögn þegar það kemur í heild sinni í samráðsgátt stjórnvalda en vill koma því á framfæri að við teljum að með þessum tillögum sé sannarlega verið að stuðla að sátt um uppbyggingu vindorkunýtingar. Starfshópurinn hefur náð vel utan um álitamálin er varða uppbyggingu vindorkunýtingar svo sem hvort slík verkefni eigi heima innan eða utan ramma, leggja til að virt sé skipulagshlutverk sveitarfélaga, horft er til umhverfis og náttúruverndarsjónarmiða svo sem með útilokun svæða, ávarpað leiðir til forgangsröðunar uppbyggingu og fleira.

Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga telur að almenn umræða um vindorkunýtingu hafi þroskast og að fyrirsjáanlegt sé að hægt verði að vinna málið til enda svo um það ríki almenn sátt.


Fyrir hönd stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga

Ása Valdís Árnadóttir, formaður

Netfang formanns oddviti@gogg.is

Heimasíða Samtaka orkusveitarfélaga: www.orkusveitarfelog.is

Síðast uppfært 14. desember 2023
Getum við bætt efni síðunnar?