Fara í efni

Jarðgöng - og hvað svo?

Vegagerðin stendur fyrir morgunfundi fimmtudaginn 18. janúar kl. 09:00-10:15. Fjallað verður um rekstur og þjónustu í jarðgöngum á Íslandi og hvernig er staðið að vöktun þeirra. Einnig verður farið yfir hvernig brugðist er við þegar eldur kviknar í bíl í jarðgöngum en slíkt atvik átti sér stað í Hvalfjarðargöngum síðla árs 2023.

Áhugi fólks á byggingu jarðganga er mikill, enda stytta þau vegalengdir og tengja samfélög, en færri vita hvað felst í því að viðhalda og reka göng svo þau virki best fyrir þá umferð sem um þau fara.

Tækjabúnaður í jarðgöngum er til að mynda æði mikill. Sem dæmi eru þar fjölmargar myndavélar sem vaktstöð Vegagerðarinnar notar til að vakta alla króka og kima ganganna. Þar má einnig finna yfir tug mismunandi skilta, ljósabúnað af ýmsu tagi, neyðarsíma, slökkvitæki og margar ólíkar tegundir af nemum sem mæla meðal annars veghita, lofthita, mengun og umferðarþunga. Þá má nefna rafdreifikerfi, ljósleiðarakerfi, fjarskiptakerfi, vöktunarkerfi, lokunarbúnað og loftræstikerfi með öflugum blásurum.

Brunavarnir eru afar mikilvægar í jarðgöngum. Á fundinum verður farið yfir atvik sem varð í Hvalfjarðargöngum í haust þegar kviknaði í bíl, hvernig var brugðist við og almennt hvað vegfarendur þurfa að hafa í huga við slíkar aðstæður.

Loks verður sagt frá hlutverki vaktstöðva Vegagerðarinnar í vöktun á jarðgöngum landsins og frumsýnt stutt myndband þar sem farið er yfir það hvað gerist ef bíll bilar í Hvalfjarðargöngum en slíkt gerist nánast daglega.

Dagskrá fundarins:

Opnun fundar. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Hvað gerist þegar eldur kviknar í bíl? Valgarður Guðmundsson, sérfræðingur á Suðursvæði Vegagerðarinnar.

Búnaður í jarðgöngum og umfang rekstrar. Hávarður Finnbogason, sérfræðingur á tækjabúnaðardeild, og Steinþór Björnsson, verkefnastjóri jarðganga í vegaþjónustudeild.

Vöktun í jarðgöngum. Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs.

Fundarstjóri: G. Pétur Matthíasson

 

Morgunfundurinn verður haldinn í húsnæði Vegagerðarinnar, Suðurhrauni 3 í Garðabæ.

Opið er á meðan húsrúm leyfir og það verður heitt á könnunni. Fundinum er einnig streymt hér á síðunni og á facebook.

Hægt verður að senda inn fyrirspurnir í gegnum vefsíðuna; Slido.com. Lykilorðið er „jardgong“.

Streymi frá fundinum.

Síðast uppfært 12. janúar 2024
Getum við bætt efni síðunnar?