Fara í efni

Lóðir í Grímsnes- og Grafningshreppi - Borg í sveit

Á dögunum hóf sveitarfélagið að auglýsa lóðir í sveitarfélaginu. Í þessum fyrsta áfanga er um að ræða auglýsingar vegna sölu á byggingarétti á 11 athafnalóðum við Borgargil nr. 4-24. Lóðirnar liggja á svæði sem er skilgreint sem athafnasvæði AT2 í aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032, en svæðið er ætlað undir fjölbreytta atvinnustarfsemi svo sem léttan iðnað, áhaldahús og verkstæði.

Opnun tilboða fer fram föstudaginn 28. júní n.k. í Stjórnsýsluhúsinu Borg.

Í sumar fer sveitarfélagið svo í frekari úthlutanir en til stendur að fara af stað með hugmyndasamkeppni vegna lóða við Miðtún á Borg en þar er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustulóðum með blöndu af verslun, þjónustu og veitingarekstri ásamt hótellóð. Gert er ráð fyrir að á því svæði rísi hraðhleðslustöð með eldsneytissölu og smávöruverslun svo dæmi sé nefnt. Leitað verður eftir aðilum sem eru tilbúnir að taka þátt í viðræðum við sveitarfélagið um útfærslu og nýtingu lóðanna. Sveitarfélagið leggur áherslu á að semja við hæfan aðila sem kemur með hugmynd að nýtingu lóðar, sem er til þess fallin að styðja við mannlíf og menningu í sveitarfélaginu.

Eftir það verða íbúðahúsalóðir í fyrsta áfanga vestan við Borg auglýstar, en framkvæmdir við gatnagerð við Lækjartún og Borgartún eru í fullum gangi.

Sveitarstjórn hefur unnið ötullega að undirbúningi þessara verkefna með tilliti til skipulagsmála um árabil og nú er komið að því að sú vinna verður meira áþreifanleg fyrir íbúa og aðra sem sækja svæðið okkar heim. Ætlunin er að vaxa á skynsamlegum nótum og því var ákveðið að áfangaskipta úthlutun lóða undir íbúðarhús og á athafnasvæði.

Áhugasamir geta kynnt sér málið betur á www.borgisveit.is

Síðast uppfært 29. maí 2024
Getum við bætt efni síðunnar?