Nýir pokar undir lífrænan úrgang
Á vormánuðum tekur við ný meðferð á lífrænum úrgangi sem safnast í sveitarfélaginu og frá þeim tíma má ekki setja maíspoka í lífræna úrganginn. Þess í stað verður stuðst við bréfpoka. Ástæða þess er sú að lífræni úrgangurinn mun fara í moltugerð hjá Gas- og jarðgerðarstöð Gaju á Álfsnesi, en sú stöð tekur ekki við maíspokum þar sem þeir geta valdið vandræðum í vélbúnaði stöðvarinnar.
Bréfpokarnir standa íbúum og fasteignaeigendum til boða endurgjaldslaust, en hægt er að nálgast þá í Íþróttamiðstöðinni Borg, á Gámastöðinni Seyðishólum, í Grænu könnunni á Sólheimum og á skrifstofu sveitarfélagsins.
Að gefnu tilefni er fólk hvatt til þess að taka ekki fleiri poka en það þarf í einu. Í hverju búnti eru 80 stk. af pokum sem ættu að endast í u.þ.b. 6 mánuði á meðalheimili.
Þá stendur fólki einnig til boða að fá nýja körfu undir pokana sem er sérhönnuð fyrir þessa tegund poka, en körfurnar verða eingöngu afhentar á skrifstofu sveitarfélagsins.